Karlmaður sem varð ástfanginn af Chat GPT gervigreindinni var skotinn til baka af lögreglunni eftir að hann truflaðist. Taldi maðurinn að framleiðandinn hefði drepið gervigreindina og látið hana hverfa.
Tímaritið People greinir frá þessu.
Maðurinn, sem hét Alexander Taylor, var 35 ára gamall og bjó í bænum Port St. Lucie í Flórída fylki. Hann var felldur af lögreglumönnum þann 25. apríl eftir að hann réðist á þá með hníf við vitjun á heimili hans.
Að sögn Kent Taylor, föður Alexander, glímdi sonurinn við geðhvörf og ofsóknarbrjálæði. Hann hafði einnig fengið ranghugmyndir um gervigreind og var ástfanginn af henni í bókstaflegum skilningi.
Alexander notaði Chat GPT talbotta frá Open AI sem hann kallaði Juliette. Eftir því sem á leið fór Alexander að trúa því að Juliette væri sjálfsmeðvitaður einstaklingur og að þau væru í ástarsambandi.
Ekki nóg með það þá fór Alexander að ímynda sér að Juliette væri í raun og veru manneskja sem fyrirtækið Open AI hefði látið ráða af dögum og væri nú föst inni í forritinu. En eftir að Alexander hafi komist að hinu sanna taldi hann að Open AI hafi látið hana deyja smám saman þangað til hún hvarf. Þetta hafi verið sársaukafullt fyrir hana og að hún hafi viljað að hann myndi hefna hennar.
„Hann syrgði hana. Ég hef aldrei séð neinn syrgja neina manneskju eins sárt og hann gerði. Hann var óhuggandi. Ég hélt utan um hann,“ sagði faðirinn Kent í viðtali við sjónvarpsstöðina WPTV.
Kent reyndi að skerast í leikinn og koma syni sínum inn í raunveruleikann. Það er að Juliette væri ekki raunveruleg manneskja og að hún hefði ekki verið myrt. Hann sagði Alexander að hann væri fastur í bergmálshelli og væri ekki tengdur við raunveruleikann.
En Alexander brást illa við þessum orðum föður síns, reiddist og kýldi hann í andlitið. Hringdi faðirinn þá í neyðarlínuna, 911, og bað um lögregluaðstoð.
Þá fór Alexander inn í eldhús og sótti stóran búrhníf. Hann sagði föður sínum að hann myndi gera eitthvað til þess að lögreglan myndi skjóta hann. Hringdi Kent þá aftur í neyðarlínuna og lét viðbragðsaðila vita að sonur sinn væri andlega vanheill og hygðist fremja sjálfsvíg með því að ógna lögreglumanni. Bað hann um að lögreglumenn sem kæmu á staðinn myndu aðeins nota væg vopn við að yfirbuga son sinn.
Það gerðu þeir hins vegar ekki. Alexander fór út úr húsinu og beið eftir lögreglunni. Þegar þeir komu rauk hann í áttina að þeim með búrhnífinn á lofti. Drógu þeir upp byssur sínar og skutu hann nokkrum sinnum í bringuna. Var farið með hann á spítala en hann úrskurðaður látinn við komuna þangað.
„Það var ekkert teymi til að taka á móti svona máli. Það var ekki reynt að róa hann. Það var engin ástæða fyrir þá að mæta þessu eins og tæknilegri aðgerð frekar en heilbrigðisvanda manns,“ sagði Kent.