

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann um tvítugt í skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárásir og hótanir. Er þetta í annað sinn sem hann hlýtur slíkan dóm en í fyrra skiptið var hann dæmdur fyrir brot sem hann framdi þegar hann var 15 og 16 ára. Ungur aldur mannsins hafði nokkuð en þó ekki síst að þegar hann framdi brotin sem hann var dæmdur fyrir í þetta sinn var hann enn á skilorði vegna fyrri dómsins, en annars er ekki óalgengt að menn séu dæmdir í óskilorðsbundið fangelsi fremji þeir ofbeldisbrot í annað sinn.
Í þessu máli var ungi maðurinn ákærður fyrir hótanir árið 2023 í garð konu í skilaboðum á Snapchat en hótanirnar voru svohljóðandi en með fylgdi mynd af brotinni rúðu á heimili hennar á Akureyri:
„Næst kveikja í þínu húsi.“
„Ég sakna þín hví ertu haga þér svona ég og þú erum sett á þessa jörð til þess að vera sama og deyja saman.“
„Ekki spila þetta erfitt ég skal stoppa að halda þér í hjarta mínu en það fær þig einginn í staðinn ég verð að ljúka þér eithver veginn hvernig hljómar dinner date uppá Heiðmörk kl. 12. í kvöld…“
„Vertu með eitt auga opið á nætunar því ég sver það við sál mína ástin mín að ég og þú erum að fara að hittast bráðum. Það verður þitt lokatækifæri í þessum heimi er það vertsa sem hefur komið fyrir þig mundu það.“
Ungi maðurinn var einnig ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa árið 2023 slegið annan karlmann utandyra á Akureyri með áhaldi úr málmi í höfuðið með þeim afleiðingum að hann halut þriggja sentímetra skurð á hnakka.
Þriðji ákæruliðurinn var fyrir hótanir og líkamsárásir, þetta sama ár 2023, en samkvæmt honum sló ungi maðurinn annan mann með bakhluta axarblaðs í aðra höndina með þeim afleiðingum að einn fingur brotnaði. Þetta átti sér stað á bifreiðastæði við Kjarnaskóg á Akureyri en samkvæmt ákærunni hótaði ungi maðurinn þolandanum í kjölfarið frekari líkamsmeiðingum og móður hans lífláti ef hann myndi leita til lögreglu.
Í fjórða lagi var ungi maðurinn ákærður fyrir vopnalagabrot á þessu ári með því að hafa hníf innanklæða á almannafæri en skömmu áður hafði lögregla verið kölluð til vegna mannsins og tveggja félaga hans en þeir voru sakaðir um hótanir í garð starfsmanns í verslanamiðstöðinni Glerártorgi á Akureyri.
Ungi maðurinn játaði öll brotin. Í dómnum segir að árið 2023 hafi hann hlotið dóm fyrir hótanir í garð þriggja einstaklinga, þrjár líkamsárásir, þar af eina í félagi við annan mann og eina sérstaklega hættulega líkamsárás í félagi við annan mann og brot á lögreglusamþykkt. Hann var aðeins 15 og 16 ára þegar hann framdi þau brot og var refsing ákveðin fangelsi í 6 mánuði, skilorðsbundið í tvö ár. Meðal skilyrða refsingarinnar var að ungi maðurinn myndi sæta sérstöku eftirliti og umsjón. Átti Fangelsismálastofnun að annast þetta eða fela öðrum aðila, undir sínu eftirliti.
Ungi maðurinn hlaut síðan dóm á síðasta ári fyrir hótun en það var hegningarauki við fyrri dóm og var honum ekki gerð sérstök refsing í því máli.
Í dómnum segir að í þetta sinn sé ungi maðurinn sakfelldur fyrir hótanir í garð tveggja einstaklinga, tvær líkamsárásir og vopnalagabrot. Öll brotin nema það síðastnefnda hafi verið framin fyrir uppkvaðninu fyrri dóma yfir manninum og því sé það metið honum til hegningarauka.
Segir enn fremur að öll brotin nema vopnalagabrotið hafi ungi maðurinn framið þegar hann var 17 ára en á hinn bóginn séu öll brotin alvarleg. Hæfilegt sé því að dæma hann í átta mánaða fangelsi.
Dómurinn bætir því hins vegar við að skilorðstíminn vegna fyrri dómsins yfir unga manninum sé ekki enn liðinn og því verði refsingin í þetta sinn aftur skilorðsbundin og enn með sömu skilyrðum og 2023. Þar sem langt sé liðið frá brotum unga mannsins sé rétt að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í eitt ár, en ekki tvö eins og 2023.
Þarf maðurinn einnig að greiða þolendum líkamsárásanna um eina milljón króna í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta en þeir höfðu krafist samtals um 4,5 milljóna auk vaxta.