fbpx
Sunnudagur 12.október 2025
Fréttir

Umdeilt einbýlishús fær að rísa á Seltjarnarnesi – Átti upphaflega að vera sambýli – Eitt orð hafði úrslitaáhrif

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 12. október 2025 19:30

Frá Seltjarnarnesi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað því að fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar um að heimila byggingu einbýlishúss á lóðinni við Hofgarða 16 í bænum. Eigendur nærliggjandi húsa hafa mótmælt byggingunni í nokkurn tíma meðal annars á þeim grundvelli að húsið eigi að vera umfangsmeira en öll önnur hús í nágrenninu. Það hafi upphaflega í deiliskipulagi verið heimilt að auka leyfilegt byggingarmagn eins mikið og mögulegt var á þeim grundvelli að á lóðinni væri stefnt að byggingu sambýlis væri fyrir fatlaða. Ekkert varð af þeim áformum og húsið sem er í byggingu er hefðbundið einbýlishús. Nefndin segir að eitt orð í greinargerð með deiliskipulagi hafi skipt miklu máli í niðurstöðu hennar.

DV hefur áður fjallað um kæruna en það voru eigendur sex einbýlishúsa í næsta nágrenni við lóðina sem lögðu hana fram.

Mótmæla byggingu húss sem upphaflega var kynnt sem sambýli

Vísuðu þeir einkum til þess að leyfilegt umfang bygginga á lóðinni og stærð nýja hússins væri meira en annarra húsa og á öðrum lóðum á svæðinu. Það hafi upphaflega verið rökstutt með þeim fyrirætlunum að húsið ætti að vera sambýli en fyrst hætt hafi verið við það væri ekkert sem réttlætti fyrirhugaða stærð hússins.

Áform

Í greinargerð með deiliskipulagi fyrir svæðið, sem tók fyrst gildi árið 2015, kom meðal annars fram að lóðin við Hofgarða 16 væri eina óbyggða lóðin á svæðinu. Á henni væri heimilt að byggja einbýlishús. Sagði enn fremur að áform væru uppi um að byggja heimili á lóðinni fyrir fjóra fatlaða einstaklinga og með hliðsjón af því tæki byggingarmagn lóðar mið af því sem mest gerðist á nálægum lóðum. Krafa væri gerð um að við hönnun væri ásýnd hússins með þeim hætti að ekki léki vafi á því að um einbýlishús sé að ræða.

Nágrannarnir höfðu áður kært breytingu á deiliskipulaginu sem gerð varð 2024 þar sem nýtingarhlutfall lóðarinnar var hækkað. Nefndin staðfesti þá ákvörðun og hafnaði því einnig að framkvæmdir við byggingu hússins yrðu stöðvaðar á meðan kæran á byggingarleyfinu væri til meðferðar.

Í kærunni var meðal annars fullyrt að leyfilegt byggingarmagn á lóðinni væri samkvæmt teikningum 372 fermetrar en samkvæmt deiliskipulaginu ætti það hins vegar aðeins að vera 341 fermetri. Ógilda ætti byggingarleyfið þar sem fyrirhuguð notkun lóðarinnar væri ekki í samræmi við forsendur deiliskipulags. Í upphaflegu deiliskipulagi hafi nýtingarhlutfall lóðarinnar verið ákveðið vel umfram það sem viðgengist hafi í Hofgörðum, en það frávik hafi verið rökstutt með vísan til sérstakra og málefnalegra samfélagslegra þarfa, þ.e. að áform væru um byggingu sambýlis fyrir fjóra fatlaða einstaklinga.

Nú þegar endanlegar teikningar lægju fyrir blasti við að ekki stæði til að hafa þarna sambýli. Það gæti ekki gengið upp að lóðarhafi gæti fengið í gegn hagstæðar breytingar á skipulagsskilmálum með vísan til tiltekinna aðstæðna og svo breytt áformum en enn notið þeirra skilmála sem gefnir hafi verið á grundvelli slíkra aðstæðna. Fyrirhuguð notkun byggingarinnar samræmdist því ekki gildandi deiliskipulagsheimildum.

Ekki ófrávíkjanlegt

Seltjarnarnesbær sagði í andsvörum meðal annars að nýtingarhlutfall lóðarinnar væri innan marka deiliskipulagsins. Bærinn hafði þegar deiliskipulagið var kært vísað til þess að aðstæður á lóðinni væru þannig að þörf væri á auknu nýtingarhlutfalli og það væru dæmi um lóðir á svæðinu með jafn háu eða hærra nýtingarhlutfalli. Bærinn hafnaði því einnig að það hafi verið ófrávíkjanleg forsenda ákvörðunar um hámarksnýtingarhlutfall á lóðinni á sínum tíma að þar yrði byggt heimili fyrir fjóra fatlaða einstaklinga.

Lóðarhafinn fékk tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og hann vildi meina að eftir samþykki deiliskipulagsins árið 2015 hafi komið í ljós að erfitt væri að byggja á lóðinni sérstakt húsnæði fyrir fatlaða þannig að það uppfyllti þær kröfur sem gerðar væri við rekstur slíkra íbúðakjarna. Snemma árs 2016 hafi legið fyrir að finna þyrfti aðra lóð innan bæjarins fyrir slíka starfsemi og hafi íbúðakjarni með sex íbúðum tekið til starfa vorið 2023 að Kirkjubraut 20. Þegar breytingar á deiliskipulagi hafi verið samþykktar árin 2022 og 2024 hafi ekki farið á milli mála að verið væri að fjalla um fyrirhugað einbýlishús en ekki heimili fyrir fjóra fatlaða einstaklinga.

Eitt orð

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að byggingaráformin séu innan þess hámarks nýtingarhlutfalls sem kveðið sé á um í deiliskipulaginu.

Þegar kemur að hinum upphaflegum áformum, þegar deiliskipulagið á svæðinu tók fyrst gildi, að á lóðinni yrði heimili fyrir fjóra fatlaða einstaklinga segir nefndin að fram komi í greinargerð deiliskipulagsins að á lóð Hofgarða 16 séu áform um þetta og vísað til þess að vegna þeirra áforma taki byggingarmagn lóðar mið af því sem gerist á nálægum lóðum. Þá sé gerð krafa um að við hönnun verði ásýnd og uppbrot hússins með þeim hætti að ekki leiki vafi á því að um einbýlishús sæe að ræða. Ekki verði sá skilningur lagður í orðið „áform“ að í því felist ófrávíkjanleg krafa um tiltekna notkun, sér í lagi með tilliti til þess að í greinargerðinni segi einnig að heimilt sé að reisa einbýlishús á lóðinni. Þrátt fyrir að byggingarmagn hafi verið ákveðið með hliðsjón af fyrrgreindum áformum verði þó að telja að sömu byggingarskilmálar gildi um einbýlishús, enda ekki við annað að miða.

Kröfu hinna ósáttu nágranna um að fella byggingarleyfið úr gildi er því hafnað og þar með virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að hið umdeilda einbýlishús á lóðinni, þar sem upphaflega var stefnt að byggingu sambýlis, fái að rísa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Svarar Elliða og segir að mögulega hafi mógðunargirnin byrjað hjá stjórnmálamönnum

Svarar Elliða og segir að mögulega hafi mógðunargirnin byrjað hjá stjórnmálamönnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vann 10 milljónir í kvöld – „Er þetta símahrekkur?“

Vann 10 milljónir í kvöld – „Er þetta símahrekkur?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ferðamaður komst að falli Play í morgun og á ekki pening fyrir gistingu – „Ég er að hugsa um að sofa í bílnum“

Ferðamaður komst að falli Play í morgun og á ekki pening fyrir gistingu – „Ég er að hugsa um að sofa í bílnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ásakanir ganga á víxl meðal fasteignasala og byggingafélagsins – Á milli stendur ekkja sem er búin að selja ofan af sér

Ásakanir ganga á víxl meðal fasteignasala og byggingafélagsins – Á milli stendur ekkja sem er búin að selja ofan af sér
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Elliði skrifaði færslu um Möggu Stínu: „Fyrsta líflátshótunin kom 18 mínútum seinna“

Elliði skrifaði færslu um Möggu Stínu: „Fyrsta líflátshótunin kom 18 mínútum seinna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yrsa átta mánaða heldur áfram að heilla fólk – Britney deilir myndbandinu

Yrsa átta mánaða heldur áfram að heilla fólk – Britney deilir myndbandinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Exi fannst við húsleit hjá konu – Var áður vitni í frægu morðmáli

Exi fannst við húsleit hjá konu – Var áður vitni í frægu morðmáli
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Austurríkismenn hóta að halda ekki Eurovision ef Ísraelum verður vikið úr keppni

Austurríkismenn hóta að halda ekki Eurovision ef Ísraelum verður vikið úr keppni