Anna Kristjánsdóttir, samfélagsrýnir og heldri borgara í sólarparadísinni Tenerife, er stórhrifin af þáttunum Felix og Klara sem sýndir eru á RÚV. Hún segist sérstaklega hrifin af þessum þversumglaða fyrrum tollverði sem heitir Felix og minnist mannsins sem hún telur fyrirmyndina að Felix. Hún minnist einnig tengdaföður Jóns Gnarr, sem leikur Felix.
„Jóhann heitinn Gíslason vélfræðingur og tengdafaðir Jóns Gnarr var sögumaður góður, löngum yfirvélstjóri hjá Eimskip og átti oft í skemmtilegum rimmum við Tollgæsluna. Ég efast um að hann hafi verið neitt þagmælskari við tengdasoninn en okkur sem voru honum samferða í lífsstarfinu, en þótt ég hefði aldrei verið honum samskipa til sjós, þá þekktumst við ágætlega.“
Þrír þættir hafa þegar verið sýndir og segist Anna þá það á tilfinninguna við áhorfið að Jón Gnarr og Ragnar Bragason hafi við handritsgerðina haft ónefndan tollvörð í huga, en Anna vill ekki nefna nafn hans af tillitssemi við afkomendur.
„sá þótti mjög smámunasamur og átti jafnvel til að telja sígaretturnar í opnum pökkum og gera upptækar, semsagt reglugerðarpúki af verstu gerð.
Umræddur tollvörður sem var vaktstjóri á sinni vakt kom einu sinni sem oftar og leitaði hjá mér er við komum til Reykjavíkur og þegar hann var búinn að gramsa í öllum skúffum og skápum og rífa í burtu hálfa innréttinguna á herberginu mínu án þess að finna neitt, fór hann að skoða bókahilluna hjá mér, sá þar nokkur áhugaverð niðjatöl og þar með hætti hann að leita. Eftir þetta þegar farið var um skipið til að tollskoða og stimpla, sendi hann venjulega Gunna Sæm inn til mín því eins og hann sagði sjálfur, „ég vil ekki taka vini mína fyrir smygl“. Gunni Sæm gerði eins og fyrir hann var lagt, kom inn til mín, stimplaði það sem ég mátti hafa meðferðis, opnaði síðan ísskápinn, náði sér í ískaldan bjór og síðan áttum við góða spjallstund saman, enda prýðismaður eins og flestir tollverðir á þessum árum.“
Anna segir yfir áratug síðan umræddur tollvörður lést á tíræðisaldri, en þau hafi oft hist á fundum hjá Ættfræðifélaginu á árunum í kringum aldamótin enda hafi tollvörðurinn verið ættfræðingur góður og segir Anna þá hafa verið orðinn ljúfur eins og lamb og löngu hættur að vinna, fæddur 1923.
„Við ræddum stundum saman um gömul smyglmál og að sjálfsögðu þurfti hann að taka fram að hann hefði þurft að halda aftur af sumum farmönnum sem gengu fram af sjálfum sér. Mér skilst að hann hafi þótt mjög gamaldags í öllu líferni sínu og þegar þau hjónin fóru í útilegu var að sögn notað tjald álíka fornlegt og notuð voru fyrir miðja tuttugustu öldina.
Ég er búin að horfa á þrjá fyrstu þættina af Felix og Klöru og ég sé umræddan tollvörð ávallt fyrir mér þegar ég sé Jón Gnarr í hlutverki Felix.
Þvílíkur snilldarleikur hjá bæði Jóni Gnarr og Eddu Björgvins.“
Segir Anna að hún hlakki til næstu þátta.
„Ég bíð þess enn að Gunni Sæm komi til Tenerife eins og hann er margbúinn að lofa mér, svo við getum rifjað upp gömul smyglmál saman sem öll eru fyrnd fyrir löngu.“