Fréttin hefur verið uppfærð
Fjölskylda féll í sjóinn við Reynisfjöru við Vík í Mýrdal í dag. Var þar um að ræða föður og tvær dætur hans. Barnung stúlka varð eftir í sjónum. Mbl.is greinir frá þessu.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð á vettvang vegna atviksins. Lagði hún af stað laust eftir kl. 15 í dag. Upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar staðfestir við mbl.is að manneskja hafi fallið í sjóinn en tjáir sig ekki nánar um það.
Björgunarsveitir voru einnig kallaðar til vegna málsins.
Lögreglan á Suðurlandi hefur birt tilkynningu um málið:
„Laust fyrir kl 15 í dag var tilkynnt um að manneskja hefði farið í sjóinn við Reynisfjöru. Björgunarsveitir, lögregla og þyrla Landhelgisgæslunnar eru við leitarstörf á vettvangi.“
Lögreglan á Suðurlandi hefur uppfært tilkynningu sína. Kemur fram að barnið er fundið og er verið að flytja það á sjúkrahús í Reykjavík. Ekki er vitað um ástand þess.
Einnig kemur fram að um sé að ræða barnunga stúlku sem var á ferð með fjölskyldu sinni, en þau eru erlendir ferðamenn.