Maður hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Austurlands fyrir að hafa stolið töluverðu magni af áfengi en maðurinn hefur áður verið dæmdur fyrir þjófnað.
Maðurinn var ákærður ásamt öðrum ónefndum manni fyrir að hafa að nóttu til í ágúst 2023 brotist inn á stað sem ekki er nefndur í dómnum. Þaðan stálu mennirnir tíu 500 millilítra bjórdósum af gerðinni Gull Lite og Tuborg Classic, 20 flöskum af 187–200 millilítra hvítvíni, 20 flöskum af 200 millilítra freyðivíni og 25 lítra Carlsberg-bjórkút ásamt tengistykki á stút kútsins.
Sömu nótt brutust þeir inn á öðrum ónefndum stað og stálu þaðan fimm flöskum af sterku áfengi af tegundunum Volcan Tequila, Café Tequila, Bacardi Razz, Bacardi Blanco og Gordons gin, 25 stykkjum af 350 millilítra og 500 millilítra bjórdósum af gerðinni Gull,Tuborg og Úlfrún og sex dósum af 355 millilítra af Red Bull orkudrykkjum.
Hluti áfengisins fannst við húsleitir á heimilum mannanna, síðar á þessum sama sólarhring og þeir stálu áfenginu.
Maðurinn sem sakfelldur var játaði skýlaust brot sitt fyrir dómi en hinn maðurinn mætti ekki fyrir dóm en lögmaður mætti fyrir hans hönd. Var þáttur hins mannsins skilinn frá þætti hins sakfellda og sameinaður öðru máli sem hefur verið höfðað á hendur fyrrnefnda manninum.
Hinn sakfelldi hefur tvívegis áður hlotið dóm en í dómnum er þess getið að í júní 2019 var hann dæmdur í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára frá uppkvaðningu þess dóms, og sviptur ökurétti í 16 mánuði fyrir ýmis brot gegn refsilöggjöf, þar á meðal fyrir þjófnað.
Játning mannsins í þetta sinn var metin honum til málsbóta sem og að nokkuð væri liðið frá áfengisþjófnaðinum. Við hæfi þótti því að dæma hann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi en skilorðið gildir til næstu tveggja ára.