Rithöfundurinn Bragi Páll Sigurðarson hefur birt áhugaverða hugvekju í tengslum við aktívisma tónlistarkonunnar Möggu Stínu sem er nú í haldi Ísrael eftir að för Frelsisflotans sem hún sigldi með var stöðvuð í nótt. Hann biður þá sem gagnrýna Möggu Stínu að hugleiða hvaða hlutverk þeir hefðu leikið í helförinni á sínum tíma.
„Ef þú hefur einhvern tímann velt því fyrir þér hvað þú hefðir gert í helförinni þá ertu að gera það núna,“ er spurning sem Bragi Páll hefur ítrekað lesið undanfarin misseri. Sjálfur er hann ekki í vafa um að Magga Stína hefði gengið til liðs við andspyrnuna til að berjast gegn fasistum með öllu sem hún hefði.
„Hún hefur á síðustu árum sýnt að henni er algjörlega sama um skítadreyfara og lyklaborðsfretara sem fetta fingur út í baráttu hennar gegn yfirstandandi þjóðarmorði.“
Bragi Páll minnir á að það voru ekki bara gyðingar sem urðu fyrir barðinu á helförinni. Það voru líka samkynhneigðir, rómafólk og aðrir sem þóttu óæskilegir. Þessir hópar voru auðkenndir af nasistum með stjörnum í mismunandi litum. Þeir sem höfðu óheppilegar skoðanir eða voru staðnir að andófi voru merktir með rauðum þríhyrning á hvolfi. Með færslunni deilir hann mynd af pólskum gyðingi, Aron Löwi, sem var einnig pólitískur fangi og auðkenndur með rauðum þríhyrning. Myndin var tekin þegar hann kom til Auschwitz í mars árið 1942 og fimm dögum síðar var hann látinn.
„Ertu ósammála skoðunum Möggu Stínu? Fagnar þú því að hún hafi verið fangelsuð fyrir engar sakir? Vonast þú til þess að fangavistin verði henni erfið? Þá vilt þú einfaldlega rauðan þríhyrning á Möggu og aðra sem þú ert ósammála og þarft að spyrja þig hvar þú fórst út af sporinu.“
Bragi Páll segir engan vafa leika á því að þjóðarmorð er nú framið í Palestínu. Magga Stína, íslenskur ríkisborgari, hafi farið um borð í skip sem var ætlað að flytja hjálpargögn, lækna og líkn inn í aðstæður sem líkja mætti við stærsta fangelsi allra tíma, þar sem fólk er sprengt upp og svelt. Magga Stína var tilbúin að fórna lífi sínu til að linna þjáningu fólks sem hún hefur aldrei hitt og þekkir ekki með nafni. Það sem hún þekkir er ömur þessa fólks sem hún vill binda enda á.
„Og fyrir þetta dirfast nokkrir landar hennar að kasta í hana aur. Láta eins og fórnfýsi hennar sé athyglissýki. Það segir einfaldlega mest um þankagang þeirra sem þannig tala, að ekki sé hægt að rétta sveltandi og sundursprengdu fólki hjálparhönd nema ætlast til þess að fá eitthvað í staðinn. Eins og sú athygli sem Magga Stína hafi fengið fyrir sína baráttu hafi verið einhliða góð. Einfeldni svona fólks ríður ekki við einteyming og ég bið ykkur og sjálfan mig í leiðinni að setja frekar orku og athygli í vandamálið; þjóðarmorðið og óréttið sem alþjóðasamfélagið virðist ætla að hunsa fram yfir síðasta morð, heldur en litlar og illa upplýstar sálir.“
Um borð í skipinu voru almennir borgarar sem ekkert hafa unnið sér til saka. Fólk sem vildi færa hjálpargögn, lyf, bleyjur og þurrmjólk til sveltandi fólks. Þess í stað var fólkið handtekið og fært í fangelsi.
„Allt er þetta ólöglegt, þó lög og regla virðist þessa dagana vera eins og vindhanar sem dýpstu vasarnir blása hvað hvassast á. Ríki eins og það sem fremur þjóðarmorðið getur ekki orðið svona nema með áratugum af innrætingu og heilaþvætti og þrátt fyrir það finnast þar stórir hópar fólks sem andmæla ástandinu. Gyðingar um allan heim hafa mótmælt þjóðarmorðinu og hugmyndafræðinni sem keyrir það áfram. Ekki hlusta á raddir sem segja að andstaða við barnamorð sé á einhvern hátt gyðingahatur. Það er ódýrt „amma ruglast“ spil sem er orðið verulega snjáð. Þjóðarmorðinu er ætlað að rýma landsvæði. Tengist á engan hátt því sem sumir kalla hryðjuverk eða hefnd. Það þarf gríðarlega valkvæða rörsýn til þess að halda því enn fram.“
Þegar svona á sér stað í heiminum þurfi einstaklingar að rísa upp. Ef fólk er gott, ef við erum góð þá þarf að sýna það í verki. Bragi Páll hvetur fólk að velta því fyrir sér hvaða hlutverk það hefði leikið í helförinni. Hefði það hæðst af þeim sem voru handteknir fyrir engar sakir og sendir í útrýmingarbúðir? Hefði það hundsað eymdina? Eða hefði það sýnt samkennd og kærleika.
„Fjarlægjum öll þjóðarheiti. Fjarlægjum litarhaft og trúarbrögð. Fjarlægjum skilyrðingu okkar allra. Rifjum upp hvað okkur var kennt í æsku. Um kærleikann. Samkenndina. Réttlætið. Það að standa með þeim sem níðst er á. Segja eitthvað.
Taktu ákvörðun. Gerðu það sem þú vildir hafa gert í helförinni. Það sem þú vildir hafa gert í æsku. Gerðu eitthvað. Af því þetta er að gerast akkúrat núna og flest okkar eru ekki að gera fokking sjitt.“