Berglind Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og markþjálfi, segir að mikið þurfi til að hún reiðist. Það hafi hins vegar gerst í gærkvöldi þegar hún kom að viðskiptavini í Nettó skammast í erlendum starfsmanni á kassa þar fyrir að tala ekki íslensku.
„Ég er í Nettó þegar ég heyri mann vera að röfla í afgreiðslumanninum. Þegar ég kem nær þá kemst ég að því að hann er að skammast í honum fyrir að vera að vinna á Íslandi án þess að tala íslensku og hann hættir ekki að pönkast í honum þrátt fyrir að hann sé farinn að afgreiða annan aðila.
„Af hverju talar þú ekki íslensku á Íslandi? Ef ég byggi í þínu landi myndi ég kunna þitt tungumál. Af hverju kannt þú ekki okkar?“ Nei það var ekki verið að taka upp Fóstbræður.“
Berglind segist almennt geðgóð manneskja og mikið þurfa til að gera hana reiða, en þarna hafi henni ofboðið yfir dónaskap mannsins.
„Það sauð á mér og ég bað hann vinsamlegast um að láta manninn í friði og yfirgefa búðina. Mér væri gjörsamlega ofboðið yfir dónaskapnum. „Já finnst þér ég dónalegur…ertu ekki sammála mér???““
Berglind segist á þeirri skoðun að við getum haft alls konar á því sem vinnur við störf hérlendis eigi að vera fullfært um að tala íslensku.
„En fyrst og fremst sýnum við fólki virðingu og kurteisi því sama hvaða tungumál við tölum þá skiptir það engu máli ef við erum dónalegir ruddar! Eftir að maðurinn yfirgaf búðina bað ég starfsmanninn afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar, já mér fannst ég bara geta tekið mér það bessaleyfi.
Hann sagði mér að þetta upplifði hann oft á dag alla daga alltaf. Af 20 starfsmönnum á þessari starfsstöð væru 18 manns sem væru erlendir og að erfitt væri að fá íslendinga til vinnu við þessi störf.
Kannski að fólkið sem telur sig eiga rétt á því að hamast í erlendu starfsfólki án þess að hafa neinar upplýsingar um hversu lengi það hafi búið hér eða hverjar aðstæður þess séu taki sig nú bara til og sæki um. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hamra á lyklaborðið.“
Berglind, sem einnig starfar sem leiðsögumaður, segir svona hegðun einfaldlega ekki í lagi og botnar færslu sína með orðunum:
„Kveðja konan sem er að fara í enn eitt skiptið sem leiðsögumaður til Ítalíu og Frakklands án þess að kunna tungumálið!“