fbpx
Miðvikudagur 17.desember 2025
Fréttir

Ríkisstjórnin sendir þjóðinni skilaboð: „Það er engin ástæða til ótta – en það er rík ástæða til að vera vel undirbúin”

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 25. júní 2025 08:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er lykilatriði að við gerum allt sem við getum til að standa saman vörð um það einstaka traust og samheldni sem einkennir íslenskt samfélag. Þetta er okkar pólitík.“

Svo segja þær Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Inga Sæland félags og húsnæðismálaráðherra í aðsendri grein sem birtist á vef Vísis í morgun.

Algjör samstaða

Tilefni greinarinnar er sá órói sem ríkir víða í heiminum, þar á meðal í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Í grein sinni segja þær að aðild Íslands að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin verði áfram grunnstoðir í utanríkisstefnu Íslands. Engin eðlisbreyting verði á sambandi Íslands við Atlantshafsbandalagið.

Í grein sinni segja forystumenn stjórnarflokkanna að ríkisstjórnin sé staðráðin í að styrkja varnir og öryggi landsins.

„Við styrkjum innviði hér heima sem styðja við öryggi og varnir Íslands. Þannig eflum við getu okkar til að vinna með bandalagsríkjum. Saman stöndum við vörð um traust og samheldni í íslensku samfélagi. Það er okkar sterkasta vörn gegn áföllum og árásum í nútímavæddum heimi. Um þetta er algjör samstaða í ríkisstjórn. Og allt fer þetta vel saman við stefnu ríkisstjórnarinnar í innanlandsmálum.“

Í greininni benda þær á að í ríkisstjórninni og á Alþingi sé þverpólitísk sátt um að aðild okkar að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin verði áfram grunnstoðir í stefnu okkar í utanríkismálum.

Ísland áfram verðugur bandamaður

„Á leiðtogafundi NATO í Haag í dag munu leiðtogar aðildarríkja sammælast um að efla sameiginlegar varnir ríkjanna til muna á næstu árum. Það er jákvætt í ljósi aðstæðna. Þó er mikilvægt að taka fram að það verður engin eðlisbreyting á sambandi Íslands við NATO. Ísland mun áfram vera verðugur bandamaður á borgaralegum forsendum. Staða okkar innan bandalagsins er óbreytt frá því sem verið hefur síðan Ísland gerðist eitt af stofnríkjum þess árið 1949. Og því hefur verið haldið til haga á öllum okkar fundum með fulltrúum bandalagsríkja á undanförnum misserum.“

Kristrún, Þorgerður og Inga benda á að framlag Íslands til sameiginlegra varna NATO-ríkjanna hafi alltaf falist í öðru en beinum fjárframlögum til hermála. Ísland hafi enda ekki her og njóti skilnings á þeirri stöðu. Áfram verður Norðurlöndunum og öðrum NATO-ríkjum fylgt þegar kemur að stuðningi við varnarbaráttu Úkraínu í innrásarstríði Rússa.

„En fyrst og fremst munum við styrkja stöðu Íslands sem bandalagsríkis með því að einbeita okkur að því sem við þekkjum, kunnum og getum hér heima. Þannig tryggjum við hagsmuni Íslands,“ segja þær.

Frumskylda að standa vörð um þjóðaröryggi

Í greininni kemur fram að árið 2035, eða eftir 10 ár, sé markmiðið að við verjum 1,5% af vergri landsframleiðslu til að styðja við öryggi og varnir.

„Ríkisstjórnin hefur gengið í verkið með fjármálaáætlun um öryggi og innviði Íslands. Einnig er unnið að mótun öryggis- og varnarmálastefnu með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi sem verður lögð fram á þingi í haust. Svona byggjum við áfram á styrkleikum okkar. En allar ákvarðanir um fjárfestingu og framlög verða eftir sem áður teknar endanlega á Alþingi í fjárlögum. Það er engin ástæða til ótta – en það er rík ástæða til að vera vel undirbúin.”

Þá segja þær lykilatriði að við gerum allt sem við getum til að standa vörð um það einstaka traust og samheldni sem einkennir íslenskt samfélag.

„Þetta er okkar pólitík. Traustið og samheldnin er líka okkar öflugasta vörn gegn áföllum og árásum af ýmsum toga,“ segja þær en greinin endar á þessum orðum: „Það eru óróatímar í heimsmálum. Þá er frumskylda ríkisstjórnar að standa vörð um þjóðaröryggi. Og það mun ríkisstjórnin gera af heilum hug og hollustu við Ísland.“

Greinin í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Mannslát á Kársnesi: Gæsluvarðhald framlengt til 13. janúar

Mannslát á Kársnesi: Gæsluvarðhald framlengt til 13. janúar
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Björn Leví lætur gamlan kollega heyra það – „Það væri fínt að losna við hann úr þinginu”

Björn Leví lætur gamlan kollega heyra það – „Það væri fínt að losna við hann úr þinginu”
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Hjón réðust til atlögu við annan af hryðjuverkamönnum á Bondi-strönd en lifðu það ekki af – Hyllt sem hetjur

Hjón réðust til atlögu við annan af hryðjuverkamönnum á Bondi-strönd en lifðu það ekki af – Hyllt sem hetjur
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Halldór Blöndal er látinn

Halldór Blöndal er látinn
Fréttir
Í gær

Manuela Ósk svarar Helenu – „Í flestum tilfellum farið með hreinar rangfærslur“

Manuela Ósk svarar Helenu – „Í flestum tilfellum farið með hreinar rangfærslur“
Fréttir
Í gær

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu
Fréttir
Í gær

Safnað fyrir Gunnar Inga sem á langt bataferli framundan – „Fyrir algjört kraftaverk var lífi hans bjargað“

Safnað fyrir Gunnar Inga sem á langt bataferli framundan – „Fyrir algjört kraftaverk var lífi hans bjargað“
Fréttir
Í gær

Verðkönnun á jólakjöti – Sjáðu hvar það er ódýrast og hvar það er dýrast

Verðkönnun á jólakjöti – Sjáðu hvar það er ódýrast og hvar það er dýrast