Karen Kjartansdóttir almannatengill og samfélagsrýnir minnir í færslu á Facebook á að hælisleitendum á Íslandi fari fækkandi en að útlendingum sem komi hingað til að vinna á grundvelli EES-samningsins fjölgi hins vegar. Hvetur hún til þess að stjórnmálamenn haldi sig við staðreyndir um útlendingamál og móti stefnu sína út frá því.
Borið hefur á því í ræðum forystumanna Miðflokksins á landsþingi hans sem hefur staðið yfir um helgina að málefni hælisleitenda séu stjórnlaus og landamæri Íslands nánast galopin. Reglulega er þó minnt á að tölur um þá sem óska eftir alþjóðlegri vernd segja aðra sögu. Útlendingastofnun greindi frá því í upphafi ársins að umsóknum hafi fækkað á síðasta ári úr um 4200 árið 2023 í um 1800. Það sem af er þessu ári mun umsóknum áfram hafa fækkað miðað við sama tímabil í fyrra en umsóknirnar voru í ágúst á þessu ári orðnar um 900. Á síðasta ári fengu 1336 vernd á Íslandi. Flestir komu frá Úkraínu en flestir þeirra fá tímabunda vernd.
Nánar má kynna sér tölfræði um umsækjendur um alþjóðlega vernd hér.
Eins og Karen bendir á er fjölgunin hins vegar mun meiri meðal þeirra útlendinga, sem flytjast hingað flestir á grundvelli EES-samningsins til þess að vinna störf, sem Íslendingar fást ekki í, og koma hvergi nærri hælisleitendakerfinu. Hefur fjölgað í þessum hópi mjög hratt á síðustu 10 árum.
Karen skrifar:
„Ef stjórnmálaflokkar vilja ræða raunverulegar áskoranir ættu þeir frekar að tala um atvinnustefnu sem kallar á innflutt vinnuafl, ekki nokkra tugi sem flýja átök. Tilfinningaþvaður sem ekki byggir á tölum er orðið þreytandi — sérstaklega þegar gögnin liggja alveg fyrir. Fjölgun útlendinga er ekki þessum allra minnsta hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd að kenna og fær ekki nærri allur vernd. Það sér hinn talnablindasti maður ef hann nennir að skoða gögn sem stjórnmálamenn virðast treysta á að kjósendur geri ekki.“
Karen segir að það sé ekki lausn á vanda íslenskunnar að agnúast út í hvað séu margir útlendingar á Íslandi:
„Ef þið hafið áhyggjur af íslensku bætið þá í stuðning við útgáfu barnaefnis á íslensku, styðjið við íslenska menningu sem skilar sér í auknum umsvifum og betra samfélagi. Hættið þessu væli.“