fbpx
Mánudagur 27.október 2025
Fréttir

Gagnrýna lögregluna fyrir að færa lögreglumenn grunaða um brot í starfi á milli embætta – „Í raun dregið undan trausti til lögreglunnar“

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 27. október 2025 12:30

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki með beinum hætti.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nefnd um eftirlit með lögreglu beinir þeim tilmælum til lögregluembætta landsins að færa ekki lögreglumenn sem séu til skoðunar hjá nefndinni vegna hugsanlegra brota í starfi, á milli embætta. Tiltekur nefndin tvö tilvik þar sem þetta var gert og eitt þar sem viðkomandi var ráðinn tímabundið, ráðningin ekki endurnýjuð en síðar var viðkomandi ráðinn aftur. Segir nefndin að með þessu sé dregið úr trausti til lögreglunnar þar sem lögreglumenn geti þá með þessum leiðum komist undan því að vera áminntir eða sæta annars konar ábyrgð vegna ámælisverðrar framgöngu í starfi.

Nefndin segist í sinni ákvörðun hafa tekið þessar tilfærslur lögreglumannanna, en hún hafði haft mál þeirra til meðferðar vegna kvartana sem henni höfðu borist, til skoðunar að eigin frumkvæði. Það var ekki unnt að veita þeim áminningu þar sem þeir voru ekki lengur starfsmenn þess lögregluembættis sem þeir voru að starfa fyrir þegar hin ámælisverða hegðun átti sér stað og viðkomandi embætti var það eina sem var til þess bært að veita áminningu.

Hugsanlega refsivert

Fyrsta málið varðar háttsemi lögreglumanns gagnvart eldri hjónum, í starfi hans hjá lögreglunni á Vesturlandi. Kvörtun vegna þessa var lögð fram til nefndarinnar og niðurstaða hennar var að háttsemin hefði auðveldlega getað valdið alvarlegu líkamstjóni hjá hjónunum og kynni að vera refsiverð. Með erindi í maí 2023 var nefndin upplýst um að lögreglustjórinn á Vesturlandi hefði ákveðið að falla frá saksókn á hendur lögreglumanninum, að því er varðaði meinta líkamsárás hans og einnig hvað varðaði ólögmæta handtöku. Eftir að þessar niðurstöður bárust nefndinni sendi hún málið til meðferðar hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi, á þeim grundvelli að uppi væru vísbendingar um að háttsemi lögreglumannsins samræmdist ekki lögreglulögum og gæti talist ámælisverð. Niðurstaða lögreglustjórans á Suðurlandi, vegna þessa þáttar málsins barst nefndinni í janúar 2025.

Niðurstaðan var að í ljósi þess að lögreglumaðurinn hafði hætt störfum, hjá lögreglunni á Vesturlandi, þegar niðurstaða nefndarinnar barst embættinu og hafið störf hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, þá væri ekki lengur til staðar vinnuréttarsamband við lögreglumanninn og því gæti embættið ekki gengið lengra í eftirfylgni með málinu.

Hætti en kom aftur

Annað málið sem nefndin vísar til varðar mögulegt hegningarlagabrot lögreglumanns í starfi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í nóvember 2022 tók hann upp á síma sinn myndskeið af upptöku á brotavettvangi þar sem grunaðir og 1 brotaþoli sjást, og sendi til lögreglumanns annars embættis, sem var ekki að vinna við rannsókn málsins. Málið var rannsakað af héraðssaksóknara sem felldi málið að lokum niður með vísan til laga um meðferð sakamála.

Í svörum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til nefndarinnar kom fram að málið væri litið alvarlegum augum innan embættisins. Hafi viðkomandi þegar málið kom upp verið ráðinn tímabundið til starfa og frekara vinnuframlag verið þá þegar afþakkað. Þegar niðurstaða embættis héraðssaksóknara  hafi legið fyrir hafi viðkomandi ekki verið lengur í starfi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Því hafi ekki verið mögulegt að veita honum áminningu sem annars hefði komið til skoðunar hefði hann verið enn í starfi.

Síðar hafi viðkomandi hins vegar sótt um starf hjá embættinu en áður en tekin hafi verið ákvörðun um ráðningu hans hafi málið verið tekið upp og metið hvort embættinu væri stætt á því með hliðsjón af málinu að ráða viðkomandi aftur til starfa. Ákveðið hafi verið að ráða viðkomandi aftur en jafnframt veita honum svokallað tiltal þar sem alvarleiki málsins hafi verið reifaður og honum gert ljóst að háttsemi hans í umrætt sinn gengi gegn ákvæðum lögreglulaga, starfsmannalaga og þágildandi siðareglna lögreglu.

Báðum megin við borðið

Þriðja málið sem nefndin tilgreinir snýst um lögfræðing sem tilkynnti tjón til tryggingarfélags fyrir hönd umbjóðanda síns en hafði einnig sem starfsmaður ríkislögreglustjóra ritað framlagða lögregluskýrslu í málinu vegna slyssins. Í niðurstöðu nefndar um eftirlit með lögreglu kom fram að háttsemin væri ámælisverð og kastaði rýrð á embættið þar sem um væri að ræða bersýnilegan hagmunaárekstur. Hafi málið verið sent embætti ríkislögreglustjóra til meðferðar.

Niðurstaða embættisins í málinu var sú að áréttað hafi verið við viðkomandi að embættið væri ósátt við þessa framgöngu hans og að efnislegar forsendur væru til þess að hefja áminningarmál vegna þessa. Engu að síður hafi starfsmanninum verið tilkynnt að áminningarferli yrði ekki hafið þar sem lögbundnir frestir vegna áminninga gerðu það að verkum að fyrirséð væri að áminningu yrði ekki komið við áður en hann hæfi störf hjá embætti lögreglustjórans á Vesturlandi. Í samræmi við gildandi lög verði starfsmaður ekki áminntur fyrir háttsemi sem eigi sér stað í starfi hjá öðru embætti.

Ekki færa strax

Í niðurstöðu nefndar um eftirlit með lögreglu um þessar tilfæringar viðkomandi starfsmanna lögreglunnar beinir nefndin þeim tilmælum til lögregluembætta landsins að lögreglumenn séu ekki færðir til í starfi á milli embætta þegar mál er þá varði séu til meðferðar hjá nefndinni:

„Með slíkum starfsháttum er í raun dregið undan trausti til lögreglunnar þar sem lögreglumenn geta þá vikið sér undan því að sæta ábyrgð vegna ámælisverðrar háttsemi í starfi.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Lögðu af stað í skínandi veðri á laugardag – Annað blasti við í gærmorgun

Lögðu af stað í skínandi veðri á laugardag – Annað blasti við í gærmorgun
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Burðaðist með áföllin eftir snjóflóðin 1995 á bakinu í rúma tvo áratugi – „Ég lagði allt sem ég gat í þessa leit og meira til“

Burðaðist með áföllin eftir snjóflóðin 1995 á bakinu í rúma tvo áratugi – „Ég lagði allt sem ég gat í þessa leit og meira til“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir orð sín hafa verið rangtúlkuð og hafa þyrlað upp moldviðri

Segir orð sín hafa verið rangtúlkuð og hafa þyrlað upp moldviðri
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fyrsta greinin sem birtist í íslensku blaði eftir konu um misrétti kynjanna – Eptir unga stúlku í Reykjavík

Fyrsta greinin sem birtist í íslensku blaði eftir konu um misrétti kynjanna – Eptir unga stúlku í Reykjavík