Íslenskur karlmaður á fertugsaldri var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa í tvígang ráðist á sama manninn í tveimur mismunandi hesthúsum og nefbrotið hann.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Suðurlands á fimmtudag, 25. september. Gerandinn óskaði ekki eftir verjanda í málinu og viðurkenndi brot sín skýlaust.
Hafði hann í tvígang ráðist á mann að kvöldi fimmtudagsins 13. maí árið 2023. Fyrst veittist hann að manninum innandyra í hesthúsi, sló hann ítrekuðum hnefahöggum í andlit og tók hann kverkataki.
Í beinu framhaldi af því veittist hann aftur að sama manni en í öðru nærliggjandi hesthúsi, með ítrekuðum hnefahöggum í andlit og kverkataki.
Nefbrotnaði þolandinn í málinu með skekkju til hægri, bólgu og mar yfir vinstra kinnbeini. Þá fékk hann glóðarauga á vinstra auga og eymsli í vöðva við háls.
Dómari taldi ekki ástæðu til að draga játningu mannsins í efa og var málið því dæmt án sönnunarfærslu. Litið var til bæði játningarinnar og að maðurinn hefði ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot og refsing talin hæfileg 60 daga skilorðsbundin fangelsisrefsing.
Þolandinn gerði kröfu um rúmlega 1,5 milljónir króna í miskabætur og rúmlega 200 þúsund króna bætur fyrir brotin gleraugu. Þá gerði hann einnig kröfu um lögmannsþóknun.
Var gerandanum gert að greiða fyrir gleraugun og lögmannsþóknun upp á tæpar 570 þúsund krónur en aðeins 500 þúsund krónur í miskabætur.