Eins og greint var frá í vor sótti Fjölskylduhjálpin ekki um styrk til ríkisins á síðasta ári og virðast mistök hafa orðið til þess. Taldi Ásgerður sig hafa sótt um styrkinn í samtölum við Ingu Sæland velferðarráðherra en svo var ekki.
Í samtali við Morgunblaðið bendir Ásgerður Jóna á að endurnýja þurfi tæki, meðal annars vegna krafna Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, og aðeins sé um tvennt að velja. Annað hvort steypa sér í skuldir eða loka. Matarbanka Fjölskylduhjálparinnar var lokað í júlí og til stendur að losa húsnæði Fjölskylduhjálparinnar í Iðufelli þann 1. október næstkomandi.
Ásgerður segir við blaðið að neyðin sé enn mikil á Íslandi.
Ásgerður segir að Fjölskylduhjálpin hafi tekið á móti 1.900 vörubrettum af mat á síðasta ári og afhent 800 fjölskyldum matargjafir í hverri viku.
„Það rignir yfir mig tölvupóstum frá fólki sem sér fram á að eiga ekki fyrir mat, eftir að við hættum með matargjafirnar. Það er eins og ráðamönnum sé sama um afleiðingarnar og maturinn endar í urðun hjá Sorpu.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.