
Mál sem varðaði meint heimilisofbeldi fyrndist á meðan það var til rannsóknar hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Kvartað var yfir framgöngu embættisins í málinu til nefndar um eftirlit um lögreglu árið 2022 en svör lögreglunnar á Norðurlandi eystra bárust ekki til nefndarinnar fyrr en þremur árum síðar. Embættið neitaði að upplýsa nefndina um ástæður þess að svona fór en nefndin segir ástæðu til þess að lögreglan á Norðurlandi Eystra fari yfir hvers vegna málið dróst svo lengi á meðan það var til rannsóknar að það fyrndist. Einnig telur nefndin rétt að vekja athygli ríkissaksóknara á málinu.
Nefndin tók ákvörðun í málinu í ágúst síðastliðnum en ákvörðunin var ekki birt opinberlega fyrr en í liðinni viku.
Fram kemur að nefndinni hafi borist erindi frá lögmanni meints brotaþola, sem er kona, dagsettu í maí 2022. Í erindinu hafi verið gerðar athugasemdir við skort á svörum embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um stöðu mála sem til rannsóknar voru hjá embættinu vegna alvarlegs heimilsofbeldis sem konan hefði orðið fyrir og athugasemdir við langan málsmeðferðartíma embættisins. Fram kom að saksóknarafulltrúi embættisins hafi upplýst konuna um að ákæra yrði vonandi gefin út í september 2020 sem ekki hafi verið gert. Ítrekað hafi verið leitað eftir svörum og viðbrögðum frá embættinu vegna stöðu málanna en engin svör borist.
Nefnd um eftirlit með lögreglu segist hafa í kjölfarið óskað eftir frekari upplýsingum frá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra með bréfi dagsettu 27. júní 2022. Þrátt fyrir ítrekanir af hálfu nefndarinnar hafi erindinu ekki verið svarað fyrr 24. júní 2025. Þremur árum síðar.
Þá segist nefndin hafa fengið afrit af tilkynningu um niðurfellingu málsins sem dagsett hafi verið 7. desember 2021 en engar frekari upplýsingar hafi borist um aðra þætti kvörtunar konunnar.
Í svari lögreglustjórans á Norðurlandi eystra til nefndarinnar kom fram að tilkynning um niðurfellingu málsins hafi verið send í samræmi við þágildandi fyrirmæli ríkissaksóknara um tilkynningar til brotaþola í sakamálum. Bréfin hafi verið póstlögð með hefðbundnum hætti, þ.e. ekki sem ábyrgðarbréf, og því hvorki rekjanleg né hafi þurft að kvitta fyrir móttöku þeirra. Ekki sé hægt að segja til um skýringar á því hvers vegna bréf með tilkynningunni hafi ekki borist konunni. Réttargæslumaður hennar hafi óskað eftir upplýsingum um stöðu málsins í ágúst 2022 og verið þá sent afrit af niðurfellingarbréfinu.
Málið fyrndist á meðan það var til meðferðar hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra en í svarinu til nefndar um eftirlit um lögreglu hafnaði embættið því að veita upplýsingar um ástæður þess að málsmeðferðin dróst svo á langinn að svona fór. Vísaði embættið þar til valdheimilda nefndarinnar.
Vill þó nefndin meina að um sé að ræða mál sem heyri undir hennar valdsvið. Undir það falli hvernig tilteknir þættir lögreglustarfsins séu framkvæmdir eða ef lögregla láti hjá líða að sinna lögmætu hlutverki sínu. Um sé að ræða kvörtun sem lúti að starfsaðferðum starfsmanna embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra við rannsókn sakamála. Slíkt heyri undir valdsvið nefndarinnar.
Nefndin segist hafa farið yfir erindið og þau gögn sem borist hafi frá embættinu. Skýrslutaka vegna málsins hafi farið fram í desember 2018 en það verið fellt niður í desember 2021 a.m.k. að hluta á þeirri forsendu að sök í málinu væri fyrnd. Ekki sé í erindi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra til nefndarinnar að finna útskýringu á þessum langa málsmeðferðartíma sem málið tók en meint brot virðist hafa fyrnst á meðan málið hafi verið þá til meðferðar hjá lögreglu.
Nefndin segir einnig að óheppilegt sé að tilkynning um niðurfellingu málsins hafi ekki borist konunni en tilkynningin hafi þó verið send í samræmi við gildandi reglur þess tíma. Nefndin telur að með hliðsjón af því hvernig málsatvikum hafi verið lýst í kvörtuninni og þeim gögnum sem hún hafi hundir höndum, séu ekki uppi atvik þar sem tilefni sé til að meta hvort um mögulega refsiverða háttsemi starfsmanna lögreglu hafi verið að ræða. Hins vegar séu atvik málsins með þeim hætti að nefndin telji ástæðu til þess að lögreglan á Norðurlandi eystra fari yfir hvers vegna svo mikill dráttur hafi orðið á meðferð málsins, sérstaklega í ljósi þess að sök í málinu virðist hafa fyrnst á meðan á málsmeðferðinni stóð. Sé slíkt sérstakt áhyggjuefni þar sem málið hafi snúist um grun um heimilisofbeldi.
Nefndin lauk málinu með því að senda það til þóknanlegrar meðferðar hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra en taldi um leið rétt að vekja athygli ríkissaksóknara á málinu.