

Í grein sinni kallar Þorvaldur eftir því að farið verði í framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng. Íbúar á svæðinu séu orðnir langþreyttir á stöðunni og ekki að ástæðulausu.
Þorvaldur rifjar upp að fyrsta vetrarlægðin dagana 21. og 22. október hafi fært Austurlandi vetrarfærð á hæsta fjallveginn og lokað allir umferð um Fjarðarheiði.
„Kunnuglegt stef fyrir landsmenn: „Fjarðarheiðin er ófær.“ Vanbúnir bílar, stórir og smáir, réðu ekki við færðina og runnu út af, stoppuðu eða voru stöðvaðir. Björgunarsveitir báðum megin heiðar hjálpuðu til við að leysa úr vandræðunum. Tekin var upp svonefnd „mjúk lokun“, þar sem lokunarpóstar voru settir upp, mannaðir af björgunarsveitarfólki. Það sá til þess að engum væri hleypt á heiðina nema hann væri vel fær í vetrarakstur.“
Þorvaldur bendir á að Norræna hafi á sama tíma verið þjónustuð á landamærastöðinni við Strandarbakka og komust gestir hvergi.
„Reynt var að leggja á heiðina en flestum snúið við. Svona var nú ástandið á einu landamærastöð Íslands sem þjónar áætlunarferju/siglingum frá Norðurlöndunum og Evrópu og hefur staðið þar vaktina óslitið í 50 ár. Hvað á þetta að ganga svona lengi? Eru stjórnvöld að bíða eftir því að Smyril-Line og hópur Seyðfirðinga gefist upp í baráttunni og flýi staðinn,“ spyr hann.
Hann segir síðan að eins og þeir sem vilja vita hafi á rúmu ári verið höggvið stórt skarð í atvinnuframboð á Seyðisfirði sem nemur 65-75 störfum, 10-11% af núverandi íbúafjölda og 30% af vinnandi.
„Hvar eru stjórnvöld? Hvar er launþegaforystan? Hér er ekki verið að tala um Húsavík eða Akranes. Þeir hafa sterkar raddir nær og stjórnvöld hlusta. Nei, staðurinn er of langt í burtu. Hann er ca. fyrir miðju Austurlandi og að mati Forbes einn af 50 fallegustu smábæjum í heimi 2025. Hvar eruð þið, þingmenn okkar N-austur sem rómuðuð dugnað og baráttu Seyðfirðinga eftir skriðuföllin miklu 2020 og fyrir síðustu kosningar sögðust styðja Fjarðarheiðargöng? Af hverju farið þið nú í felur? Ætlið þið og stjórnvöld enn og aftur að niðurlægja byggðarlagið sem hefur staðið vaktina fyrir ykkur og þjóðina í harðri varnarbaráttu og íbúana sem í óralangan tíma hafa beðið þolinmóðir en alltaf heitt og innilega borið vonina í brjósti?“
Þorvaldur segir að mikið sé í húfi og bendir hann á að samkvæmt Vegagerðinni hafi um 600 þúsund farþegarekið Fjarðarheiðina síðastliðið ár.
„Þar af 432.562 að sumri og 165.620 að vetri. Vissuð þið að það er tæplega tvöfaldur íbúa fjöldi Íslands? Já, reyndar þið lesið rétt. Sé gert ráð fyrir 2,6 farþegum í bíl, sem gerir 231.000 bíla sem óku Fjarðarheiðina, 653 bílar á dag að jafnaði alla daga ársins. Athygli vekur að það er sama ÁDU-umferð og um hringveginn norður í land um Möðrudalsöræfi, 87.000 gestir í alls 89 skemmtiferðaskipakomum til hafnarinnar, og 40.000 farþegar komu með Norrænu og 15.258 farartæki.“
Þorvaldur er orðinn langþreyttur á stöðunni eins og fleiri íbúar.
„Af hverju er ekki hlustað á okkur nema þegar eitthvað hræðilegt gerist, t.d eins og þegar fjöllin okkar öskra, hristast og gubba svo flytja verður alla íbúa burt í snarhasti? Þarf eitthvað miklu meira og alvarlegra til?“
Hann spyr að lokum hvað geti réttlætt það að þegar Fjarðarheiðargöng hafa beðið fullhönnuð og tilbúin í útboð og samþykkt af Alþingi sem forgangsverkefni, að þá verði þeim snarlega ýtt til hliðar eins og innviðaráðherra boðar?
„Það er nákvæmlega ekkert sem getur réttlætt það ef framanritaðar staðreyndir eru hafðar í huga. Vissulega þarf kjark og þor en ekki flótta til að rjúfa boðaða kyrrstöðu. Hann segir hins vegar blákalt við okkur á Austurlandi 26./8. sl. að valkyrjustjórninni hans komi ekkert við fyrirliggjandi samþykktir eða loforð fyrri stjórnvalda við sveitarfélögin. Nú erum það við, ég ráðherrann og „þær V- systur“, sem ráðum ykkar för. Að lokum og í einlægni sagt: Það eina sem við biðjum um er réttlæti og virðing. Að á okkur verði hlustað en ekki endalausa niðurlægingu, úrtölur og vonbrigði. Okkar tími er löngu kominn.“