Hatrammt rifrildi milli tveggja karlmanna, annars á þrítugsaldri og hins á fertugsaldri, í Mjódd í Breiðholti laugardagskvöldið 12. júlí endaði með að sá fyrri stakk hinn með hnífi.
Sjá einnig: Alvarlega slasaður eftir hnífsstungu
Myndband af árásinni er í dreifingu á samfélagsmiðlum og þar má sjá aðdraganda árásarinnar.
Ýjað hefur verið að því að árásin tengist innflytjendum en á orðaskiptum mannanna má augljóslega heyra að þeir eru íslenskir.
Meðal annars má heyra þolandann segja: „Lítill heimur, mundu það….“
Lögreglu barst tilkynning um árásina klukkan 23:08 og er hana bar að garði fannst brotaþolinn alvarlega særður, eins og sagði í tilkynningu lögreglu. Karlmaðurinn sem er um fertugt var fluttur með alvarlega áverka með sjúkrabíl á slysadeild. Á þriðjudag var greint frá því að hann væri kominn úr lífshættu, en ástand hans væri enn alvarlegt.
Stunguárás
Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn nærri vettvangi grunaður um árásina og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 18. júlí á grundvelli rannsóknarhagsmuna. DV hefur ekki upplýsingar um hvort gæsluvarðhaldið var framlengt.