„Rússum má aldrei takast að hræða okkur frá því að standa með Úkraínu,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein á Vísi í dag.
Hún fer þar yfir ógnir sem Evrópulönd standa frammi fyrir vegna framferðis Rússa og vaxandi ögrana frá þeim:
„Undanfarnar vikur höfum við orðið vitni að alvarlegum og vaxandi árásum á mikilvæga innviði í Evrópu. Í Kaupmannahöfn þurfti að loka alþjóðaflugvellinum vegna drónaflugs, forsætisráðherra Danmerkur kallaði það alvarlegustu árás á danska innviði til þessa. Í Eistlandi brutust rússneskar orrustuþotur inn í lofthelgina og neituðu að hlýða fyrirmælum. Í Póllandi voru rússneskir drónar skotnir niður í lofthelgi landsins, forsætisráðherrann sagði að staðan hefði aldrei verið jafn alvarleg frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, Kaja Kallas, sagði að allt benti til þess að um viljaverk hefði verið að ræða – að markmið Pútíns væri að storka og að hann kæmi til með að ganga sífellt lengra vegna þess að viðbrögðin hingað til hefðu ekki verið nægilega sterk.“
Bryndís kallar drónaárásir, lofthelgisrof, tölvuárásir og upplýsingaróreiða fjölþáttaógnir. Markmiðið með þeim sé ekki aðeins að skaða innviði heldur skapa vantraust og sundrungu. Mikilvægt sé að það takist ekki. Brýnt sé að samstaðan rofni ekki.
Bryndís segir aðild okkar að NATO og varnarsamningur við Bandaríkin séu mikilvægar öryggisstoðir sem þurfi að rækta. Íslendingar verði að sýna samstöðu með öðrum NATO-ríkjum.
„Það er einmitt á tímum sem þessum sem við verðum að sýna festu, standa með bandamönnum okkar og standa vörð um grundvallargildi okkar,“ segir Bryndís, en pistil hennar má lesa hér.