Sveinn Gauti Einarsson umhverfisverkfræðingur gagnrýnir Morgunblaðið fyrir fréttaflutning af veðri á meðan tónleikum Kaleo stóð í Vaglaskógi. Segir hann falsfréttir sem þessar draga úr trausti almennings á veðurfréttum.
„Rangar veðurfréttir eru líka falsfréttir,“ segir Sveinn Gauti í pistli á vefsíðu sinni, Bliku, í gær. Vísar hann þar til fréttar Morgunblaðsins af tónleikum Kaleo í Vaglaskógi síðasta laugardag, 26. júlí.
Í fréttinni segir meðal annars:
„Það vakti furðu margra að veðurspá síðustu helgar í Vaglaskógi boðaði sjö gráðu hita og rigningu alla helgina en þegar á staðinn var komið reyndist hitinn nær tuttugu gráðum og heiðskýr himinn og sól nær allan tímann.“
Var svo vísað í svokallaðan „veðurbreyti“ sem tónleikahaldarinn Jakob Frímann Magnússon hafi átt hugmyndina að fyrir margt löngu síðan. Sagt er að tækið sé loftþrýstibreytir sem geti fært gastegundir og ský með tíðnisviðum.
„Fjallað er um að veðurspár hafi verið rangar og að mál manna væri að mikil blíða hefði verið í Vaglaskógi á meðan stórtónleikum Kaleo stóð. Fjallað var um spár fyrir tónleikana síðastliðinn föstudag á Facebook síðu Bliku. Bæði spá Veðurstofu fyrir Valgeirsstaði og spá Bliku fyrir Vaglaskóg gerðu ráð fyrir hita í kringum 8 gráður með smá skúrum og hægum vindi á meðan kvöldtónleikunum stóð,“ segir Sveinn Gauti. „Rétt er að mikill munur er á spám og lýsingu blaðamanns Morgunblaðsins á veðrinu í skóginum. Skoðum næst veðurathuganir fyrir daginn. Hiti er ekki mældur í Vaglaskógi, en Végeirsstaðir í Fnjóskadal eru í nágrenninu. Veðurathuganirnar segja aðeins aðra sögu en Morgunblaðið. Á Végeirsstöðum varð hæsti hiti dagsins rúmar 15 gráður og vindur var hægur. Á meðan tónleikunum stóð var hitinn 9 – 11 gráður. Vissulega aðeins hlýrra en spáð var, en víðsfjarri 20 gráðum.“
Sýnir hann einnig gervitunglamynd af landinu klukkan 20:14 þennan dag og sést glögglega að þungskýjað var í Vaglaskógi.
„Útsendari Bliku var á svæðinu og staðfesti að spáin hefði staðist nokkuð vel. Smá skúrir en hitinn eitthvað aðeins hærri en spáð hafði verið,“ segir Sveinn Gauti.
Þá segir hann að um fullyrðingar blaðsins um veðurbreyti þurfi varla að hafa mörg orð. Til að breyta veðrinu þurfi gríðarlega mikla orku og engar líkur á að téð græja hafi nein áhrif. Þetta sé í besta falli skemmtileg hjátrú.
Einnig gagnrýnir Sveinn Gauti frétt RÚV af veðrinu fyrir norðan. Það er frétt með fyrirsögnina: Hoppað í sjóinn í sumarblíðunni norðanlands. Í henni var hitinn sagður vera yfir 20 gráður.
„Hiti hefur lengi verið mældur á Akureyri. Hvað ætli mælingarnar segi? Lengst af var hitinn á Akureyri um 14 – 15 gráður en náði 17,3 stigum klukkan 14. Vissulega góður dagur og tilvalið að sitja úti í sólinni. En 17,3 gráður eru langt frá því að vera yfir 20 gráðum. Fréttin er beinlínis röng. Blaðamaður talaði þó við veðurfræðing sem væntanlega hefði ekki samþykkt þessa fullyrðingu um 20 gráðurnar,“ segir Sveinn Gauti.
„Það verður algengara og algengara að fjölmiðlar fjalli um veður með óábyrgum hætti. Frétt Morgunblaðsins eru klár ósannindi og frétt RÚV litlu skárri,“ segir hann að lokum. „Fréttir sem þessar draga að ósekju úr trausti almennings á veðurspám og veðurfræðingum. Það er mikil barátta að leiðrétta þann misskilning að ekkert sé að marka veðurspár á Íslandi. Mælingar sýna svart á hvítu að spár er almennt nokkuð góðar og hafa batnað verulega á síðustu árum. Þar fyrir utan eigum við að geta treyst á að Íslenskir fjölmiðlar segi satt og rétt frá. Margir fjölmiðlar eru komnir á hálan ís. Falsfréttir um veður eru nefnilega ekkert skárri en falsfréttir um annað efni.“
ATH:
Upphaflega var sagt að Einar Sveinbjörnsson hafi skrifað pistilinn. Hið rétta er að Sveinn Gauti, sonur hans, skrifar hann.