fbpx
Þriðjudagur 21.október 2025
Fréttir

Hugmyndum um Skautahöll í Kópavogi hafnað

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 21. október 2025 13:30

Hugmyndin gengur út á að reisa mannvirkið á þessu bílastæði. Mynd: Skjáskot/Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skipulags- og umhverfisráð Kópavogs hefur hafnað umsókn Skautasambands Íslands um breytingu á deiliskipulagi Kópavogsdals. Gengur umsóknin út á að heimila byggingu fjölnota íþróttamiðstöðvar í dalnum, sem meðal annars á að innihalda skautahöll. Er vísað til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa sem telur ekki tímabært að taka afstöðu til einstakra umsókna þar sem vinna við endurskoðun deiliskipulags dalsins standi yfir. Segir þó í umsögninni að tillögur starfshóps um framtíð dalsins verði nýttar í vinnunni en í þeim kemur fram að skautasvell sé meðal þess sem íbúar bæjarins vilji helst sjá í dalnum.

Samkvæmt umsókn Skautasambandsins segir að byggingin yrði á svæði á milli Smáraskóla, Kópavogsvallar og Sporthússins þar sem nú er bílastæði. Hins vegar ganga hugmyndir sambandsins út á að bílakjallari yrði undir húsinu svo að það komi ekki niður á fjölda bílastæða. Vill sambandið meina að viss stöðnun hafi orðið á þróun framboðs og uppbyggingar íþróttamannvirkja í Kópavogi. Fjölbreytni þeirra íþróttagreina sem í boði séu fyrir íbúa Kópavogs hafi ekki haldist í hendur við fjölgun íbúa. Skautasamfélagið hafi í mörg ár reynt að benda á að engar ísíþróttir séu stundaðar í Kópavogi þrátt fyrir margar kannanir á vegum Betri Kópavogs þar sem hugmyndir um
skautasvell hafi fengið mest fylgi. Bent er á að um 250 iðkendur frá Kópavogi og nærsveitarfélagi, sem ekki er tekið fram hvert er, stundi ísíþróttir með félögum í Reykjavík.

Jaðar

Sér Skautasambandið fyrir sér að Skautahöllin yrði á annarri hæð mannvirkisins en að á hæðinni fyrir neðan yrði aðstaða fyrir „jaðaríþróttir“ og eru þá nefnd í umsókninni skylmingar, skotfimi, bogfimi, pílukast og keila. Einnig er lagt til að aðstaða verði fyrir utan höllina fyrir bæði línuskauta og skautasvell. Segir í umsókninni að alls yrði aðstaða fyrir 13 íþróttir í húsinu en ísíþróttirnar yrðu listskautar, skautahlaup, íshokkí, samhæfður skautadans og krulla. Einnig er lagt til að mannvirkið yrði tengt við Kópavogsvöll með nýrri stúku. Vísar sambandið til þess að löngu tímabært sé að koma þessum íþróttum fyrir í Kópavogi.

Skautasambandið minnir einnig á að starfshópur um framtíð Kópavogsdals lagði einmitt til á síðasta ári að skoða hugmyndir um að byggja skautahöll ofan á bílastæðahús og að gert hafi verið ráð fyrir skautasvelli í dalnum í deiliskipulag allt frá árinu 1993.

Starfshópurinn minnir einnig á í sínum tillögum að skautasvell hafi verið meðal þess sem fékk mest fylgi í íbúasamráði um framtíð Kópavogsdals.

Vinna

Í umsögn skipulagsfulltrúa er hins vegar vísað til þess að í aðalskipulagi Kópavogs komi fram að vinna þurfi nýtt deiliskipulag fyrir íþróttasvæðið í Kópavogsdal. Minnt er á að skipulagsfulltrúanum hafi áður verið falið að móta tillögur um næstu skref. Leggur skipulagsfulltrúinn meðal annars til að haldin verði samkeppni um aukna nýtingu á íþróttasvæðinu í samræmi við tillögur starfshópsins, frekari þarfagreiningar verði unnar og haft verði samráð við Breiðablik og aðra hagsmunaaðila á svæðinu. Sömuleiðis er lagt til að gerð verði endurskoðun á deiliskipulagi Kópavogsdals, sem er frá 1990, með það að markmiði að móta framtíð dalsins, stýra uppbyggingu, vernda náttúru og tryggja áframhaldandi íþróttastarfsemi á svæðinu.

Telur skipulagsfulltrúi ekki tímabært að taka afstöðu til einstakra umsókna um breytingar á deiliskipulagi á meðan þessi vinna standi yfir.

Með vísan til þessa hafnaði skipulags- og umhverfisráð umsókn Skautasambandsins en vísaði málinu til afgreiðslu í bæjarráði og bæjarstjórn.

Það er því ekki útilokað að einhvern tímann verði reist skautahöll í Kópavogsdal en það virðist ekki verða af því í bráð.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Víkingur Heiðar hlýtur verðlaun Norðurlandaráðs 2025

Víkingur Heiðar hlýtur verðlaun Norðurlandaráðs 2025
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Játning morðingja John Lennon – Ástæðan var einföld og sjálfselsk

Játning morðingja John Lennon – Ástæðan var einföld og sjálfselsk
Fréttir
Í gær

Bíræfinn þjófur rekinn úr starfi hjá Nettó

Bíræfinn þjófur rekinn úr starfi hjá Nettó
Fréttir
Í gær

Eflingarfélagar hafa áberandi lægstu tekjurnar 

Eflingarfélagar hafa áberandi lægstu tekjurnar