Fjöldi villikatta á eyjunni Kýpur er orðinn slíkur að kalla þurfti til þingnefnd til skrafs og ráðagerða. Talið er að það séu fleiri villikettir en manneskjur á eyjunni.
Fréttastofan AP greinir frá þessu.
Elstu leifar sem fundist hafa um kattahald eru á eyjunni Kýpur, í austanverðu Miðjarðarhafi. En þar fannst á sínum tíma gröf með beinagrind manns og kattar frá því um 6 þúsund fyrir Krist. Má því segja að Kýpurverjar séu kattelsk þjóð með mikla sögu um samneyti manna og katta. En öllu má nú ofgera.
Í lok september kom umhverfisnefnd kýpverska þingsins saman til að ræða lausnir á gríðarlegum fjölda villikatta í landinu. En talið er að það sé að minnsta kosti einn villiköttur á hvern íbúa landsins, sem eru um milljón. Sennilega sé fjöldi kattanna vantalinn um nokkur hundruð þúsund.
Var þingnefndinni tjáð að þær áætlanir um geldingu villikatta sem nú eru í gangi dugi alls ekki til að hemja fjölgunina. Fjöldi katta á Kýpur væri allt of mikill miðað við íbúafjöldann og gæti haft hræðileg áhrif á vistkerfin.
„Þetta er góð áætlun en það þarf að útfæra hana,“ sagði Antonia Theosiou, forstjóri umhverfisstofnunar Kýpur.
Í dag framkvæmi stofnunin 2 þúsund geldingar sem kosti hana 100 þúsund evrur. Það er rúmlega 14 milljónir króna. Sem sagt að hver gelding kosti um 50 evrur, eða rúmlega 7 þúsund krónur.
Hefur því umhverfisráðherrann, Maria Panayiotou, tilkynnt að fjárveiting verði þrefölduð. Það er verði 300 þúsund evrur árlega.
Charalambos Theopemptou, formaður umhverfisnefndarinnar, ítrekaði hins vegar að það sé ekki einungis hægt að reiða sig á aukið fjármagn til að takast á við fjölgun loðboltanna. Það yrði að vera einhver skotheld áætlun til að takast á við vandamálið.