Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) hafa verið sýknaðir af tug milljóna króna kröfum félagsins Manna og móta vegna ógreidds reiknings vegna uppsteypunar. Félagi Omzi átti að sjá um verkið en margt misfórst í framkvæmdinni, hún tafðist mikið og öryggi var ekki sinnt. Omzi fór í gjaldþrot og eigandinn var dæmdur fyrir skattsvik.
Dómurinn féll þann 9. júlí í Héraðsdómi Reykjaness en var birtur í dag.
Krafan í málinu hljóðaði upp á um 76,5 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum frá árinu 2018. Byggingafélagið Omzi ehf í Hveragerði átti upphaflegu kröfuna, en eftir gjaldþrot félagsins ári síðar fór hún til félagsins Eyjaborgar ehf þar til það félag varð gjaldþrota árið 2022. Það var félagið Menn og mót ehf sem fór með hana fyrir héraðsdóm.
Kemur fram að Omzi hafi tekið að sér uppsteypu á fjölbýlishúsi með verksamningi við ÍAV árið 2017. Samið var um að Omzi myndi skila af sér fullunnu verki eigi síðar en 15. mars árið 2018 í samræmi við verklýsingar og teikningar og innifalið væri öll vinna og tæki sem þurfti til að ljúka því. Kveðið var á um skyldur varðandi gæðastjórnun, öryggi, umhverfismál, frágang og fleira. Var samningsfjárhæðin tæpar 138 milljónir króna, greitt eftir framvindu. Færi verkið fram yfir skyldi Omzi greiða ÍAV 140 þúsund krónur í févíti fyrir hvern almanaksdag.
Vinnan hófst um mitt sumar 2017 en snemma kom í ljós að tafir yrðu á verkinu og jukust þær eftir því sem verktímanum leið. Í fundargerðum í lok árs 2017 kom fram að áætlun myndi ekki standast og að ÍAV hefði verulegar áhyggjur af seinkun verksins. Kröfðust ÍAV að Omzi myndi leggja fram raunhæfa áætlun um hvernig vinna skyldi upp tapaðan tíma. Lögðu ÍAV Omza viðbótarmannskap til að takast á við þetta.
Í fundargerðum frá júní árið 2018 segir svo að tafirnar séu orðnar það miklar að þær séu farnar að valda ÍAV verulegu fjártjóni. Tafirnar væru endalausar og krani á vegum Omza sem hefði átt að vera farinn í apríl sé enn á verkstað og tefji framkvæmdir við gatnagerð með tilheyrandi tjóni.
Þá kom einnig fram að öryggismál væru í ólestri. Borið hefði á að fallvarnir væru ekki í lagi og að í að minnsta kosti einu tilviki hefði þurft að stöðva vinnu meðan verið var að bæta úr öryggismálum. Þá var einnig ítrekað að mikilvægt væri að halda verkstaðnum hreinum.
Enn fremur þurfti ÍAV að óska eftir því að Omzi bætti úr ýmsum ágöllum á verkinu. Ekki var hægt að bíða með það fram að verklokum. Meðal annars hafi glugga og hurðarop ekki verið í samræmi við teikningar og göt voru í steyptum veggjum.
Í júlí ákvað ÍAV að taka hluta af verkinu til sín og krafði Omza um að vinna önnur án tafar. Einnig voru lagaðar viðgerðir á kostnað Omza. Þann 30. ágúst var fundað um málið eftir að Omzi gaf út reikning upp á rúmlega 13 milljónir króna. ÍAV gerði fjölmargar athugasemdir við vinnu Omza og greindi frá því að frekari reikningar yrðu ekki greiddir. Þá var óskað eftir því að Omzi yfirgæfi verkstaðinn fyrir lok dags.
Þann 6. september rifti ÍAV samningnum en þann 24. september sama mánaðar sendi Omzi kröfubréf og hótaði að fara með málið fyrir dóm. Var riftun samningsins harðlega mótmælt. ÍAV lét það hins vegar ekki á sig fá og hafnaði greiðsluskyldu.
Eins og greint hefur verið frá í DV fór Omzi í gjaldþrot árið 2019. Lýstar kröfur í búið voru 223 milljónir króna og ekkert fékkst upp í þær. Þá var eigandi fyrirtækisins, Ómar Jóhannsson, ákærður og dæmdur fyrir skattsvik. Í Héraðsdómi Suðurlands og Landsrétti var Ómar dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi en Landsréttur lækkaði sekt hans úr 85 milljónum króna í 75.
Eins og áður segir tók Eyjaborg ehf yfir kröfu Omza í máli þeirra gegn ÍAV. Menn og mót ehf fengu svo kröfuna seinna og fóru með fyrir dóm. Dómari tók hins vegar ekki undir sjónarmið þeirra og sýknaði ÍAV af kröfunum.
Hafi ekki verið sannað að Omzi hefði átt inni hjá ÍAV. Þvert á móti hafi það verið í hina áttina, enda hafi ÍAV gert rúmlega 134 milljón króna kröfu í þrotabú Omza, sem ekkert fékkst upp í. Var Mönnum og mótum gert að greiða ÍAV 1,5 milljónir króna í málskostnað.