Sverrir Einar Eiríksson athafnamaður hefur tilkynnt að lögmaður hans undirbúi nú skaðabótamál á hendur ríkinu vegna þess tjóns og þess misréttis sem aðgerðir lögreglu og skattyfirvalda gegn honum og skemmtistað hans höfðu í för með sér. Segir Sverrir Einar gjaldþrot B5 beina afleiðingu fordæmalaus eineltis lögreglumanns gegn honum og afskiptaleysis yfirmanna hans.
Í gær greindi DV frá því skiptum er lokið í búi B Reykjavík ehf., alls var kröfum upp á 100.901.817 krónur lýst í búið, en engar eignir fundust. B Reykjavík ehf. var rekstrarfélag utan um skemmistaðinn Bankastræti Club, sem áður hét B5.
Í fréttinni er viðburðaríkt ár Sverris Einars rakið með deilum við fyrri eigendur, deilum við lögreglu og handtöku, og tveimur gjaldþrotum. Í sumar lauk skiptum í þrotabúi Þak byggingarfélags ehf., lýstar kröfur voru 157 milljónir króna, en engar eignir fundust. Einnig er saga Sverris Einars í viðskiptalífinu rakin.
Sjá einnig: B5-ævintýri Sverris Einars endaði með 100 milljón króna gjaldþroti – Annað stóra gjaldþrotið á þessu ári
Sverrir Einar rekur atburðarásina frá kaupum hans á B5 í júní 2023 til gjaldþrotsins í færslu á Facebook. Segir hann niðurstöðu málsins vera fyrst og fremst dapurlega og að:
„með valdníðslu, einelti, ofbeldi og upplognum ásökunum hafi tekist að blekkja fjölmiðla, starfsfélaga lögreglumannsins og fulltrúa sýslumanns, sem síðar kom í ljós að byggðu ákvarðanir sínar á upplognum, fölskum og tilhæfulausum ásökunum og kærum, sem leiddu til óhóflegrar og ólögmætrar valdbeitingar og að lokum þrots B5 með miklum missi fyrir tónlistarmenn, starfsmenn og gesti staðarins sem höfðu lagt hjarta sitt í þessa endurreisn.“
Segir Sverrir Einar B5 hafa verið að þrotum kominn eftir átök sem höfðu átt sér stað áður en hann kom að rekstrinum, hann hafi vonað að geta snúið staðnum við og það tekist með frábæru teymi: þar á meðal skemmtanastjóranum Skarphéðni Finnbogasyni og öflugum hópi barþjóna, dyravarða, glasabarna og listafólks sem tókst að blása lífi í B5 á ný. Segir hann staðinn hafa á örfáum vikum orðinn aftur einn vinsælasti skemmtistaður landsins og staðurinn verið smekkfullur helgi eftir helgi, oft með 100–200 manns í röð fyrir utan.
„Þessi velgengni fór augljóslega í taugarnar á fyrrverandi eigendum staðarins, sem tengjast félaginu KG ehf. og töldu sig jafnframt eiga rétt á nafninu B5. Þeir höfðu misst staðinn í COVID og opnað annan skemmtistað sem tæmdist þegar B5 varð vinsæll.
Þeir fóru í mál við mig um vörumerkið, og tímabundið þurfti ég að breyta nafninu. Síðar kom í ljós að kröfur þeirra voru tilhæfulausar og ég tók aftur upp nafnið B5.“
Sverrir Einar snýr sér næst að samskiptum sínum við lögregluna, sem hann segir hafa beitt sig fordæmalausu einelti og haft af sér og staðnum röng afskipti fljótlega eftir að reksturinn komst á gott flug. Segir hann lögreglumann, sem hann auðkennir með lögreglunúmeri, hafa mætt ítrekað á staðinn í 15 mánuði með lögreglusveit með sér:
„Fljótlega eftir að B5 tók flug hóf lögreglumaður nr. 2020 það sem ég tel hafa verið markvissa og kerfisbundna áreitni gegn mér, fjölskyldu minni, starfsfólki og viðskiptavinum. Í tæplega 15 mánuði mætti hann ítrekað, allt að 40 sinnum, á staðina sem ég rak stundum með 8–15 manna lögreglusveit sem hann kallaði „hefðbundið eftirlit með rekstri skemmtistaðar“. Slíkt er fordæmalaust, fráleitt og algerlega ósamrýmanlegt hlutverki lögreglu.“
Segir Sverrir Einar lögreglumanninn hafa lagt fram falskar og uppspunnar ásakanir, meðal annars um að ungmennum undir lögaldri hafi verið hleypt inn á staðinn, en Sverrir Einar segir það ekki á ábyrgð rekstraraðila ef einstaklingar framvísa fölsuðum skilríkjum. Segir hann lögreglumanninn einnig hafa verið með rangar ásakanir lögreglumannsins um dyraverði staðarins sem allir hafi verið með réttindi.
„Síðar hélt hann því fram að ég hefði ráðist á hann. Það var algerlega uppspuni. Allar þessar ásakanir voru felldar niður af bæði Héraðs- og Ríkissaksóknara sem algerlega tilhæfulausar, enda sýndu myndbandsupptökur svart á hvítu að ég var með hendur í vösum og hallaði mér aðeins niður að honum til að heyra hvað hann sagði, ásamt því að ásakanir um skort á dyravörðum eða að við hefðum hleypt fólki undir aldri á staðinn áttu ekki við nein rök að styðjast.“
Segir Sverrir Einar framgöngu lögreglumannsins brjóta gegn meginreglum stjórnsýslulaga meðal annars um meðalhóf, rannsóknarskyldu og andmælareglu, auk laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem kveða á um hlutlægni, jafnræði og ábyrgð opinberra starfsmanna, og lögreglulögum þar sem segi að lögreglan skuli sýna hóf, virðingu og sanngirni í störfum sínum og forðast að beita ólögmætu þrýstingi eða misbeitingu valds.
Sverrir Einar segir sama lögreglumann hafa sannfært sýslumann um að afturkalla rekstrarleyfi B5 tímabundið í sex vikur með því að leggja fram falskar og upplognar ásakanir.
Sú aðgerð hafi verið í andstöðu við lögreglulög. Sýslumaður hafi fallist á beiðnina
„..og það varð í reynd banabiti B5. Þegar leyfið fékkst aftur hafði markaðurinn breyst og staðurinn misst skriðþunga.
Það er einfaldlega ekki stemning að skemmta sér með 15 lögreglumenn yfir sér, og eftir þessar endurteknu aðgerðir var traust gesta og starfsfólks brotið niður.
B5 náði sér aldrei aftur á strik, þrátt fyrir mikinn vilja og vinnu og sú lokun markaði í raun endalok vinsælasta skemmtistaðar landsins.“
Sverrir Einar rekur síðan að í apríl 2024 hafi starfsmenn skattsins, átta manna lögreglusveit og blaðamaður Vísis mætt á B5 og staðurinn sem þá hafði verið lokaður í fimm mánuði verið innsiglaður.
„Síðar sama dag fór sami hópur á Exit, sem var í fullum rekstri, í skilum með öll gjöld og allt upp á tíu, og innsiglaði hann líka. Seinna sama dag var ég handtekinn grunaður um að hafa rofíð innsigli á Exit, þó innsiglun hefði aldrei átt að fara fram. Sú handtaka var tilefnislaus og ólögmæt, og kæran var felld niður sem algerlega tilhæfulaus.“
Segist Sverrir Einar mánudeginum á eftir hafa átt fund með yfirmanni starfsmanns Skattsins sem leiddi aðgerðina.
„Við það samtal viðurkenndi hann að mistök hefðu verið gerð, baðst afsökunar, lét opna staðina aftur og sagði að lögreglan bæri ábyrgð á þessu. Það var ljóst að Skatturinn hafði einungis fylgt röngum upplýsingum frá lögreglunni. Aðgerðin var framkvæmd án lagastoðar og í andstöðu við stjórnsýslulög.“
Segir Sverrir Einar þá opinberu starfsmenn sem hlut áttu að máli kunna að bera refsiábyrgð samkvæmt almennum hegningarlögum fyrir valdníðslu eða rangar sakargiftir.
Sverrir Einar segist í september 2023 hafa kært lögreglumann nr. 2020 til Nefndar um eftirlit með störfum lögreglu (NEL) vegna framgöngu hans og áreitni gagnvart sér og starfsfólki. Lögreglumaður hafi í kjölfarið kært Sverri Einar, „til lögreglu fyrir meint brot sem aldrei áttu sér stað, og síðar til Héraðs- og Ríkissaksóknara, sem felldu málið niður sem tilefnislaust.
Þessi gagnkvæmu kærumál gera hann augljóslega vanhæfan til að sinna neinum málum sem varða mig, fjölskyldu mína eða fyrirtæki mín. Þrátt fyrir það hélt hann áfram að áreita mig, starfsfólk mitt og staðina sem ég rak.
Yfirmenn lögreglumannsins bera jafnframt lagalega og siðferðislega ábyrgð á því að hafa látið slíka framgöngu viðgangast án þess að bregðast við.
Aðgerðaleysi yfirmanna í þessu máli að láta slíkt áreiti viðgangast mánuðum og misserum saman er því ekki aðeins siðferðislega óásættanlegt, heldur einnig lagalega ámælisvert samkvæmt stjórnsýslu- og þjónustuskyldu þeirra.“
Segist Sverrir Einar ítrekað hafa með tölvupóstum reynt að fá fund með yfirlögregluþjóni, en hann ekki haft tíma til að hitta hann í 15 mánuði. Eftir að hafa sent tölvupóst til lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, hafi hún skipulagt fund sem Sverrir Einar mætti á ásamt Ragnari Baldurssyni hrl., lögfræðingi sínum. 15 mánaða stöðugu áreiti lauk eftir þann fund að sögn Sverris Einars. Þakkar hann lögreglustjóra fyrir fagleg vinnubrögð.
„Ég lagði þar fram gríðarlegt magn gagna og tölvupósta sem sýndu fram á hvernig þessi lögreglumaður hafði logið að félögum sínum og yfirmönnum sínum og misnotað stöðu sína. Síðan þá og í áratug áður hef ég aldrei átt í neinum vandræðum eða útistöðum við lögreglu.“
Sverrir Einar segist hafa áhyggjur af því að aðgerðirnar gegn honum og B5 hafi ekki allar verið drifnar áfram af lögmætum eða faglegum forsendum.
„Fjölmargt bendir til þess að utanaðkomandi hagsmunir eða áhrif hafi átt þátt í framgangi málsins að ákveðnir aðilar hafi haft fjárhagslegan eða persónulegan ávinning af því að stöðva rekstur B5.
Þessar vísbendingar hafa borist mér frá ólíkum áttum og samhljómurinn í frásögnum þeirra er áhyggjuefni. Ég tel því mikilvægt að þetta verði rannsakað af óháðum aðilum, þar sem tryggt verði að allir sem komu að málinu verði spurðir út í aðdraganda og ákvarðanir. Því aðeins er hægt að endurheimta traust á lögreglu, stjórnsýslu og réttarríki.“
„Handtaka í september 2023: ásökun um „árás“ sem síðar reyndist tilefnislaus og ólögmæt. Málið var fellt niður af Héraðs- og Ríkissaksóknara sem algerlega tilhæfulaus, og Ríkissaksóknari felldi það endanlega niður 19. október 2024 með ítarlegum rökstuðningi.
Ungmenni undir aldri / dyraverðir: ávallt tveir dyraverðir með gild réttindi, í samræmi við 6. gr. reglugerðar um öryggi á skemmtistöðum nr. 1277/2016, þar sem segir að „að jafnaði skuli vera tveir dyraverðir með réttindi á skemmtistöðum“.
Rekstraraðili ber ekki ábyrgð á fölsuðum skilríkjum (mbl.is 17.1.24) og allar kærur og ásakanir um þessi atriði voru felldar niður sem tilhæfulausar.
Leyfissvipting 2023: byggð á fölskum og upplognum ásökunum lögreglumanns nr. 2020, í andstöðu við lögreglulög nr. 90/2018 og lög nr. 70/1996; slík háttsemi getur varðað refsiábyrgð samkvæmt 132. gr. almennra hegningarlaga.
Aðgerðin var of þung (6 vikna lokun) og varð banabiti B5.
Innsiglun 2024: framkvæmd án lagastoðar og í andstöðu við 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um meðalhóf og rannsóknarskyldu.
Þeir opinberu starfsmenn sem hlut áttu að máli kunna að bera refsiábyrgð samkvæmt 109. og 132. gr. almennra hegningarlaga fyrir valdníðslu eða rangar sakargiftir.
Í kjölfarið var ólögmæt handtaka framkvæmd vegna meints rofs á ólöglegu innsigli, kæran felld niður, afsökun beðin og innsiglun aflétt.
Kæra til NEL: lögreglumaður kærður, vanhæfi staðfest, 15 mánaða stöðugu áreiti lýkur eftir fund með Höllu Bergþóru lögreglustjóra.“
Sverrir Einar botnar langa færslu sína með orðunum:
„Það er fyrst og fremst dapurlegt að með valdníðslu, einelti, ofbeldi og upplognum ásökunum hafi tekist að blekkja fjölmiðla, starfsfélaga lögreglumannsins og fulltrúa sýslumanns, sem síðar kom í ljós að byggðu ákvarðanir sínar á upplognum, fölskum og tilhæfulausum ásökunum og kærum, sem leiddu til óhóflegrar og ólögmætrar valdbeitingar og að lokum þrots B5 með miklum missi fyrir tónlistarmenn, starfsmenn og gesti staðarins sem höfðu lagt hjarta sitt í þessa endurreisn.“