Samþykkt var í gær á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar að fresta tillögum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðgerðir á fjölda ljósastaura í miðborginni. Fullyrt var í tillögunni að á Hverfisgötu, Snorrabraut og Austurstræti væru að minnsta kosti 61 óvirkir götulampar.
Lagðar voru fram tvær tillögur. Í þeirri fyrri var lagt til að ráðist yrði í viðgerðir á ljósastaurum við Hverfisgötu. Að minnsta kosti 35 götulampar væru óvirkir við götuna, einkum á eystri hluta hennar. Þá eæru þrír götulampar óvirkir á Snorrabraut, á kaflanum milli Hverfisgötu og Laugavegar.
Í hinni tillögunni var lagt að ráðist yrði í viðgerðir á ljósastaurum við Austurstræti. Að minnsta kosti 23 götulampar væru óvirkir við götuna.
Engin gögn fylgja með fundargerð fundar umhverfis- og skipulagsráðs sem varpa frekara ljósi á málið og engar bókanir voru lagðar fram og því liggur ekki fyrir hvað var rætt um tillögurnar á fundinum en niðurstaða meirihluta ráðsins var að fresta þeim. Hvort og þá hvenær verður ráðist í viðgerðir á öllum þessum ljósastaurum virðist því óljóst á þessari stundu.