Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá því fyrr á þessu ári um að grípa ekki til aðgerða vegna stroks 3.500 eldislaxa úr sjókví í Patreksfirði í ágúst 2023. Segir nefndin að málsmeðferðin hafi tekið of langan tíma, stofnunin hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni og að stofnunin hafi átt að taka afstöðu til þess hvort umhverfistjón hefði orðið.
Það voru samtökin Náttúrugrið sem kærðu ákvörðunina. Málavextir voru þeir að í ágúst 2023 struku 3.500 eldislaxar úr sjókví Arctic Sea Farm ehf. í Patreksfirði. Hinn 20. þess mánaðar tilkynnti fyrirtækið til Matvælastofnunar að tvö göt hefðu fundist í nót kvíarinnar á 2,5 metra dýpi. Var þess krafist að slátrun hæfist samstundis á fiski úr kvínni. Á sama tíma tilkynnti félagið um atvikið til Umhverfisstofnunar( sem var síðar sameinuð Orkustofnun og tók sameinuð stofnun til starfa í upphafi árs 2025) og upplýsti um aðgerðir til að meta umfang stroksins og aðgerðir til að veiða strokinn fisk.
Náttúrugrið kröfðust þess í september 2023 að Umhverfisstofnun gripi til aðgerða vegna málsins í samræmi við lög um umhverfisábyrgð og að fyrirtækið yrði látið sæta ábyrgð. Stofnunin svaraði erindinu í nóvember og vísaði til þess að Matvælastofnun hefði það hlutverk að rannsaka málið og Fiskistofa ætti að sjá um að ná strokulöxunum úr sjó og ám. Slíkar aðgerðir stæðu yfir og vildi Umhverfisstofnun bíða með frekari aðgerðir til að þær sköruðust ekki við aðgerðir Fiskistofu.
Krafa samtakanna um að Umhverfisstofnun gripi til aðgerða var ítrekuð í janúar 2024. Aðgerðum Fiskistofu og rannsókn lögreglu væri lokið og því væri ekkert að vanbúnaði.
Þessu erindi var svarað hálfu ári síðar, í júní 2024, og þá vísað til þess að stofnunin hefði verið í samskiptum við Fiskistofu sem væri að meta stöðuna og myndi hugsanlega grípa til frekari aðgerða ef eldislaxar fyndust í ám.
Í febrúar 2025 tilkynnti Fiskistofa Umhverfis- og orkustofnun, sem þá var tekin til starfa, að ekki yrði gripið til frekari aðgerða. Í mars 2025 var í bréfi stofnunarinnar til Náttúrugriða rifjaðar upp aðgerðir Fiskistofu og kom fram að stofnanirnar tvær teldu ekki raunhæft að grípa til aðgerða til að fjarlægja möguleg afkvæmi eldisfiska í veiðivötnum eftir hrygningu. Væri það mat stofnunarinnar að engin fyrirmæli samkvæmt lögum um umhverfisábyrgð hafi verið vanrækt þannig að refsiábyrgð samkvæmt lögunum kæmi til álita. Í ljósi þess að ekki væri álitið raunhæft að hægt væri að ráðast í úrbætur á því tjóni sem mögulega varð við sleppinguna í Patreksfirði myndi stofnunin ekki beita þeim heimildum sem hún hefði samkvæmt lögunum.
Þessa ákvörðun kærðu Náttúrugrið og vísuðu meðal annars til þess að um væri að ræða umhverfisbrot sem tengist skuldbindingum laga um stjórn vatnamála eins og fjallað væri um það í lögum um umhverfisábyrgð og ekki yrði séð að Umhverfis- og orkustofnun hafi gert nokkuð í því að rannsaka hvort svo væri. Með því væri vísað til tjóns sem hafi veruleg skaðleg áhrif á vistfræðilegt ástand og vistmegin vatns. Væri ekki nokkur vafi á því að erfðablöndun norsks eldislaxs við villta íslenska laxastofna hefði slík áhrif. Þá hafi Umhverfis- og orkustofnun brotið gegn málshraða- og rannsóknarreglum stjórnsýslulaga og skort hafi á rökstuðning.
Stofnunin hafnaði því að hafa ekki sinnt rannsókn málsins sem skyldi. Ráðgjafar hafi verið leitað hjá Fiskistofu um hvað væri hægt að gera til að draga úr tjóni vegna stroksins og tafir á málsmeðferð mætti skýra með því að málið hefði verið hjá Fiskistofu og að annir hafi verið vegna sameiningar Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar. Eftir samráð við Fiskistofu hafi niðurstaðan verið sú að ekki væri tilefni til aðgerða og að ekki væri raunhæft að ráðast í úrbætur á því tjóni sem mögulega hafi orðið.
Arctic Seafarm sem átti sjókvína sem laxarnir struku úr vildi meina að vísa málið hefði verið rannsakað ítarlega af stjórnvöldum. Fyrirtækið hefði sinnt öllum skyldum sínum í málinu og beiting úrræða á grundvelli laga um umhverfisábyrgð væri þýðingarlaus enda tvö ár frá atvikinu. Málsmeðferð hefði heldur ekki dregist úr hófi fram.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir meðal annars í sinni niðurstöðu að í lögum um umhverfisábyrgð sé kveðið á um að Umhverfis- og orkustofnun meti hvort orðið eða yfirvofandi tjón sé umhverfistjón eða yfirvofandi hætta sé á umhverfistjóni í skilningi laganna og hver beri ábyrgð á slíku tjóni eða hættu á tjóni. Mælt sé fyrir um heimild stofnunarinnar til þess að leita umsagna tiltekinna sérhæfðra stofnana ríkisins, eða annarra sérfróðra aðila, við slíkt tilefni, þar með talið Hafrannsóknastofnunar og Náttúrufræðistofnunar. Í málinu liggi ekki fyrir að stofnunin hafi tekið slíka afstöðu eða leitað ráðuneytis á þeim grundvelli. Hafi auk þess engin rökstudd afstaða þar að lútandi verið tilkynnt til hlutaðeigandi rekstraraðila, þ.e. Arctic Sea Farm, sem hefði verið forsenda ráðstafana.
Nefndin segir að í bréfi Umhverfis- og orkustofnunar til Náttúrugriða frá í mars 2025 komi einungis fram að umrætt strok á eldislaxi geti fallið undir það að vera umhverfistjón á vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum. Svo sem rakið sé í bréfinu hafi stofnunin ákveðið að „setja málið á bið þar til það hefði verið afgreitt af Fiskistofu“. Bréfið hafi verið sent löngu eftir að atvikið átti sér stað og tekið eðlilega mið af þeim upplýsingum sem þá lágu fyrir.
Minnir nefndin á að að samkvæmt lögum um umhverfisábyrgð eigi Umhverfis- og orkustofnun að taka skýra afstöðu til þess hvort atvik sem kært sé til hennar feli í sér umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á því. Það hafi aldrei verið gert.
Er það niðurstaða nefndarinnar að með bréfi Umhverfisstofnunar frá í september 2023 til Náttúrugriða þar sem tilkynnt var um frestun málsins sem og þeim langa tíma sem leið án athafna, þar til stofnunin lauk málinu í mars 2025, hafi ekki verið gætt að reglum stjórnsýslulaga um málshraða og skyldu til rannsóknar máls. Hefði stofnunin átt að taka tímanlega afstöðu til þess að hvort um umhverfistjón væri að ræða.
Í ljósi þeirra annmarka sem voru á ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar um að aðhafast ekkert vegna stroks eldislaxanna fyrir tveimur árum telur nefndin því rétt að fella hana úr gildi.