Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu Rannsóknarstofu Sameindar um að fellt verði úr gildi leyfi byggingarfulltrúa Reykjavíkur til að innrétta húsnæði á 2. og 3. hæð Ármúla 34 undir starfsemi Konukots.
Eins og DV greindi frá þann 11. september síðastliðinn byggðist kæran á því að Sameind, sem er staðsett í húsinu við hliðina í Ármúla 32, taldi að starfsemi Konukots og rannsóknarstofunnar gæti engan veginn farið saman. Töldu forsvarsmenn rannsóknarstofunnar að lífshættulegar aðstæður gætu skapast þar sem ónæmisbældir viðskiptavinir stofunnar, sem sérhæfir sig í blóðrannsóknum, gætu komist í návægi við veika skjólstæðinga Konukots.
„Mikið ónæði og sóðaskapur sem fylgir fyrirhugaðri starfsemi Konukots. Flest allar konurnar eru eiturlyfjaneytendur og eru þær hættulegar sínu nánasta umhverfi. Starfsemi Sameindar rannsóknarstofu er í um 10 metra fjarlægð frá inngangi að Ármúla 34 þar sem fyrirhugað er að starfsemi Konukots verði. Í athvarfi fyrir fíkniefnaneytendur hafa komið upp berklatilfelli á þessu ári og eru þessir einstaklingar tregir til að leita sér meðferðar og eru því oft smitandi. Til Sameindar koma ónæmisbældir sjúklingar að leita sér lækninga og getur það verið lífshættulegt fyrir þá að smitast af berklum. Búast má við því að skjólstæðingar Konukots muni leita inn í biðstofu og salerni Sameindar sem er óásættanlegt. Athvarf fyrir fíkniefnaneytendur og heilbrigðisstarfssemi fara á engan hátt saman,“ sagði í kæru Sameindar.
Þá benti Sameind á að byggingarleyfið uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar þar sem starfsemi Konukots geti ekki fallið undir almenna gistingu eins og getið sé um í notkunarflokki 4, samkvæmt reglugerðinni. Starfsemin eigi frekar að falla undir notkunarflokk 5 þar sem Konukot sé félagslegt úrræði eða heilbrigðisþjónusta þar sem einstaklingar í mikilli neyslu dvelji. Skjólstæðingar Konukots geti því ekki með nokkru móti bjargað sér af sjálfsdáðum úr mannvirkinu ef til eldsvoða kemur.
Þessu mótmælti Reykjavíkurborg og benti á að í reglugerðinni standi meðal annars um notkunarflokk 4 að hann eigi við um húsnæði þar sem boðin sé tilfallandi gisting. Konukot sé einmitt dæmi um slíkt húsnæði og gert sé ráð fyrir að fólk sem gisti þar sé almennt fært um að bjarga sér sjálft út ef eldsvoði verði.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tók málið fyrir á fundi sínum í gær og féllst á rök Reykjavíkurborgar í málinu. Kæru Sameindar var því hafnað.
Hér má lesa úrskurðinn í heild sinni.