fbpx
Miðvikudagur 01.október 2025
Fréttir

Karl Ágúst blandar sér í eldheita umræðuna – „918 KRÓNUR FYRIR HVERJA BLAÐSÍÐU? ER ÞAÐ EKKI ALLTOF MIKIÐ?“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 1. október 2025 20:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eru sumir rithöfundar að fá alltof mikið í starfslaun frá ríkinu miðað við afrakstur? Þessari spurningu svara Samtök skattgreiðenda jákvætt miðað við nýlega úttekt þeirra á starfslaunum rithöfunda sem hefur vakið mikla athygli. Blaðamaðurinn Stefán Einar Stefánsson fjallaði um úttektina í helgarblaði Morgunblaðsins og olli fréttin miklu fjaðrafoki.

Leikarinn og höfundurinn Karl Ágúst Úlfsson hefur nú blandað sér í umræðuna, en hann hefur stundað ritstörf í hálfa öld. Hann spyr í færslu á Facebook: „918 KRÓNUR FYRIR HVERJA BLAÐSÍÐU? ER ÞAÐ EKKI ALLTOF MIKIÐ?“

Spurning hans vísar til áðurnefndrar úttektar þar sem starfslaun 10 rithöfunda voru sett í samhengi við þær blaðsíður sem þeir hafa gefið út síðustu 25 árin. Rétt er að geta þess að rithöfundar á listanum, svo sem Auður Jónsdóttir og Andri Snær Magnússon, hafa bent á að verk þeirra og framlag til íslenskra bókmennta á tímabilinu hafi verið gróflega vantalin.

Færsla Karls Ágústs er með kaldhæðnisblæ þar sem hann veltir fyrir sér þeirri nálgun úttektarinnar að deila ritlaunum höfunda á blaðsíður.

Sjá einnig: Andri Snær svarar Stefáni Einari fullum hálsi: „Stefán Einar hefði mátt gefa sér betri tíma til að kynna sér málefnið“ 

Þúsundir misgóðra blaðsíðna á kostnað ríkisins

Karl Ágúst var 18 ára þegar hann fór fyrst að starfa sem þýðandi og hefur frá því oft verið á launum sem höfundur. Eiginleg starfslaun hefur hann aðeins fengið í þrjá mánuði en höfundalaun hefur hann að stórum hluta fengið frá ríkisfyrirtækjum, svo sem frá Ríkisútvarpinu fyrir Spaugstofuna.

„Ég skrifaði til dæmis 476 Spaugstofuhandrit. Fyrir það þáði ég laun frá Ríkisútvarpinu. Lauslega áætlað fékk ég um það bil 3.361 krónu fyrir hverja blaðsíðu. Þessi upphæð fannst mér auðvitað töluverð þegar ég sá hana í reiknivélinni, en mundi þá að ég gat ekki stungið öllum þessum þúsundköllum í vasann, því ég var víst skattgreiðandi eins og aðrir.“

Með frádregnum sköttum hafi hann gróflega áætlað fengið um 2.084 krónur á blaðsíðu. Það sé ágætt. Hann veltir þó fyrir sér hvort það sé sanngjarnt enda blaðsíðurnar misgóðar. Mögulega hafi þeim sem hann gerði grín að í Spaugstofunni verið misboðið að vita hvað hann fékk borgað fyrir blaðsíðurnar sem fjölluðu um það.

Eins skrifaði hann fimm áramótaskaup, tvær tíu þátta seríur og þrjú sjónvarpsleikrit sem hann fékk með einum eða öðrum hætti opinbert fé fyrir. Þegar það er tekið í reikninginn var kostnaður ríkisins á hverja blaðsíðu kominn í 1.723.

Þá mundi hann eftir fleiri blaðsíðum: 47 leikritum, 8 bækur og þýðingum á 91 verki. Flest af þessu var unnið fyrir stofnanir og leikhús sem eru rekin með almannafé. Blaðsíðufjöldinn var þá kominn í 15.460. En þetta var ekki allt.

„Mér létti þó stórlega þegar ég áttaði mig á að auk þessa hafði ég skrifað góðan slatta af verkum sem aldrei h öfðu gefið mér krónu – mörg þeirra meira að segja komið út í mínus, því ég hafði þurft að greiða fyrir vinnuaðstöðu, ritstjórn, ráðgjöf, ferðir yfir sögusvið og sitthvað fleira, en aldrei tekist að selja eða rukka fyrir þessi tilteknu verk. Í heildina eru þetta 4 ógerðar sjónvarpsseríur, 4 óútgefnar bækur, 5 óskotin kvikmyndahandrit og góður slatti af ljóðum og smásögum sem ég hef ekki tölu á.“

Þegar allt hafði verið tekið saman var meðaltalið á blaðsíðu 918 krónur.

Tillaga Karls Ágústs í framhaldi úttektarinnar

Karl Ágúst segir að það hafi verið tími kominn til að afhjúpa greiðslur til rithöfunda, eðlilegar og óeðlilegar, fyrir hverja blaðsíðu. Leggur hann til að myndaður verði matshópur til að meta virði hverrar blaðsíðu til peninga og greiða fyrir eftir gæðum.

„Það var sannarlega tími til kominn að opinbera eðlilegar og óeðlilegar greiðslur til rithöfunda fyrir hverja blaðsíðu sem frá þeim kemur. Í beinu framhaldi er full ástæða til að matshópur verði myndaður sem meti virði hverrar síðu fyrir sig og geri athugasemdir við stakar síður ef þær reynast mun minna virði en höfundurinn fær í vasann. Rétt væri síðan að greiða eftirá fyrir hverja blaðsíðu eftir gæðum. Það sama ætti í raun að gilda um aðrar listgreinar. Hvað er eðlilegt að myndlistarfólk fái fyrir hvern pensildrátt? Skiptir það ekki máli peningalega hvort málningin er þykk eða þunn? Ættu tónskáld ekki að fá sitthvora upphæðina fyrir dúr-hljóm og moll-hljóm? Á ekki valstaktur að kosta eitthvað allt annað en tangó? Og er ekki alveg fráleitt að danshöfundar fái það sama fyrir grunnar og djúpar hnébeygjur?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ömurleg upplifun í Helgafellslandi – Þjófar létu greipar sópa hjá fólki sem var að flytja inn

Ömurleg upplifun í Helgafellslandi – Þjófar létu greipar sópa hjá fólki sem var að flytja inn
Fréttir
Í gær

Dularfulli fundur varnarmálaráðherra er hafinn – Enga feita hershöfðingja, ekkert skegg og ekkert sítt hár

Dularfulli fundur varnarmálaráðherra er hafinn – Enga feita hershöfðingja, ekkert skegg og ekkert sítt hár
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Icelandair sakað um að nýta sér fall Play til að hækka verðið

Icelandair sakað um að nýta sér fall Play til að hækka verðið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjórir lífeyrissjóðir tapa 3 milljörðum króna á falli Play – „Stjórnir sjóðanna, þurfa þær ekkert að svara fyrir svona glórulausar fjárfestingar?“

Fjórir lífeyrissjóðir tapa 3 milljörðum króna á falli Play – „Stjórnir sjóðanna, þurfa þær ekkert að svara fyrir svona glórulausar fjárfestingar?“