fbpx
Þriðjudagur 14.október 2025
Fréttir

Aldís hefur verið beitt grófu stafrænu ofbeldi í 10 mánuði – „Ég vil bara fá líf mitt til baka. Mig langar bara að elda kvöldmat fyrir börnin mín “

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 14. október 2025 08:00

Aldís Gló Gunnarsdóttir. Mynd: Skjáskot YouTube.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aldís Gló Gunnarsdóttir, kennari, myndlistarkona og móðir, byrjaði að upplifa það fyrir nokkrum mánuðum að einhver væri að hakka sig í símann hennar og inn á alla samfélagsmiðla og öpp.

Ofsóknirnar hafa verið stöðugar síðan og hafa gert það að verkum að Aldís er einangruð og í veikindaleyfi. Hún virðist hvergi geta fengið aðstoð, og fær oft þau svör að það eigi ekki að vera hægt að hakka hana svona.

Í viðtali við Kiddu Svarfdal í Fullorðins segir Aldís hvað hún hefur mátt upplifa frá því í janúar, meðal annars að ekki geta hringt úr símanum sínum eða móttekið símtöl. Hún sé einangruð frá ættingjum og vinum, og geti ekki stundað vinnu. Hakkarinn máli hana upp sem geðsjúkling. Aldís segist standa í skilnaði og í janúar hafi hún fyrst orðið vör við að eitthvað væri að stillingunum hjá henni í símanum.

„Síminn minn bara stöðugt hakkaður og miklu grófara fyrst, það hefur aðeins sko mildast þannig lagað. Hvernig byrjar þetta? Þetta er svolítið svona, henda mér út af samfélagsmiðlum og þegar ég var að auðkenna mig þá kom svona eins og síða yfir auðkennin. Og þegar ég var að reyna að tala við Auðkenni inni í símanum, þá er mér hent út úr appinu, aftur og aftur og aftur. Það er svona fyrstu merkin. og alltaf að detta niður myndavélin og hljóðneminn. Ég skildi það nú ekki alveg þarna fyrst af hverju það var að gerast.“

Segir Aldís að hún hafi dvalið í Kvennaathvarfið í viku og starfskonur þar þekktu þetta vel, að myndavél í síma væri notuð til að vita hvar konur væru staðsettar og til að sjá framan í þær. Aldís væri ekki fyrsta konan sem lenti í þessu og alveg örugglega ekki sú síðasta. Aldís varð einnig vör við auka ljós í mælaborði bíls síns og sögðu starfskonur Kvennaathvarfsins að það væri einnig alþekkt að öpp bíla væru rakin.

„Og það er náttúrulega svolítið þannig þegar maður lendir í svona að maður pínulítið lamast. Þú veist, maður verður náttúrulega ofboðslega var um sig og taugaveiklaður.“

Facebook ítrekað hakkað

Næst var Facebook og Google hakkað hjá Aldísi. Hún útbjó nýjan aðgang á Facebook sem var líka hakkaður aftur og aftur.

„Mér fannst alltaf eins og það væri einhver inn á auðkennunum mínum. Það var bara stöðugt, ég var alltaf að fara niður í Auðkenni og tala við Auðkenni og þeir sögðu bara: „Þetta er ekki hægt.“ og og allir sem ég talaði við: „Þetta er ekki hægt.“ og „Ertu alveg viss um þetta?“ Og já, ég var alveg viss um þetta og og svo var ég að reyna að vera í vinnu og og til þess að vera kennari þá þarftu að auðkenna þig. Þú ert að lesa upp og þegar ég var að lesa upp þá kom alltaf eins og það væri önnur síða sem lagðist yfir hina og þetta er svo stuðandi. Og þar sem ég komst ekki inn á neitt, þá náttúrulega var þetta mjög stressandi.“

Fór í veikindaleyfi en ákvað að láta draum rætast

Aldís fór í veikindaleyfi, og segist hafa verið orðið vör um sig og alltaf fundist eins og einhver væri að fylgjast með henni. Segist hún vera margbúin að skipta um bæði síma og símanúmer.

„Fyrir utan að standa í skilnaði, sem er náttúrulega ofboðslega mikil sorg út af fyrir sig, þá er þetta ekki til að bæta álagið.“

Aldís segist ekki hafa fengið stundarfrið og upplifað mikla vanlíðan. Draumur hennar hafði lengi verið að ganga Jakobsveginn og bað vinkonu sína á laugardagskvöldi um að bóka ferðina fyrir sig. Á miðvikudegi flaug Aldís út símalaus, en með símkort á nafni annarrar vinkonu sinnar.

„Þegar ég kem út þá kynnist ég mjög fljótt þarna kjarnafólki sem ég endaði með að labba með alla leið. Og þau fara með mér í það að kaupa síma. Ég kaupi bara ódýran einhvern Samsung síma og set kortið í hann og það er í eina skiptið á þessum tíma sem að síminn fékk að vera í friði. Það er þarna úti á Spáni. Og það voru allir með áhyggjur af mér. Ég var náttúru-lega labbandi ein, kona á miðjum aldri að labba ein 800 kílómetra. En þetta var náttúrlega þannig að ég gat látið vita af mér á hverju kvöldi, hvert ég var komin. Þegar ég er svona hálfnuð ákvað ég að búa til Instagram reikning til þess að geta sett myndirnar inn á, sem ég var að taka og til að fjölskyldan geti fylgst með. Og Facebook, prófa það. Það fékk að vera í friði þarna á meðan ég var úti.“

Áreitið hófst aftur stuttu seinna. Þegar Aldís kom heim til sín í Keflavík komst hún síðan að því að búið var að skipta um sílinder á útidyrahurðinni hjá henni.

„Þetta er náttúrulega mín íbúð og ég á heima þarna. Svo heyri ég bara sírenur og læti og það koma þrír lögreglubílar, fullir af fílelfdum karlmönnum. Þá kemur í ljós að það hefur verið hringt á lögregluna og sagt að ég væri vopnuð. Þeir láta mig blása, halda að ég sé drukkin, sem ég var ekki. Og ég fékk ekki að fara inn og ná í fötin mín. Þannig að ég enda á því að keyra inn í Landeyjahöfn um miðja nótt. Ég bara gat ekki gert fólkinu mínu það að banka upp á um miðja nótt. Þarna ákvað ég að þessi samskipti væru ekki að fara að gera neitt fyrir mig. En síminn hefur ekki verið í friði síðan ég kem þarna heim í maí.“

Aldís veit ekki töluna á netföngum sem hún er búin að stofna. Segir hún símtöl ítrekað hafa slitnað, meðal annars við lögfræðinginn hennar. Aldís segist hafa leitað aðstoðar hjá Davíð tölvuverkfræðingi hjá Tölvun í Eyjum, sem hún segir hafa sett upp símann og alla aðganga fyrir hana. En um leið og hún kom heim til sín var síminn hakkaður.

„Ég er algjörlega sannfærð um það núna að það var eitthvað í húsinu sem að tók yfir digital, af því að krossverkun, þessi tæki tala saman. Hann skrifaði skýrslu fyrir mig, þar sem hann sagði frá, þar sem ég var bara með svart á hvítu, hvað var búið að gera og hvernig þetta birtist honum. Það væri klárlega eitthvað mjög óeðlilegt í gangi.

Taugakerfið fær ekkert frið ef maður heldur að maður sé stöðugt eltur. Og ég fékk ekkert tækifæri til þess að ná að jafna mig, af því að þetta var bara og er búið að vera algjörlega endalaust. Og síðast núna, ætli það séu tvær vikur síðan.“

Var farin að efast um sjálfa sig og skilur vel að aðrir efist

Segir Aldís skilja að fólk efist um að hún segi satt, þetta mál sé svo fjarstæðukennt. Hún hafi meira að segja sjálf efast á tímabili.

„Þessi einstaklingur sem er að gera þetta, hann hefur sagt bara fullum fetum við fólk að ég sé með ranghugmyndir, ég sé fyllibytta eða alls konar, til þess að moka yfir drulluna. En svo hefur fólk sem er með mér í einhvern smá tíma séð hvernig síminn lætur, hvort sem það eru foreldrar mínir eða vinir mínir eða fjölskyldan hans jafnvel, sem hafa séð að þetta er náttúrulega allt saman ofboðslega óeðlilegt.“

Aldís rekur að hún er búin að leita aðstoðar hjá Vodafone, Símanum, Nova, Apple, Kvennaathvarfinu og Bjarkarhlíð.

„Það voru tveir dagar þarna sem ég hreinlega lá í rúminu. Ég var bara algjörlega búin, af því ég sá bara ekki fram á annað en algjört tilgangsleysi. Þú veist, ég er ekki í vinnunni. Ég get illa verið í samskiptum við aðra. Ég get illa verið í samskiptum við börnin mín. Ég er ekki heima hjá mér. Þú bara sá fram á að þetta myndi aldrei lagast, ég er bara að fara að vera föst, einangruð, í herbergi út í bæ og þetta lagast aldrei. Ég held að þetta hafi verið lægsti punkturinn hingað til.“

Aldís leitaði síðast til Nova og þar kom í ljós að annar einstaklingur hafi getað átt við reikningana hennar þrátt fyrir að stæði hjá öllum símafyrirtækjunum að hún ein mætti hafa um þá að segja. Hún segist hafa spurt þegar hún var hjá Nova hvort þetta væri ekki lögreglumál, sem þeir myndu tilkynna. Svarið var nei og svarið var einnig nei hjá Auðkenni.
Annað var upp á teningnum þegar eiginmaður frænku hennar hringdi í Nova, þá var mál sett í gang.

„Mér finnst það líka svolítið áhugavert í þessu öllu saman. Ég hef náttúrulega ekki lent í því áður. Það er þetta að við eigum forseta sem er kona og forsætisráðherra sem er kona og og við erum mjög stolt af því að vera jafnréttis-Ísland. Þegar á reynir og hefur á, eins og núna síðustu mánuði, þá hefur hann notið vafans, en ekki ég, og það er ekki búið að stoppa þetta,“ segir Aldís.

„Lífið mitt er fangað. Ég er í algjöru fangelsi. Og það tók mig 10 mánuði að segja þetta upphátt. Mitt síðasta vopn í þessu er bara að segja frá og skila skömminni. Því að það er ekkert eftir, það er enginn að fara að hjálpa mér. Spurningin er, væri tveggja metra maður í valdastöðu, í mínum sporum? Einangraður í herbergi úti í bæ? Ég hef enga trú á því. Enga.“

Aðspurð um hvernig henni finnst tekið á móti sér í þessum fyrirtækjum sem hún nefnir svarar Aldís: „Það er náttúrulega alveg einn og einn sem hefur viljað hlusta. Fólk er svona, jæja. Næstum klappar mér á kollinn. Svona vinan. Svo verður maður svo frústreraður. Ég veit að það er verið að eiga við símann minn. Ég veit að það er verið að henda mér út af samfélagsmiðlum. Ég veit að vinir mínir ná ekki í mig. Vinir mínir sem hringja í mig enda á því að koma heim, mjög hræddir af því að það er alltaf á tali. Og ég kannski bara ekkert að gera, ligg upp í rúmi eða eitthvað.“

„Ég vil bara fá líf mitt til baka“

Aldís bendir á að síminn sé öryggistæki.

„Þetta varðar líka bara mitt öryggi. Síminn er öryggistæki og mitt öryggi er bara svolítið í hættu. Ég tala nú ekki um ef það er hægt að eiga eitthvað við appið í bílnum. Þannig að þetta er bara grafalvarlegt. Og miklu meira alvarlegt heldur en að fólk almennt held ég átti sig á. Nema það, ég er að finna svona aðeins viðhorfsbreytingu núna eftir að ég fékk þessa tvo miðaldra menn til þess að hjálpa mér. Þá fór fólk að hlusta. Fyrr þá var ég bara svolítið taugaveikluð miðaldra, sem ég sannarlega var og er, af því þetta er svo stuðandi. Ég mæti alls staðar veggjum. Það hefur bara enginn getað hjálpað mér. Það er bara ofboðslega erfitt að standa og garga á torgum, ég er búin að gera það í 10 mánuði. Ég er beitt ofbeldi og það er ekki stoppað. Kerfið passar mig ekki, það er ekkert öryggi, það er ekkert öryggisnet. Ég enda á örorku ef þetta hættir ekki.  Ég vil bara fá líf mitt til baka. Mig langar bara að elda kvöldmat fyrir börnin mín. Að horfa á sjónvarpið, bara eins og aðrir. Þetta er miklu stærra og meira en fólk áttar sig á. Þetta er eitthvað sem þolir ekki dagsljósið. Ég er alveg sannfærð um það og ég get ekki verið eina konan í heiminum sem hef lent í þessu.

Stafrænt ofbeldi

Hvað er stafrænt ofbeldi? Stafrænt ofbeldi, eða netofbeldi, er það þegar einhver notar tæki eða tækni til að fylgjast með þér, ógna þér, áreita þig eða niðurlægja þig.

Það er stafrænt ofbeldi þegar ofbeldi er beitt gegnum síma, tölvu eða samfélagsmiðla (eins og TikTok, Facebook, Twitter, Instagram eða Snapchat). Það getur verið texti eða mynd með skilaboðum, tölvupósti eða gegnum samfélagsmiðil. Það er líka stafrænt ofbeldi ef einhver er að fylgjast með hvað þú gerir í símanum þínum og hvað þú gerir á netinu.

Hér má finna dæmi um stafrænt ofbeldi og hvar leita má aðstoðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Nýskilin kona taldi flutningsmann hafa lofað sér ókeypis þjónustu en svo kom rukkunin frá konu hans – „Ég er rotinn lygari“

Nýskilin kona taldi flutningsmann hafa lofað sér ókeypis þjónustu en svo kom rukkunin frá konu hans – „Ég er rotinn lygari“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

„Sigurvegarinn að þessu sinni er Anna, sem náði að eyða starfsmannaskránni!“

„Sigurvegarinn að þessu sinni er Anna, sem náði að eyða starfsmannaskránni!“
Fréttir
Í gær

Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk fjúkandi reitt út í Ölmu

Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk fjúkandi reitt út í Ölmu
Fréttir
Í gær

Snorri Másson kjörinn varaformaður Miðflokksins

Snorri Másson kjörinn varaformaður Miðflokksins
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vann 10 milljónir í kvöld – „Er þetta símahrekkur?“

Vann 10 milljónir í kvöld – „Er þetta símahrekkur?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sósíalistar argir út af friðarverðlaunum Nóbels – „Machado er ekki friðarsinni“

Sósíalistar argir út af friðarverðlaunum Nóbels – „Machado er ekki friðarsinni“