Ríkisendurskoðandi hefur verið tilkynntur til lögreglu fyrir að árita ársreikninga ríkisfyrirtækja án þess að vera löggiltur endurskoðandi. Frá þessu greinir RÚV og tekur fram að heimild ríkisendurskoðanda til slíkrar áritunar sé umdeild þó að ríkisendurskoðandi sjálfur, Guðmundur Björgvin Helgason, telji hana óvéfengjanlega. Endurskoðendaráð, sem sinnir gæðaeftirliti með störfum endurskoðenda, vísaði málinu til lögreglu og Félag löggiltra endurskoðenda vísaði málinu til atvinnuvegaráðuneytis og til eftirlitsstofnunar EFTA-dómstólsins.
Á árum áður var gerð krafa að lögum að ríkisendurskoðandi væri löggiltur endurskoðandi en skilyrðið var fellt út með nýjum lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga árið 2016. Samkvæmt upphaflegu frumvarpi stóð til að halda skilyrðinu inni en frumvarpið tók breytingum í meðför stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Í nefndaráliti sagði um skilyrðið:
„Á fundum nefndarinnar og í umsögnum um málið komu fram sjónarmið þess efnis að viðfangsefni embættisins væru víðtækari en svo að þau tækju einvörðungu til endurskoðunar ríkisreikninga þótt slík endurskoðun væri vissulega höfuðverkefni og þungamiðja starfseminnar. Á það bæri þó að líta að gagnrýnin sýn á stjórnsýslu og stjórnun væri einnig mjög mikilvæg og væri yfirgripsmikil þekking og reynsla á öllum þessum þáttum mikilvægari og vægi þyngra en tiltekin sérþekking. Horfa þyrfti heildstætt til þeirra verkþátta sem ríkisendurskoðandi hefði umsjón með og verkstýrði og hlyti í því mati að vera horft til þekkingar og reynslu á sviði fjármála og opinberrar stjórnsýslu. Þessi nálgun er í góðu samræmi við það sem tíðkast hjá systurstofnunum Ríkisendurskoðunar annars staðar á Norðurlöndum en þar er ekki gerð krafa um að ríkisendurskoðandi hafi löggildingu.“
Tekið var fram að þessi sjónarmið hefðu fengið hljómgrunn hjá nefndinni og niðurstaðan því sú að ekki var talin þörf á að lögfesta kröfu um að ríkisendurskoðandi hefði löggildingu sem endurskoðandi þó að það væri ekki útilokað. Eftir sem áður þyrftu starfsmenn sem vinna við endurskoðun hjá stofnuninni að hafa slíka löggildingu. Nefndin lagði áherslu á að ríkisendurskoðandi þyrfti að hafa þekkingu á reikningsskilum og ríkisrekstri auk stjórnsýslureynslu.
Þverpólitísk sátt virðist hafa verið um nefndarálitið en undir það skrifuðu Ögmundur Jónasson (VG), Birgir Ármannsson (S), Birgitta Jónsdóttir (P), Brynjar Níelsson (S), Elsa Lára Arnardóttir (F), Helgi Hjörvar (Sf), Willum Þór Þórsson (F).
Birgir Ármannsson var framsögumaður nefndarálitsins og í 2. umræðu frumvarpsins tók hann fram að hugsunin með að fella út kröfuna um að ríkisendurskoðandi væri með löggildingu sem endurskoðandi hafi einmitt verið sú að víkka út hæfisskilyrðin og að nýja kröfu um þekkingu á reikningsskilum bæri að túlka vítt.
Fram kom í umræðum að þingmenn væru almennt lukkulegir með breytinguna þar sem krafa um löggildingu takmarkaði óhóflega mannaval.
Guðmundur Björgvin er annar ríkisendurskoðandinn sem gegnir embættinu án þess að vera löggiltur endurskoðandi, en hann er sá fyrsti sem áritar ársreikninga ríkisfyrirtækja án þess að löggiltur endurskoðandi embættisins áriti með honum. Endurskoðendaráð svipti þrjá starfsmenn embættisins starfsleyfi tímabundið á síðasta ári eftir að þeir árituðu ársreikninga þriggja ríkisfyrirtækja en neituðu að afhenda endurskoðendaráði gögn. Eftir þetta hefur Guðmundur Björgin áritað ársreikningana einn. Hann segir í samtali við RÚV að hann hafi gert það þar sem hann eigi að bera fulla ábyrgð á árituninni og vill ekki setja starfsfólk sitt í skotlínu endurskoðendaráðs.
Samkvæmt 21. gr. laga um ríkisendurskoðun og endurskoðun ríkisreikninga gilda lög um endurskoðun ekki um ríkisendurskoðanda, en taka þó til starfsmanna embættisins sem annast endurskoðun ársreikninga. Í frumvarpinu er tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir að ríkisendurskoðandi sinni sjálfur endurskoðun af því tagi sem greinin taki til.
Guðmundur Björgvin var skipaður í embætti árið 2022 til sex ára. Hann var áður sviðsstjóri hjá embættinu og forstöðumaður skrifstofu þess á Akureyri. Þar áður var hann ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneyti og mannauðsstjóri hjá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Jórdaníu. Tólf sóttu um embættið, þar af sex löggiltir endurskoðendur og einn doktor í reikningsskilum. Guðmundur Björgin er með BA-próf í alþjóðasamskiptum og masterspróf í stjórnmálafræði.