

Tilefni samtalsins var umræða um verðlag, vaxtastig og lífsgæði á Íslandi í samanburði við önnur lönd. Páll rifjaði upp að hann hafi flutt til Noregs þegar hann fann þörf fyrir nýtt upphaf. Hann hafði þá verið edrú í þrjú ár, gengið í gegnum gjaldþrot og var, eins og hann sagði sjálfur, orðinn „leiður“ á lífinu hér heima. Þá bauðst honum starf hjá fyrirtækinu Tide, sem rekur meðal annars strætisvagna í Bergen eftir að forsvarsmenn fyrirtækisins komu til Íslands í leit að starfsfólki. Þar sem hann var nýbúinn að taka meiraprófið ákvað hann að slá til þegar honum bauðst starfið.
„Ég fór þarna fimmtugur, á miðjum aldri, með eina ferðatösku og þurfti að byrja upp á nýtt,“ segir hann en Páll fór einn út. Hann byrjaði strax að vinna mikið og fann það að þessi vinna passaði honum vel. Í dag er Páll giftur, hefur verið edrú í 19 ár, og eiga hann og eiginkona hans 12 ára son, en Páll á einnig börn og barnabörn sem búsett eru á Íslandi.
„Ég ætla ekkert að lýsa fyrsta húsnæðinu sem ég bjó í, ég var kominn í verbúðina aftur en ég lét það ekkert stoppa mig. Svo kynntist ég konunni minni, við vorum á leigumarkaði fyrstu árin okkar og náðum svo að kaupa okkur íbúð fyrir 4 árum.“
Heimir Karlsson, þáttastjórnandi Bítisins, skaut þá inn í að sumum finnist erfitt að draga fram lífið á Íslandi. Hér sé margt dýrt; matur, tryggingar, vextir. „Hvernig er þetta í Noregi,“ spurði hann síðan.
„Ég hef verið upptekinn af því að halda stíft heimilisbókhald, ég hef samanburð,“ sagði hann og bætti við að vextirnir af óverðtryggðu húsnæðisláni hans til 30 ára væru á milli 4 og 5 prósent.
Hann tók fram að þau hjónin væru bæði verkafólk, hann strætisvagnabílstjóri og konan hans ynni við ræstingar á flugvellinum í Bergen. Eftir að búið er að borga alla skatta af launum þá sé húsnæðisliðurinn 25% af ráðstöfunartekjum þeirra hjóna. Þau búa í 14 hæða háhýsi í Bergen þar sem þau borga í sameiginlegan sjóð fyrir ýmsum útgjöldum. Þegar allt sé tekið til þá nemi húsnæðiskostnaður fjórðungi af ráðstöfunartekjum.
Páll nefndi að meðalvextir af húsnæðislánum í Noregi í dag séu um 5,5 til 6,0%, en líkt og víða annars staðar hafa stýrivextir hækkað í Noregi og eru þeir 4% núna, að sögn Páls.
Noregur hefur haft það orð á sér að vera dýr en hann segir að þau þrjú sem eru í heimili fari með um 10 þúsund norskar krónur í mat á mánuði, eða um 125 þúsund íslenskar krónur miðað við gengið í gærmorgun. Páll keyrir um á rafmagnsbíl sem hann hleður í „mjúkri hleðslu“ yfir nóttina og kostar það hann um tíu þúsund krónur á mánuði.
Aðspurður hvort lífið sé léttara í Noregi en á Íslandi svaraði Páll því til að þau hjónin ættu að minnsta kosti pening í afgang um hver mánaðamót sem þau geta lagt til hliðar – nokkuð sem vart telst sjálfsagt á Íslandi í dag.