Rithöfundurinn og fjölmiðlakonan Auður Jónsdóttir spyr, í ljósi neikvæðrar umræðu um listamannalaun, hvort það sé vilji Íslendinga að íslenskar bækur séu aðeins skrifaðar af efnuðu fólki. Eins þykir henni skjóta skökku við að aðför sé gerð að íslenskri bókaútgáfu á sama tíma og landamenn lýsa yfir áhyggjum af stöðu íslenskunnar og framtíð hennar.
Þetta kemur fram í langri færslu sem Auður ritar á Facebook en tilefnið er frétt sem birtist í Morgunblaðinu um helgina um rithöfunda sem voru sagðir í áskrift að ritlaunum. Frétt Morgunblaðsins rakti hversu mikið tíu hæstu þiggjendur ritlauna listamanna hafa fengið til sín síðustu 25 árin og hver afrakstur þessarra rithöfunda hefur verið.
Auður bendir í færslu sinni á að sumar bækur taki lengri tíma að rita en aðrar. Sumar bækur þurfi aðeins fáeina mánuði en aðrar þurfa jafnvel áratug. Hún gagnrýnir framsetningu blaðamanns Morgunblaðsins, Stefáns Einars Stefánssona, á upplýsingum um ritlaun.
„Nú er ég ekki að ásaka Stefán Einar um bágan ásetning en hins vegar hefði, að mínu mati, verið fagmannlegra að birta þessar tilteknu upplýsingar í örlítið víðfeðmara samhengi – en svo má líka horfa á þessa fréttaskýringu sem kveikju að frekari umræðu.
Að því sögðu er ég ekki að setja út á að það sé gerður sér listi yfir okkur sem höfum fengið mest starfslaun í gegnum tíðina. Það er sjálfsagt að útlist ahvernig opinberu fé er útdeilt og þar sem mörg hundruð manns sækja um starfslaun á ári hverju þá er um að gera að ræða hvernig því skal hagað og hvort eitthvað óréttmætt geti falist í hvernig þeim er útdeilt.“
Á sama tíma blasi við í athugasemdaþræði Stefáns Einars á Facebook að fréttinni hafi tekist að ýfa upp andúð gegn starfslaunakerfinu. Því veltir Auður fyrir sér á hvaða forsendum Stefán ritaði fréttina og hvort ásetningur hafi falist í framsetningu hennar.
Auður víkur svo tali sínu að íslenskunni sem sumir óttist að geti orðið útdauð eftir nokkra áratugi í ljósi núverandi áskoranna.
„Tungumál sem er ekki skrifað er í hættu á að deyja út. Það er daglegt brauð að tungumál deyi út. Einmittt þess vegan er mótsagnakennt að heyra þegar fólk óttast í senn um íslenska menningu vegna erlendra áhrifa eða fólksflutninga en er á sama tíma á móti starfslaunum rithöfunda. Þessari viðleitni samfélagsins að fólk vinni stöðugt með tungumálið, miðli þróun þess og beri á borð bækur á íslensku, meðal annars um veruleika okkar hér út frá blæbrigðum móðurmáls okkar.“
Það sé einmitt út af smæð Íslands sem Íslendingar sem samfélag styrkja bókmenntir og fjölmiðla á íslensku.
Bókaútgáfa glími í dag við erfiðar áskoranir sökum breyttra neysluvenja, áskriftaveita og minni bókasölu. Svarið við þessum áskorunum sé ekki að smætta rithöfunda fyrir að fá um 350.000 krónur eftir skatt, minna eftir lífeyrissjóðsgreiðslur, allt árið eða hluta úr ári.
Auður tekur fram að það sé eflaust hægt að taka umræðu um listamannalaunin út frá sem flestum sjónarhornum. Þá sé meðal ananrs hægt að hafa í huga að í kringum bók getur verið mikil atvinnusköpun, svo sem fyrir þýðendur, sjónvarps- og kvikmyndagerðafólk, bókasöfn, myndskreytendur, hönnuði, prófarkalesara og áfram mætti telja. Auður segir að hennar skilningur sé sá að hver króna sem fer í ritlaunin skili sér þrefalt til baka.