

Stefán Máni Sigþórsson rithöfundur flutti til Reykjavíkur árið 1996 í þeim tilgangi að skrifa bók. Fyrstu bókina sína, Dyrnar að Svörtufjöllum, skrifaði hann á ritvél.
„Ég hef aldrei náð tengslum við PC-tölvur. Þær voru miklu erfiðari, ég var alltaf að klúðra, týna einhverjum fælum og eitthvað. Ég eignaðist lítinn Macintosh-kubb fljótlega eftir að ég kem í bæinn og er búinn að skrifa á Macintosh síðan þá og þetta er svona legókubbatölvur.
Þannig að það svona alveg bjargaði mér að kynnast Macintosh. Þegar ég var í gaggó þá vorum við með ritvélar. Ég var alveg góður og var örugglega með átta eða níu í hraðritun á svona hlunk.“
Í viðtali við Kiddu Svarfdal í Fullorðins segist Stefán Máni ekki myndu nota ritvél til skrifanna í dag. Fyrsta bókin hafi verið stutt og því lítið mál að skrifa hana á ritvélina.
Hörður Grímsson er sá karakter sem kemur fyrir í flestum bókum Stefáns Mána, alls 13. Nýjasta bókin, Hin helga kvöl, kom úr fyrir nokkrum dögum. Aðspurður um á hverjum Hörður sé byggður segir Stefán Máni það góða spurningu.
„Saga Harðar er bæði mjög óspennandi og líka dularfull. Ég var að skrifa bók sem heitir Hyldýpi, sem kom út 2009. Þetta er svona spennubók, ungur strákur sem fer bara að skila vídeóspólu á föstudagssíðdegi. Og svo man hann ekki neitt. Hann vaknaði á spítala á sunnudeginum, hafði fundist uppi í Hvalfirði nakinn úti í skurði. Hann veit ekki hvað gerðist og hann fer að reyna að komast að því sjálfur, hvað gerðist þarna þetta síðdegi. Ég var að skrifa þessa bók þegar Svartur á leik bíómyndin er í einhverri vinnslu. Sem var lærdómsríkt ferli fyrir mig, þetta Svartur á leik bíómyndaferli sem var langt. Og ég ákvað að leyfa nokkrum útvöldum að lesa þessa bók sem ég var með í vinnslu. Og einn af þeim var Þórir Snær, kvikmyndaframleiðandi. Og hann las handritið og kom með punkta og eitt af því sem hann sagði var að honum fyndist vanta svona red herring í bókina. Einhverja svona dularfulla persónu sem að lesandi myndi halda að væri einhver hérna vondi kall eða eitthvað, en væri svo ekki, einhver tálbeita.“

Stefán Máni tók ábendingunni vel og gerði lögregluna í bókinni að þessari tálbeitu.
„Og bara svona ógeðslega ófrumlegt; red herring. Hörður er rauðhærður út af red herring og herring, Hörður. Þetta var svona kveikjan að rauðhærði var þessi red herring. Svo varð hann að þessum risa í leðurfrakka og kom með þessa fortíð frá Súðavík. Og ég veit ekki alveg af hverju það var, ég fór til miðils á þessu tímabili og miðillinn sagði það væri maður sem fylgdi mér og ég er að benda á hann núna af því að hann sagði að hann stendur fyrir aftan þig. Og hann vill ekki að ég sjái hann vel, hann lýsti honum. Hann var í frakka og var með hatt. Þannig að ég byggði Hörð dálítið á þessum dularfulla manni. Ég sleppti bara hattinum. Einhvern veginn steig hann svona rosalega heilsteyptur fram og var frá Súðavík. Ég hef aldrei komið til Súðavíkur. Mér finnst ég ekkert hafa búið hann til. Ég opnaði bara einhverjar dyr og Hörður gekk inn um þær.“

Stefán Máni skrifaði bókina Feigð um Hörð, sem segir sögu Súðavíkur og snjóflóðsins þar árið 1995. Og segir hann enga pælingu hafa verið þá að Hörður yrði að einhverri bókaseríu, Húsið og Grimmd hafi verið hugmyndir sem voru án Harðar, en Stefán Máni aðlagaði þær að Herði. Stefán Máni skipti síðan um útgefanda og fór yfir til Sögur útgáfa. Þar kom út bókin Svartigaldur, þar sem Stefán Máni fer aftur til fortíðar og segir hann það fyrstu bókina um Hörð sem var hugsuð frá upphafi um hann.
„Svartigaldur slær rosalega í gegn. Og þá kom aftur þessi tilfinning, eins og með Svartur á leik. Það er fullt af fólki úti í bæ sem að elskar Hörð. Þú veist, það er að dýrka þessar bækur og fær ekki nóg af honum. Ég fattaði hvað ég elskaði Hörð mikið. Mér finnst gaman að hugsa um hann og það bara opnuðust einhverjar flóðgáttir. Síðan þá hafa komið alveg fullt af bókum. Síðustu ár þá hefur mér fundist alveg gríðarlega skemmtilegt að skrifa þessar bækur, allt annað en vinna, þó þetta sé að vinna. Mér finnst svo gaman að að vinna með Herði, eins og ég kalla það. Þannig að ég er alveg „all in“ enn þá og bara ánægður með þessar bækur. Og hann verður alltaf vinsælli.“
Bækurnar um Hörð hafa verið gefnar út erlendis,fyrst í Bandaríkjunum, Svíþjóð, Danmörku, og Finnlandi, þar sem hann hefur slegið algerlega í gegn og segir Stefán Máni Finna elska Hörð.
„Það er ótrúlega erfitt að tala við mig um Hörð, því að ég náttúrulega þekki hann mjög vel. Þú spurðir mig hvernig barn ég hefði verið. Ég er svo vanur að vera bara alltaf með Herði. Og ég veit ekkert lengur hvað er svona sérstakt við hann eða hvað. Hann er svolítið stór hluti af mínu lífi. Þetta verður ekkert að eilífu en ég hef alla vega gaman af þessu ennþá.Hann er ekkert að deyja núna.“
Umræðan berst að listamannalaunum sem Stefán Máni hefur skoðun á, eins og flestir.
„Ég hef aldrei verið svona útvalinn. Það endaði með því að ég gafst bara svolítið upp að sækja um þetta og fór bara að vinna og er bara búin að vera að vinna alltaf bara einhverja launavinnu, síðustu 10 ár eða eitthvað. Þetta er svona sérstakt kerfi, er eitthvað bogið við það. Það er eitthvað bogið við það. Það eru dálítið alltaf sömu sem að fá og alltaf sömu sem að fá ekki. Þú veist, glæpasögur hafa ekki þótt eitthvað fínar.“
Stefán Máni segist kannski vera rosalega lélegur að sækja um, en verk hans ættu að geta talað fyrir sig. Segir hann okkur standa á tímamótum þar sem íslenskan á undir högg að sækja og unga fólkið er ekki að lesa.“
„Ef jólabókaflóðið fer eitthvað að flökta, ef fólk fer bara að gefa eitthvað annað í jólagjöf heldur en bók, þá fara bara útgefendur á hausinn. Um leið og útgefendur fara á hausinn, þá er þetta bara búið. Það sem skiptir máli í dag eru höfundar sem eru lesnir, sem að ná til lesenda, lesendur vita hvað þeir vilja. Og það verður að styðja við okkur sem erum að ná til fólks, til ungs fólks.“
Aðspurður segir Stefán Máni metsöluhöfunda eins og Arnald Indriðason, Ragnar Jónasson og Yrsu Sigurðardóttir líklega ekkert vera að sækja um listamannalaun, seinni tvö séu í fullri vinnu með og öll selji þau bækur sínar vel erlendis. Sjálfur segist Stefán Máni varla geta lifað á listamannalaunum eingöngu.
„Það væri rosa tæpt. Það væri bara mjög erfitt líf. Samt er ég með bók á hverju ári. Þannig að ég mætti ekki slaka á því bara í eina sekúndu. Og ég veit ekki hvað ég væri með í laun ef ég væri bara í þessu. Ég væri með 400-500 þúsund á mánuði, það er ekki mikið. Þannig að ég bara hef bara verið í vinnu. Ég geri þetta bara á kvöldin eða snemma á morgnana eða eitthvað. Þú veist, ekkert, ekkert að væla yfir því.
Þetta eru mikilvægustu höfundarnir. Bara ef þú ert vinsæll þá ertu mikilvægur. Arnaldur er bara gríðarlega mikilvægur og er búinn að vera það í 25 ár. Þetta er bara mikilvægt. Fólk er að lesa. Það er búið að kaupa þetta. Við erum bara að, við erum bara greinilega að skrifa það sem að þjóðin vill lesa. Mér finnst ég vera heppinn að það sem mér finnst skemmtilegt að skrifa finnst öðrum skemmtilegt að lesa. Ég er bara þakklátur fyrir það. Það er ekkert sjálfgefið. Ef að allir fengju allt í einu áhuga á vísindaskáldskap, þá yrði ég bara að hætta að skrifa, ég ætti ekkert auðvelt með að skrifa það.“
Stefán Máni segir listamannalaunin þurfa að vera heiðarleg og gegnsæ, og það megi tala um þau. Sjálfsagt sé að listamannalaunin styðji við unga höfunda.
„Mér finnst ekki réttlætanlegt að einhver Jón sé ár að skrifa bók og svo sé séra Jón fimm ár að skrifa bók og ríkið borgi það bara. Mér finnst það ekkert sanngjarnt. Það á bara að vera með eitthvað svona, þú getur fengið ár, kannski tvö ár, en ekki bara eitthvað.“
Segir hann Kvikmyndasjóð miklu tengdari við raunveruleikann, sem dæmi sé spurt þar hvort viðkomandi sé kominn með framleiðanda. Sama ætti að eiga við um listamannalaun að spurt sé hvort viðkomandi rifhöfundur sé kominn með útgefanda.