

Þórunn Ólafsdóttir, sem er helst þekkt fyrir störf á sviði mannúðar- og sjálfboðastarfa, blandar sér í umræðu dagsins: myndbirtingu Vísis af Snorra Mássyni, varaformanni Miðflokksins, með son sinn í fanginu sem forsíðumynd um umfjöllun um meintan rasisma Snorra.
Segir Þórunn það ekki smekklegt að draga börn inn í umræðu um foreldra þeirra, sama hverra foreldra þau eru.
„Ekki heldur barn stjórnmálamanns sem byggir pólitískan feril sinn á því að draga önnur börn ofan í forarpytt sinna eigin fordóma,“
segir Þórunn í færslu sinni á Facebook. Nefnir hún Snorra ekki á nafn eða starf hans, en augljóst er hvern átt er við.
Segir hún börn ekki heldur eiga skilið að vera dregin inn í umræðu Snorra:
„Börn af erlendum uppruna, trans börn og börn með annað móðurmál en íslensku hafa ekkert gert til að eiga það skilið að vera sett í eldlínuna í hvert skipti sem hann opnar á sér munninn.
Hann getur haldið því fram að „hann sé bara að spyrja spurninga” eða að „opna umræðuna”, en það breytir því ekki að þetta ömurlega hundaflaut hans setur börn í ósanngjarna stöðu í hvert einasta skipti sem hann blæs í flautuna.
Ég get lofað ykkur því að hans pólitísku áhrif valda öllum sem vilja vernda börn fyrir fordómum, skilningsleysi og útilokun bæði vanlíðan og áhyggjum.“
Segir Þórunn netverja virðast eiga til næga hluttekningu þegar foreldrar barnsins á myndinni lýsa skoðunum sínum á birtingu hennar, það er Snorri og eiginkona hans, Nadine Guðrún Yaghi.
„Ég treysti því að sama fólki sé misboðið þegar foreldrið á myndinni útsetur önnur börn en sín eigin fyrir „umræðunni” um hvort þau eigi rétt á að vera til, vera frjáls eða vera eins og þau eru.“