Í gær var veist að Eyþóri Árnasyni, ljósmyndara Morgunblaðsins, þar sem hann var við vinnu sína að mynda á mótmælafundi samtakanna Ísland-Palestína fyrir utan Utanríkisráðuneytið á þriðja tímanum.
Fjölmargir hafa fordæmt árásina, þar á meðal félagið Ísland-Palestína harmar árásina á Eyþór og segir hana óásættanlega.
Sjá einnig: Árásin á Eyþór fordæmd úr öllum áttum – „Þetta er ógeðsleg og óásættanleg framkoma“
Furðulegasta athugasemdin verður þó að teljast frá fyrrum þingmanni sem ýjar að því að Morgunblaðið hafi skipulagt atvikið.
Maður nokkur gekk á milli fjölmiðlafólks sem var viðstatt mótmælin og spurði fyrir hvaða fjölmiðla viðkomandi starfaði. Tökumaður á vegum RÚV var ekki áreittur, en þegar Eyþór upplýsti um hver vinnuveitandi hans er skvetti maðurinn rauðri málningu á hann.
Fjölmargir tjáðu sig um atvikið á samfélagsmiðlum, þar á meðal Birta Björnsdóttir fréttamaður á RÚV. Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri RÚV, deilir færslu hennar. Í athugasemd hjá Heiðari Erni skrifar Þór Saari, hagfræðingur og fyrrum þingmaður fyrir Hreyfinguna:
„Hann vinnur hjá Morgunblaðinu hverra ritstjórn styður þjóðarmorðið á Gaza. Hvaða voðalegu vandlætingar eru þetta. Þetta hefur örugglega verið sviðsett, það vinnur þannig þetta lið. Svo það fylgi með þá er Morgunblaðið ekki einhver venjulegur „fjölmiðill“ þótt sumir telji svo vera. Moggin er áróðurssnepill stórútgerðarauðvaldsins og bæklaðrar hugmyndafræði hægri öfgamanna sem styðja Ísrael alveg sama hvað. Það er ekki hægt að skilgreina útsendara Moggans sem fjölmiðlafólk. Myndirnar hans munu rata beint til CIA, MI6 (eins og allt ljósmyndasafn Moggans hefur gert), og Mossad. Það er vissulega leitt að öfgarnar í sumum fjölmiðlum, þ.e. Mogganum, skuli vera komnar á þetta stig en þegar svo er þá má því miður búast við einhverju svona.“
Heiðar Örn svarar athugasemdinni einfaldlega með „Svakalega ertu klikkaður.“ Guðmundur Bergkvist, tökumaður á RÚV, sem var á staðnum svarar Þóri: „Ég horfði á þetta með eigin augum, aðdragandann og atvikið og að halda svona bulli fram er í besta falli kjánaskapur.“
Þór svarar Heiðari Erni og minnist þar ekki aftur á árásina á Eyþór heldur vinnubrögð Morgunblaðsins þegar kemur að umfjöllun um þjóðarmorðið á Gaza:
„Nú? Það er aldeilis. Ég á nú bágt með að trúa því að maður með aðra eins reynslu úr fjölmiðlum og þú líti virkilega á Morgunblaðið og ritstjórn þess sem einhvern boðbera sannleika í umfjöllun sinni. Ef þú hefðir kjark þá myndirðu náttúrulega vísa þessari „klikkun“ sem þú berð upp á mig til ritstjórnar Morgunblaðsins, því það eru þeir en ekki ég sem styðja þjóðarmorðið á Gaza. Þótt fréttastofa RÚV hafi að vísu byrjað að rétta úr kútnum síðla vetrar varðandi fréttaflutning af þessu voðaverki, þá mun það vonandi aldrei gleymast hvernig orðfæri fréttastofan notaði framan af og það verður vonandi einhvern tíman talið hversu mörg viðtöl og hversu margar yfirlýsingar fréttastofan birti við og frá Nethanjahú og fólkinu hans, hversu oft fréttastofan hefur talað um „mannúðarkrísu“ í stað þjóðarmorðs og hversu oft þið hafið vísað í eitthvað stríð millið Ísraels og Hamas á Gaza. Þú sást það jafnvel og allir aðrir Heiðar Örn, strax undir lok 2023 að það var ekkert stríð í gangi heldur útrýming á þjóð og að kalla þetta stríð er svona álíka gáfulegt og að halda því fram að gyðingarnir í Auschwitz hafið verið í stríði við Þýskaland. Sem betur fer virðist sannleikurinn um málið vera farinn að ná í gegn hjá ykkur en það tók langan tíma, allt of langan, og vonandi lærið þið af reynslunni. Það verður líklega búið að útrýma Palstínsku þjóðinni þá, en saga þessa þjóðarmorðs, saga stuðnings vesturlanda við málið með þögninni einni sem og endurómur vestrænna fjölmiðla af þeirri þögn gleymist ekki.“
Sjá einnig: „Ömurleg uppákoma“ segir Stefán um árás á ljósmyndara Morgunblaðsins
Myndband af hluta árásarinnar hefur verið birt á Facebook-síðu fréttastofu RÚV og það má sjá hér.