Tæplega áttatíu manns veiktust eftir að hafa bragðað á skemmdri rófustöppu á þorrablóti í Brúarási í Jökulsárhlíð á Austurlandi í febrúar. Eins og kemur fram í lokaskýrslu sóttvarnarlæknis var stappan bragðvond og slæm lykt af henni.
Þann 17. Febrúar var greint frá því að hópsmit hefði komið upp eftir þorrablótið á Brúarási þann 15. sama mánaðar. En á meðal gesta var Guðrún Hafsteinsdóttir, verðandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Voru allir þeir sem höfðu fundið fyrir meltingarfæraeinkennum beðnir að hafa samband við heilbrigðisyfirvöld og voru sýni tekin af þeim matvælum sem á borðum stóðu í blótinu.
Nú hefur sóttvarnarlæknir birt lokaskýrslu um hópsmitið á þorrablótinu. Kemur í ljós að rófustappan var orsakavaldurinn að sýkingunni.
Kemur fram að sumir þorrablótsgesta hafi sagt að rófustappan hefði verið bragðvond og af henni hefði verið vond lykt.
Þorrablótsnefndin sagði að ítrasta hreinlætis hefði verið gætt, passað upp á kælingu matvælanna og skipt hafi verið um áhöld í hvert skipti sem bætt var á hlaðborðið. Matvæli sem hafi verið tekin inn í eldhús hafi ekki farið fram aftur.
Téð rófustappa var gerð úr 30 kílóum af ferskum rófum, með viðbættu salti, sykri, múskati, mjólkur og kartöflumjöli. Var hún eldurð daginn fyrir þorrablótið og kæld í fjórum svokölluðum gastro-bökkum. Svo var hún hituð upp í gufuofni rétt fyrir blótið, smökkuð og geymd í hitakassa.
Tekin voru sýni, bæði úr matvælunum sem boðið var upp á og saursýni úr fimm einstaklingum sem veiktust í blótinu. Fannst garnameinavaldandi ecoli sýking af gerðinni Clostridium perfringens í rófustöppunni og telst hún vera orsakavaldur hópsmitsins.
Ekkert hafi hins vegar komið fram í samtölum Heilbrigðisstofnunar Austurlands við starfsfólk þorrablótsins sem meðhöndlaði matvæli sem skýrir nákvæmlega hvað fór úrskeiðis.
„Clostridium perfringens myndar dvalargró sem þola hefðbundna eldun. Ef kæling er ekki nægilega hröð geta dvalargróin umbreyst í bakteríur og farið að fjölga sér. Því er mjög mikilvægt að kæling sé hröð, hitastigið þarf að fara niður í 4°C á tveimur tímum. Þegar matvæli skulu hituð þarf hitastigið að fara yfir 75°C til að drepa þær örverur sem mögulega hafa fjölgað sér við kælingu og á geymslutímanum. Ef matnum skal haldið heitum þarf að halda honum yfir 60°C til að sjúkdómsvaldandi bakteríur nái ekki að fjölga sér. Með réttri meðhöndlun matvæla má koma í veg fyrir matarborna sjúkdóma,“ segir í skýrslunni.
Kemur fram að 77 manns hafi veikst af rófustöppusýkingunni og að einkennin hafi komið fram á bilinu 6,5 til 16 klukkutímum eftir að hún var borðuð.
Lýstu veikindin sér fyrst og fremst sem niðurgangi sem gekk í flestum tilvikum yfir á innan við sólarhring. Sumir lýstu einnig kviðverkjum en fáir ógleði, uppköstum og hita. Hafði marga gestina grunað að rófustappan væri sökudólgurinn.