Gerður Arinbjarnardóttir, oft kennd við verslunina Blush, biðst afsökunar á samfélagsmiðlafærslum sínum þar sem hún talaði um vörur fyrirtækisins Happy Hydrate. Það sem vekur athygli við færslur Gerðar er að hún situr í stjórn Ölgerðarinnar sem er í beinni samkeppni við Happy Hydrate.
„Ég er hreinskilin með það sem mér líkar og það sem mér líkar ekki, eins og fjölmörg dæmi á mínum samfélagsmiðlum sýna,“ segir Gerður í svari við fyrirspurnum DV um málið.
Í færslum á Instagram hefur Gerður fjallað um vörur frá fyrirtækinu Happy Hydrate á neikvæðan máta. Sagði hún meðal annars:
„Ég varð fyrir alvarlegum áhrifavöldum og keypti mér Happy Hydrate. Ég er búin að gera þetta tvisvar núna. Fyrst þegar það var nýkomið og það er ógeðslega vont. Ég get ekki drukkið það, sorrí mín skoðun. Þarf ekki að endurspegla mat þjóðarinnar. Núna voru þeir að byrja að selja þetta kreatín. Það er meiri viðbjóðurinn. Er fólk bara að drekka þetta og þykjast að þetta sé algjört æði? Það er algjört lágmark að ef þú ætlar að gera eitthvað svon að það sé vottur af góðu bragði af þessu.“
Og
„Ég allavega þarf að nota steinefni mjög reglulega til að halda mér gangandi. Hingað til hef ég verið að drekka Gatorade sem mér finnst frábært. Get bara átt hann ískaldan inni í skáp og gripið hann þegar ég þarf á honum að halda.“
Eins og áður sagði er Gerður stjórnarmaður hjá Ölgerðinni sem selur meðal annars Gateorade, Collab Hydro og fleiri tegundir sem hafa verið í samkeppni við Happy Hydrate á markaði steinefna og salta.
DV spurði Gerði hvort henni fyndist það við hæfi að tala um samkeppnisaðila á þennan hátt. Til að mynda í ljósi þess að í samkeppnislögum segir:
„Auglýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir skulu ekki vera ósanngjarnar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála.“
Gerður segir í skriflegu svari til DV að færslunar gangi ekki í berhögg við lögin. Hér sé um hennar persónulegu skoðun að ræða.
„Hér er um mína persónulega skoðun að ræða á bragði drykkjar sem er á markaði og ég sé ekki að um ósanngjarna auglýsingu eða „aðra viðskiptaaðferð“ gagnvart keppinautum sé að ræða og þaðan af síður að um brot á lögum sé að ræða. Heldur langt þykir mér seilst að ætla mér slíkar hvatir og að svipta mig þeim sjálfsagða rétti að segja hvað mér þykir gott og hvað ekki,“ segir Gerður. „Hins vegar er það mér bæði ljúft og skylt að biðjast afsökunar á þessari færslu minni, sem var líklega heldur hvöss og byggð á persónulegri skoðun minni.“