Í frétt á vef BÍ kemur fram að tilgangur Norræna blaðamannasambandsins er að vera samstarfsvettvangur blaðamanna á Norðurlöndunum, að skipuleggja sameiginlegar aðgerðir í þágu fjölmiðlafrelsis og blaðamanna á Norðurlöndunum, að styðja við aðgerðir sem einhver landssamtakanna telur nauðsynlegar, skipuleggja vinnuhópa til að fjalla um málefni tengd faginu og viðburði til að fjalla um sameiginleg hagsmunamál blaðamanna. Meðlimir eru danska, finnska, færeyska, íslenska, norska og sænska blaðamannafélagið. Blaðamannafélög á Balkanskaganum fá einnig áheyrn í forsætisnefnd sambandsins.
„NJF er ómetanlegur samstarfsvettvangur sem gerir fulltrúum Norrænu félaganna kleift að miðla reynslu, þekkingu og tengslaneti auk þess að styðja við bakið hvert á öðru á jafningjagrundvelli enda erum við að glíma við margar sömu áskoranir í breyttu fjölmiðlaumhverfi,” segir Sigríður Dögg um formennskuna. Helsta markmið formennsku Íslands er að nýta sameiginlegan slagkraft blaðamanna á Norðurlöndum til að standa vörð um fjölmiðlafrelsi og efla blaðamennsku á tímum mikilla sviptinga á fjölmiðlamarkaði og skautunar í lýðræðislegrar umræðu sem hraðfara tæknibreytingar ýta undir,” heldur hún áfram.
Á fundi forsætisnefndarinnar í Osló var meðal annars rætt um öfluga fréttamiðla sem einn af lykilþáttum í öryggis- og varnarmálum ríkja, sameiginlegar ógnir sem steðja að fjölmiðlafrelsi og aðgerðir stjórnvalda á Norðurlöndunum í þágu fréttamiðla og blaðamennsku.