

Greint var frá því þann 24. október síðastliðinn að Dóra hygðist bjóða sig fram til nýs embættis formanns Pírata. Búist er við því að formaður verði kjörinn á aukaaðalfundi flokksins þann 29. nóvember næstkomandi. Eins og sakir standa bendir flest til þess að þær Alexandra Briem og Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns verði tvær í framboði til formanns.
Elsku vinir.
Ég vil þakka kærlega öllum þeim sem hafa hvatt mig til að bjóða mig fram til formanns Pírata. Ég vil þakka öllum sem hafa lagt mér lið og sem hafa haft trú á þeirri breytingu og skýru framtíðarsýn fyrir flokkinn sem ég hef boðað með framboði mínu.
Ég steig fram og ákvað að vera fullkomlega heiðarleg með þær hugmyndir sem ég hef talið vera bestu leiðina áfram til uppbyggingar, því ég get aðeins leitt flokkinn í átt sem ég trúi á. Meðal þeirra eru samtal um nafnabreytingu og að vera áfram opin fyrir lausnum frá bæði hægri og vinstri. Þá frekar en að halda áfram að fara lengra til vinstri eins og mér hefur fundist þróunin hafa verið síðustu ár. En þetta hefur valdið meiri skjálfta innan flokksins en ég hefði viljað ásamt því að einhverjir hafa sagt sig úr flokknum.
Mér þykir það miður. Ég ætlaði ekki að skapa óeiningu og sundrungu í flokknum og þvert á móti. Ég held ekki að það sé það sem flokkurinn þarfnast á þessum viðkvæma tímapunkti.
Mér hugnast ekki að taka við formennsku í flokknum með breytingu að leiðarljósi við þessar aðstæður. Vegna þess að farsæl skref breytinga krefjast samstöðu og að fólk rói í sömu átt.
Enn fremur hafa tveir fínir frambjóðendur stigið fram og því ekki sama brýna þörfin á mínum kröftum.
Ég tel ekki það rétta núna að fara að takast af hörku á um framtíðina, mér þykir vænt um hreyfinguna og fólkið sem ber hana uppi og held að það þurfi að skapa frið um næstu skref. Ég hef því ákveðið að draga til baka framboð mitt til formanns Pírata.
Til að stuðla vonandi að meiri einingu og samstöðu innan flokksins en líka af virðingu við mín eigin gildi og þá sýn sem ég ber í brjósti. Þetta gefur mér að auki svigrúm til að veita störfum mínum í borgarstjórn óskipta athygli en þar eru verkin bæði brýn og mörg.
Ykkar,
Dóra Björt