fbpx
Mánudagur 13.október 2025
Fréttir

Hart deilt á lausagöngubann katta á Húsavík – „Það er allt fullt af ógeðismúsum hérna“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 13. október 2025 11:30

Mýsnar ganga lausar en kettirnir þurfa að fylgjast með þeim út um stofugluggana.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Húsavík er einn af þeim stöðum á landinu þar sem lausaganga katta er bönnuð. Margir Húsvíkingar eru hins vegar búnir að fá nóg af banninu enda fá nagdýr að valsa óhindruð um götur bæjarins.

„Getum við Húsvíkingar ekki bara leyft lausagöngu katta? Það er allt fullt af ógeðismúsum hérna,“ segir upphafsmaður umræðunnar í íbúagrúbbu í bænum.

Eins og margir muna varð allt vitlaust í nágrannabænum Akureyri fyrir nokkrum árum þegar bæjarstjórn samþykkti að banna lausagöngu katta. Var stofnað heilt stjórnmálaafl til höfuðs banninu, K-listi Kattaframboðsins. Flokkurinn náði ekki manni inn í bæjarstjórn í kosningunum árið 2022 en náði hins vegar meginmarkmiði sínu fram því bæjarstjórn dró lausagöngubannið til baka.

Húsvíkingar eru hins vegar íhaldssamari hvað þetta varðar og lausagöngubann er þar enn þá í gildi. Það er allar kisur bæjarins verða að vera innikisur. Það er nema að smíðuð séu fyrir þá útibúr, eins og dæmi eru um að sumir kattavinir í bænum geri.

Vilja flokk gegn lausagöngubanni

Í umræðuþræðinum virðast flestir íbúar vera á móti lausagöngubanninu og margir furða sig á því að þetta hafi aldrei verið rætt eða nein könnun gerð um afstöðu íbúa. Þá hafi bæjarstjórn verið þagmælt um það hvers vegna þetta hafi verið sett á.

Enn fremur kalla sumir íbúar eftir því að eitthvað stjórnmálaafl hafi það á sinni stefnuskrá fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar að leyfa lausagöngu katta. En eins og flestir vita þá er kosið í vor.

„Sammála! Náði þremur músum úr bílnum mínum fyrravetur… búnar að skemma leiðslur og annað!,“ segir ein kona, augljóslega þreytt á stanslausum músagangi. „Frekar dýrt djók! Efast sterklega að þetta hefði komið fyrir ef það væri leyfð lausaganga katta!“

„Mýsnar fjölga sér eins og önnur dýr og fólk,“ segir önnur. „Auðvitað eiga kettir að veiða mýsnar og fara um. Alveg út í hött að loka ketti inni.“

Ögra yfirvöldum

Þá segja sumir einfaldlega ekki fara eftir reglunum. Þær séu dýraníð.

„Okkar ganga lausir hérna og okkur dettur ekki í hug að fara eftir þessum dýraníðs reglum um að halda þeim inn í húsi,“ segir ein kona.

Önnur hefur hins vegar lent í kattaföngurum bæjarins og það er dýrt spaug.

Sjá einnig:

Kattaelskendur bálreiðir út í Húsavík – „Fokk Húsavík. Ég ætla aldrei þangað“

„Við vorum með kött sem slapp út og fengum sekt, á endanum létum við köttinn fara því hann vildi ekki vera í bandi úti og við vorum ekki til í að borga 18 þúsund ef hann er tekinn úti,“ segir hún.

Köttur át kvöldmat heimilisfólksins

Ekki eru hins vegar allir á einu máli um lausagöngubannið. Sumir eru ánægðir með að loðboltunum sé haldið heima.

„Eru allir búnir að gleyma kattafárinu sem var hér á Húsavík áður en lausaganga var bönnuð? Það mátti hvorki opna glugga né hurð þá var kominn köttur inn. Það er ekki langt síðan eg fékk kött inn um glugga en mús hef eg ekki séð í mörg ár,“ segir ein kona.

„Þegar ég bjó á Húsavík var lausaganga leyfð. Einu sinni lenti ég í því að kom köttur inn um glugga og át megnið af kvöldmatnum sem átti að vera fyrir okkur heimilisfólk,“ segir önnur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ákærður fyrir stórfellt fíkniefnabrot eftir leit í bílskúr

Ákærður fyrir stórfellt fíkniefnabrot eftir leit í bílskúr
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslandsbanki hafði betur í máli gegn konu með litríka fortíð – Flúði til Rússlands eftir meintar ofsóknir og beið afhroð í þingkosningum

Íslandsbanki hafði betur í máli gegn konu með litríka fortíð – Flúði til Rússlands eftir meintar ofsóknir og beið afhroð í þingkosningum