

Hann segir að á Landspítalanum sé sýnt fólki í hærri stöðu, eins og yfirlæknum, mikinn kærleik og virðingu þegar það lætur af störfum en þegar kemur að almennum starfsmönnum, „lágstéttinni og óbreyttum fótgönguliðum“ sé sagan önnur.
„Það segir sig sjálft, hvergi er stéttaskiptingin á Íslandi jafn sláandi og á [Landspítalanum],“ segir hann.
„Á deild L-X á Landakoti hefur kona ein starfað sem ritari árum saman. Kona þessi er nokkuð farin að reskjast, 65 ára, Hún nálgast þau tímamót að geta sest í hinn fræga helga-stein. Öllum ber saman um að hún hafi leyst margþætt og erilsamt starf sitt vel af hendi. Konan lenti í slysi fyrr á þessu ári og hefur verið frá vinnu um skeið,“ segir Kristófer og segir frá samskiptum hennar og deildarstjórans.
„Fyrir skemmstu fékk hún fundarboð í veikindafríinu frá deildarstjóranum og þetta fór þeim á milli:
Deildarstjóri: Hæ, hæ, mín kæra. Getur þú komið á smá fund á fimmtudaginn kl. 14.30, við erum að skipuleggja næsta ár.
Ritari: Já, ég get það.
Deildarstjóri: Frábært, hlakka til.
Ritari: Er verið að segja mér upp í starfinu?
Deildarstjóri: Nei, þetta er ekki uppsagnarfundur.
Ritari: Bara að djóka, hlakka til að hitta ykkur.
Á fundinum var henni svo afhent uppsagnarbréf!“
Kristófer segir að deildarstjórinn hafi reynt „að milda þessi óheilindi með því að lofa ritaranum því að á uppsagnartímanum fengi hún meðal annars að taka þátt í hrekkjarvökunni á L-X! Þarf hún fleiri hrekki? Eða grikki?“
Kristófer segir að henni hafi verið sagt upp vegna skipulagsbreytinga. „Starf hennar sé lagt niður en í staðinn verði stofnað embætti aðstoðarmanns deildarstjóra (ekki veitir af, þegar eru á fleti fyrir tveir aðstoðardeildarstjórar.) Þetta er grátt svæði. Sé starfið lagt niður á ritarinn ekki rétt á einhvers konar starfslokasamningi? Konan er ekki sökuð um nein brot í starfi eða mistök, nýtur hún þá ekki verndar stjórnsýslulaga?“ segir hann og bætir við að Sameyki hyggst kanna það mál.
„Á vefsíðu Landspítalans er auglýst er eftir manni, karli eða konu, Íslendingi eða útlendingi í þetta ofurstarf um þessar mundir. Því aðstoðarmanni deildarstjóra mun ekki veita af 24ra stunda vinnudegi eigi hann að ljúka öllum þeim verkefnum sem til stendur að hlaða á hann,“ segir Kristófer og bætir við:
„Þessi frumherji á að vinna þau störf sem ritarinn annaðist, og þar að auki að leika ýmiss önnur hlutverk sem bæði deildarstjóri og aðrir hafa haft með höndum. Og svo eru það hæfileikar og atgjörvi. Maðurinn, karlinn eða konan, þarf að hafa reynslu af skipulagi og umbótastarfi og njóta þess að vinna með fólki að sameiginlegum markmiðum…hafa yfirsýn, frumkvæði og brenna fyrir jákvæðri vinnustaðamenningu(?)… Starfið hentar vel þeim sem hafa áhuga á verkefnastjórnun og felur í sér skipulagslega ábyrgð, mönnun og þátttöku í umbótaverkefnum, auk víðtækra samskipta við skjólstæðinga, aðstandendur, starfsfólk, stoðþjónustur og stjórnendur!“
Kristófer segir að ekki nog með það en þá verði símavarsla eitt helsta verkefnið, en starfsmaðurinn þurfi líka að halda utan um tímabókanir, ferðir skjólstæðinga innan- og utanhúss og aðstoð við mönnun vakta. „Og áfram er það talið, línu eftir línu, hvað aðstoðarmaður þessi þarf að hafa mikla yfirsýn yfir bókstaflega allt á deildinni.“
Kristófer segist óttast að „þessi hátimbraða atvinnu-spilaborg eigi eftir að hrynja. Mest öll orka aðstoðarmannsins fari í símvörslu og útvegun starfsfólks á aukavakt svo hægt sé að hlynna að sjúklingum, veita þeim lögboðna lágmarksþjónustu.“
„Ritarinn fyrrverandi annaðist flest af því sem nýliðinn mun með guðs hjálp ná að inna af hendi á venjulegum vinnudegi. Þar að auki sá brottrekna konan um að panta flest af því sem þarf í daglegan rekstur sjúkradeildar. Svo nokkuð sé nefnt,“ segir hann.
„Hún talar kannski ekki reiprennandi ensku, en mátti þá ekki bjóða henni á enskunámskeið á kostnað Landspítalans? Tugum milljóna er varið í íslenskukennslu erlendra starfsmanna ár hvert með misgóðum árangri.“
Kristófer segir að framkoma Landspítalans við þessa konu sé sjúkrahúsinu til mikillar vansæmdar. „Þetta er tilefnislaus, óþarfur og afar ranglátur, brottrekstur. Henni er sparkað burt enn í sárum eftir slys, á aldri þegar vinnumarkaðurinn er fjandsamlegur, nánast lokaður, og ekki sýnd nein samúð þegar hún hraðar sér heim, harmi slegin,“ segir hann og bætir við að lokum:
„Rétt væri og sanngjarnt að Runólfur Pálsson forstjóri bæði hana afsökunar og byði henni strax aftur gott starf.“
Lestu allan pistilinn í heild sinni hér.