Vísindamenn hjá Evrópsku geimstofnuninni (ESA) telja nú að líf geti leynst djúpt undir yfirborði Enceladusar, eins af tunglum Satúrnusar. Þótt tunglið virðist ólífvænlegt og gaddfreðið við fyrstu sýn þá spýtast örsmáir ískristallar stöðugt út í geiminn úr sprungum í ísnum. Gögn frá geimfarinu Cassini benda til þess að í þessum ískristöllum sé að finna flókin lífræn efni – byggingareiningar lífs.
Samkvæmt nýrri rannsókn gætu sum þessara efna verið hluti af efnahvörfum sem leiða til lífs. Rannsakendur segja að Enceladus „haki nú við alla reiti“ til að teljast lífvænlegur heimur, þar finnst fljótandi vatn, orka frá hitauppstreymi á hafsbotni og rétta blanda af efnum.
„Jafnvel þótt við fyndum ekki líf á Enceladusi þá er þetta stórkostleg uppgötvun,“ segir dr. Nozair Khawaja frá Freie Universität í Berlín. „Þá þyrftum við að spyrja hvers vegna líf er ekki til staðar þó skilyrðin séu fullkomin.“
Enceladus er aðeins um 500 kílómetra í þvermál en undir ísskorpunni er haf að finna. Hitastrókar á hafsbotni knýja vatn upp í gegnum sprungur, líkt og hverir á hafsbotni Jarðar þar sem líf dafnar án sólarljóss.
ESA stefnir nú að fyrstu lendingunni á Enceladusi. Nýtt geimfar mun safna fleiri ískristulum og jafnvel rannsaka yfirborðið sjálft, sem gæti svarað spurningunni um hvort þetta tungl Satúrnusar hýsi líf.