Kona að nafni Lotta Lindqvist hefur lagt fram kæru á hendur þingmanni Svíþjóðardemókrata á sænska þinginu, Rashid Farivar, fyrir innrás í einkalíf hennar. Þingmaðurinn tók mynd af Lindqvist þegar þau voru bæði að sækja börn sín sem eru nemendur í sama leikskólanum. Ástæðan fyrir myndatökunni var að þingmanninum mislíkaði mjög að Lindqvist var með svokallaðan Palestínuklút um hálsinn. Myndina birti hann á samfélagsmiðlinum X og sakaði Lindqvist um að breiða út öfgafulla pólitíska stefnu á leikskólanum.
Athygli kann að vekja að Farivar skuli vera liðsmaður þess flokks í Svíþjóð sem hefur barist harðast fyrir hertum reglum um innflytjendur. Hann er sjálfur innflytjandi í Svíþjóð og flutti þangað frá Íran fyrir um 20 árum þegar hann var komin á þrítugsaldur. Hann starfaði sem verkfræðingur áður en hann fór út í stjórnmál. Farivar hefur talað fyrir því að innflytjendalöggjöfin verði hert og að stjórnvöld beiti sér með miklu markvissari hætti fyrir aðlögun þeirra innflytjenda sem séu komnir til landsins. Farivar hefur einnig talað fyrir nauðsyn þess að berjast gegn áhrifum íslamisma í Svíþjóð, ekki farið leynt með andúð sína á klerkastjórninni í Íran og verið mótfallinn því að komið verði í veg fyrir að kóraninn sé brenndur opinberlega.
Leikskólinn umræddi er í Mölndal sem er úthverfi Gautaborgar. Þegar Farivar sá að Lindqvist var með Palestínuklút sagði hann við hana að það væri óviðeigandi að bera á sér pólitísk tákn á leikskólanum. Tók hann svo upp síma sinn og tók mynd af Lindqvist og birti hana á X. Myndatökur eru bannaðar á leikskólanum.
Fram kemur í umfjöllun um málið hjá sænska ríkissjónvarpinu, SVT, að Farivar segist hafa brugðið verulega þegar hann hafi séð slíkt tákn öfgastefnu á leikskóla barns síns.
Lotta Lindqvist, sem er félagsráðgjafi, ritstjóri veftímaritsins Parabol og hefur lengi verið virk í vinstri-hreyfingunni í Svíþjóð, segir hins vegar að Farivar hafi verið mjög ógnandi í hennar garð.
Hún segir málið snúast um öryggi sitt og einkalíf og það sama eigi við um barn hennar. Farivar hafi t.d. ekki getað vitað ef hún hefði til að mynda verið að láta lítið fyrir sér fara til að fela sig fyrir aðilum sem henni kynni að standa hætta af. Hún segir einnig að það sé hennar réttur að klæðast því sem hún vilji.
Lindqvist lagði í kjölfarið fram kæru hjá lögreglu.
Farivar segir að honum standi ógn af fólki sem klæðist Palestínuklútum. Mótmælendur sem styðji málstað Palestínu hafi bæði ógnað honum og ráðist á hann við þinghúsið í Stokkhólmi og þess vegna búi hann og fjölskylda hans ekki í borginni.
Hann segir mótmæli þessa fólks vera ofbeldisfull og mikið af því beri svona klúta. Hann hafi ekki vitað að myndatökur væru bannaðar á leikskólanum og ekki sé hægt að bera kennsl á manneskjuna á myndinni. Aðspurður segir hann að það megi alveg velta því fyrir sér hvort það sé rétt að standa í svona myndatökum og dreifa myndefninu á samfélagsmiðlum. Það sé hins vegar hans eina leið til að tjá skoðanir sínar og upplifun af svona atvikum.