

Neyðarkall Slysavarnafélagsins Landsbjargar í ár var straumvatnsbjörgunarmaður til heiðurs og minningar Sigurðar Kristófers McQuillan Óskarssonar. Sigurður, sem var formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ, lést við björgunaræfingu í Tungufljóti 3. nóvember 2024. Hann var 36 ára.
Foreldrar Sigurðar, Karin Agnes McQuillan og Óskar Ágúst Sigurðsson, lýsa missinum sem óbærilegum sársauka. Sigurður var eina barn þeirra saman, en Óskar átti fyrir tvö uppkomin börn. Hjónin segja sögu sonar síns í Þetta helst á Rás 1. Þau segja tvær dagsetningar hafa markað líf þeirra, þegar þau urðu foreldrar Sigurðar og þegar þau misstu hann.
„Það eru tvær dagsetningar sem hafa markað líf okkar. Sú fyrri er 1. maí 1988 þegar við vorum svo lánsöm að verða foreldrar Sigga okkar og svo 3. nóvember síðastliðinn þegar elskulegur sonur okkar lést af slysförum við björgunarsveitaræfingu við Tungufljót. Fyrri dagurinn var sá hamingjuríkasti í lífi okkar en sá seinni varð andstæðan,” skrifuðu þau í minningargrein um son sinn í Morgunblaðinu í fyrra.
Beðin um að lýsa því í Þetta helst hvernig var að sjá Sigurð í fyrsta sinn segir móðir hans:
„Ég var svo glöð. Ég beið í átta ár eftir barni. Hann var bara minn við fyrstu sýn,“ segir Karin. Hjónin ættleiddu Sigurð og sóttu á barnaheimili í Kalkútta á Indlandi. Hann fæddist 5. október 1988 og dvaldi á barnaheimilinu fyrstu mánuðina. Fjölskyldan kom heim til íslands 1. maí 1989, þegar Sigurður var sjö mánaða.
Hjónin segja Sigurð hafa verið einstaklega ánægt og glatt barn. Hann hafi verið augasteinn þeirra hjóna og fært þeim mikla hamingju í gegnum lífið. Hann hafi alla tíð verið duglegur, farið snemma að vinna með skóla og á tíma verið í þremur vinnum. Óskar segist hafa furðað sig á því þar sem Sigurður var lítill og smágerður að hann hafi alltaf verið ákveðinn í að verða vélvirki eða járnsmiður. Sigurður var vélvirki og með meistagráðu í vélvirkjun.
Fjölskyldunni finnst Sigurði mikill heiður sýndur með að Neyðarkallinn var tileinkaður honum. Móðir hans glímir við illvígt krabbamein og þótti sérlega vænt um að upplifa þetta.
„Ég er svo stolt, ég er svo stolt að allir viti hver frændi minn var. Því ég veit það og ég veit hvernig hann var,“ segir frænka Sigurðar, Auður Lorenzo. Móðir hennar er dóttir Óskars og hálfsystir Sigurðar.
Beðin um að lýsa árinu án sonar síns segist Karin vakna grátandi og sofna grátandi, hún hugsi um hann alltaf. Hún hafi þó kynnst og tengst fullt af fólki sem hún þekkti ekki áður sem voru vinir Sigurðar, nú séu þau vinir hennar. Hún þekki sorgina úr starfi sínu sem hjúkrunarfræðingur og hafi upplifað erfiðar aðstæður syrgjenda í starfinu. Það sé allt annað að syrgja sjálf.
„Það getur enginn tekið pláss hans.“
„Siggi er okkur svo mikils virði að maður kemst ekki yfir það að missa hann. Okkur finnst alltaf gaman að segja frá honum. Við höfum líka heyrt margt um hann sem við vissum ekki áður,“ segir Óskar.
Sjá má myndir af Sigurði sem barni og fleiri myndir úr fjölskyldualbúminu og hlusta má á einlægt viðtal við foreldra Sigurðar í Þetta helst hér.