Kim Jong-un, einræðisherra Norður Kóreu, opnaði sig um mannfall hermanna sinna í Úkraínu við opinbera athöfn í Pyongyang, höfuðborg landsins, í gær.
Sagði Jong-un að hann væri miður sín vegna hinna föllnu hermanna og hyllti þá sem hetjur.
„Hjarta mitt brestur og það er sárt að geta aðeins hitt þessar göfugu hetjur, sem gáfu líf sitt fyrir stórkostlegan sigur og sæmd, í gegnum myndir á minningarveggjum,“ sagði einræðisherrann í ræðu sinni samkvæmt ríkisrekna fjölmiðlinum KCNA.
Orðin lét Jong-un falla við athöfn þar sem hann hitti hermenn sem barist hafa við hlið Rússa í Úkraínu. Þar heiðraði hann og hyllti hermennina og afhenti þeim orður og viðurkenningar.
Það sama gerði hann við fallna hermenn á sérstökum minningarvegg þar sem sjá mátti myndir af föllnum norður-kóreskum hermönnum og nöfn þeirra skráð gullnu letri undir myndunum.
Þá mátti sjá Jong-un faðma börn sem tengdust hinum föllnu hermönnum fjölskylduböndum.
Það hefur vakið nokkra athygli að einræðisherrann alræmdi tjái sig með þessum hætti um mannfallið á vígstöðvunum.
Þrátt fyrir að alþjóðasamfélagið hafi vitað allt um þá hjálparhönd sem Norður-Kórea rétti Rússum, í formi hergagna og hermanna, þá neituðu yfirvöld í löndunum lengi vel að staðfesta það sem allir vissu.
Það gerðu þó löndin að lokum og nú hefur Kim Jong-un gengið skrefinu lengra í þeim efnum, mörgum til furðu.