

Erla Björg Gunnarsdóttir, annar ritstjóra Vísis, hefur tilkynnt að í ljósi umræðunnar um mynd af Snorra Mássyni, varaformanni Miðflokksins í dag, hafi miðilinn ákveðið að skipta um mynd. Umræðan hafi farið í að snúast um myndina en ekki fréttina. Segir Erla Björg engin annarleg sjónarmið liggja í vali á myndinni.
„Varðandi myndbirtingu á Vísi
Með grein um Snorra Másson sem birtist á Vísi í dag var valin mynd af honum að fagna kjöri sem varaformaður Miðflokksins á nýlegu landsþingi. Á því augnabliki hélt hann á barni sínu undir dynjandi lófataki og var barnið því á öllum myndum Vísis af þessari sigurstundu. Myndin var ekki valin með önnur sjónarmið í huga en þau að sýna Snorra í nýju og stærra hlutverki á hans pólitíska ferli.
Í ljósi þess að umræðan er farin að snúast meira um myndina en efni greinarinnar þá höfum við, með tilliti til hagsmuna barnsins, kosið að skipta um mynd. Skiptir þá engu þótt myndin hafi áður birst í fréttum og Snorri sjálfur deilt henni á samfélagsmiðlum sínum.“