

Í dag eru 50 ár liðin frá því að Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn hér á landi og af því tilefni er blásið til viðburða víða um land. Í tilefni dagsins rifjar Guðmundur Andri upp sögu af móður sinni, Margréti Indriðadóttur, sem varð fréttastjóri Ríkisútvarpsins árið 1968.
„Mamma – Margrét Indriðadóttir – varð fréttastjóri Ríkisútvarpsins árið 1968 gegn vilja allra pólitísku flokkanna – fjórflokksins – sem stjórnuðu landinu og gegn vilja allra karlanna sem sátu í útvarpsráði og öðrum ráðum og stjórnum þar sem þeir véluðu um hlutina á bak við tjöldin,“ segir hann í færslunni.
Hann rifjar upp að þegar búið hafi verið að finna karl af Morgunblaðinu til að taka við starfinu, sem hún, varafréttastjórinn, hafði sótt um, hafi starfsmenn Ríkisútvarpsins risið upp allir sem einn og mótmælt af slíkum krafti að Moggamaðurinn gaf frá sér starfið.
„Og þá var ekki lengur hægt að sniðganga mömmu. Þetta var töfraárið, 1968, og hún var fagmaður, hafði lært blaðamennsku í Bandaríkjunum og starfað á fréttastofunni í fjölmörg ár,“ segir Guðmundur Andri sem heldur áfram:
„Svo liðu árin. Ég var sautján ára og við Gísli (Sigurðsson) vinur minn fórum í bæinn til að upplifa stemmninguna þarna 24. október 1975 þegar konurnar lögðu niður störf og skálmuðu niður á Lækjartorg. Gleðin í loftinu var áþreifanleg og ógleymanleg. Hún skein úr augum kvennanna allt í kringum okkur Gísla sem urðum aldrei samir, þetta var einbeitt gleði, vonarvissa, frelsisþrá þeirrar sem þorir, vill og getur. Þær voru að hugsa um dætur sínar og dætur þeirra og öll vissum við sem þarna vorum á Lækjartorgi undir himni sem nötraði af frelsi að ekkert yrði sem áður. Þetta var byltingardagur,“ segir hann.
Guðmundur rifjar svo upp í færslu sinni að á eftir hafi hann og Gísli kíkt á föður Gísla, Sigga Bald lögmann, og svo til mömmu Guðmundar á Skúlagötu.
„Hún var í vinnunni. Hún vildi aldrei fara í neins konar verkfall vegna þess einmitt að hún taldi starfsemi Fréttastofunnar ekki mega falla niður. Þannig hugsaði hún,“ segir Guðmundur.
„Mér hefur samt alltaf fundist að þetta hafi verið dagurinn hennar mömmu. Ég hugsa alltaf til hennar þennan dag; hversu einmanalegt það hefur verið fyrir hana að vera kona í valda og ábyrgðarstöðu á þeirra tíma vísu, að stýra fréttum á eina frjálsa fjölmiðli landsins; takast á við valdakarlana, sem höfðu aldrei viljað hana eða treyst henni vegna þess að hún taldi sig í þjónustu almennings – ekki þeirra – og takast svo á við allar hinar byrðarnar sem lífið færði henni,“ segir Guðmundur Andri sem endar færsluna á eftirfarandi orðum:
„Munum það strákar. Þetta er dagur kvennanna sem við elskum. Fögnum með þeim. Gleðjumst með þeim.“