Fresta þurfti flugi í tvo klukkutíma vegna þess að slanga var um borð. Upphaflega var ekki vitað hvort slangan væri eitruð eða ekki.
Fréttastofa Sky greinir frá þessu.
Þann 2. júlí þurfti að fresta flugi í tvo tíma í Ástralíu vegna þess að slanga sást um borð. Vélin var á leið frá Melbourne til Brisbane, rúmlega tveggja tíma flug. Farþegar urðu varir við hinn slímuga og iðandi vágest í vélinni þegar þeir komu inn í vélina og mikið uppnám skapaðist.
Ástralar eru reyndar ekki óvanir slöngum og snákum af ýmsum toga og því tók það ekki langan tíma að fá slöngufangara á staðinn. Fangarinn, Mark Pelley að nafni, taldi fyrst að um eitraðan snák gæti verið að ræða en hann hafði þá farið niður í farangursrýmið.
Seinna kom þó í ljós að um sárasaklausan trjásnák var að ræða, sextíu sentimetra langan.
„Það var ekki fyrr en eftir að ég náði snáknum að ég áttaði mig á því að hann var ekki eitraður,“ sagði Pelley. „Þangað til leit hann út fyrir að vera mjög hættulegur.“
Sagði hann mikla lukku að það hafi tekist að ná slöngunni. Hún hafi verið á leiðinni undir panel og hún hefði getað týnst einhvers staðar djúpt inni í flugvélinni.
„Ég hafði eitt tækifæri til þess að grípa hana því ef hún hefði sloppið frá mér hefði hún komist undir panelinn og þá hefði verið gríðarlega erfitt að ná henni,“ sagði Pelley. „Snákar eru mjög snöggir, mjóir og liðugir.“
Hefði það gerst hefði þurft að rýma flugvélina og aflýsa fluginu. Það hefði ekki verið öruggt að fljúga með snák inni í vélinni, sérstaklega ekki þegar það var ekki ljóst hvort hann væri eitraður eða ekki. En sem betur fer var slangan gripin og flugið tafðist aðeins um tvo klukkutíma.