Bergorka ehf. hefur sent inn kvörtun til Samkeppniseftirlitsins (SKE) vegna meintra brota eignarhaldsfélagsins Festi hf. á sátt sem N1 gerði við SKE í tilefni af samruna N1 og Festi árið 2018. Er gerð krafa um að SKE rannsaki þessi meintu brot Festi sem lúta að því að hafa ekki boðið Bergorku upp á viðunandi verð á eldsneyti í heildsölu. Ennfremur er þess krafist að SKE beiti Festi dagsektum, afturkalli samþykki sitt fyrir samruna Festi og N1, ógildi samrunann og mæli fyrir um að Festi verði skipt upp.
Í kvörtuninni, sem Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður ritar, segir:
„Í byrjun október 2017 var samrunaskrá vegna boðaðs samruna N1 hf. og Festi hf. send SKE. Samruninn tók gildi og varð löglegur 30. júlí 2018, en þann dag undirritaði N1 hf. sátt við SKE, sem yfirtökuaðili, sem hefur að geyma skilyrði SKE fyrir því að samþykkja samrunann. Sáttin tilgreinir þær skuldbindingar sem Festi tók á sig, þannig að eytt yrði þeim skaðlegu áhrifum sem samruninn myndi ella hafa á samkeppni skv. frummati SKE.
Meðal þeirra skuldbindinga sem Festi gekkst undir með sáttinni var að auka aðgengi að heildsölu eldsneytis. Í 3. gr. sáttarinnar er lýst þeim skuldbindingum sem Festi lofaði að efna í því skyni. Á grundvelli þessara skuldbindinga ákvað umbj. minn um haustið 2018 að hefja starfsemi sem birgir á eldsneytismarkaði og selja eldsneyti til stórnotenda. Engin sala af hans hálfu hefur þó enn farið fram.“
Segir síðan að Bergorka hafi ítrekað óskað formlega eftir að kaupa eldsneyti á heildsöluverði frá Festi. Viðbrögð Festi voru fyrst á þá leið að hafna því að gera Bergorku tilboð í heildsöluviðskipti. Eftir afskipti óháðs kunáttumanns hjá Festi var breytt um afstöðu um hálfu ári síðar. En tilboðið sem var gert var að mati Bergorku ekki í samræmi við ákvæði sáttarinnar við SKE og gerði Bergorku ekki kleift að keppa við Festi í smásölu á eldsneyti. Óskaði Bergorka í kjölfarið ítrekað eftir verðtilboðum en þeim beiðnum var ýmist ekki svarað eða svarað með tilboðum sem Bergorka taldi óviðunandi.
„Vegna ábendinga Bergorku og óháðs kunnáttumanns með framkvæmd sáttarinnar um að Festi hefði ítrekað brotið gegn 3. gr. sáttarinnar hóf SKE rannsókn á málinu,“ segir síðan í kvörtuninni. Sendi SKE Festi andmælaskjal í desember árið 2023 og leitaði Festi í kjölfarið eftir því að ljúka málinu með sátt. Var málinu lokað með undirritun sáttar þann 28. nóvember árið 2024.
Síðan segir:
„Með sáttinni viðurkenndi Festi að hafa brotið gegn tilteknum ákvæðum sáttarinnar frá 30. júlí 2018 sem varða samkeppni á eldsneytismarkaði, þ. á m. með því að hafa synjað nýjum aðila um tilboð í eldsneytisvið-skipti, og síðar að svara ekki verðfyrirspurnum hans. Það var mat hins óháða kunnáttumanns og niðurstaða SKE í frummati (andmælaskjali) að bæði synjun Festi á að gera Bergorku tilboð og þau verðtilboð sem Festi gerði hafi falið í sér brot á 3. gr. samrunasáttarinnar, enda gerðu tilboðin Bergorku ekki kleift að keppa við smásölu Festi. Er enginn munur á því í þessu samhengi að gera ekki tilboð og gera tilboð sem ekki er í samræmi við sátt Festi og SKE.
Umbj. minn fullyrðir að þau verð sem Festi haf verið að bjóða stórnotendum, m.a. í sjávarútvegi, hafi verið lægri en þau tilboð sem honum voru gefin.“
Bergorka álítur að Festi hafi einnig þverbrotið þessa sátt með algjörlega ófullnægjandi tilboðum á eldsneyti í heildsölu, var verðið mun hærra en það sem Bergorka gat fellt sig við:
„Forsvarsmenn Bergorku gjörþekkja verðmyndun í eldsneytissölu til stórnotenda. Þeir höfðu einnig vitneskju um hvaða verð Festi bauð á þessum tíma sínum viðskiptavinum í viðskiptum, sem Bergorka hugðist hasla sér völl. Það blasir því við að Festi hefur þrátt fyrir sáttina frá 28. nóvember 2024 haldið áfram að brjóta gegn ákvæðum 3. gr. samrunasáttarinnar.“
Kærir Bergorka því formlega meint brot Festi á samrunasáttinni og segir brotið felast í því að gera Bergorku ekki tilboð og gera henni síðan of há tilboð. „Það skal tekið fram að enginn nýr aðili hefur haslað sér völl sem seljandi eldsneytis í smásölu til stórnotenda á grundvelli 3 gr. samrunasáttarinnar.“
Í niðurlagi kvörtunarinnar segir að með hliðsjón af áframhaldandi og síendurteknun brotum Festi á samrunasáttinni við SKE séu forsendur ákvörðunar SKE varðandi samruna Festi og N1 brostnar. Krefst Bergorka þess að SKE ógildi samruna N1 og Festi og mæli fyrir um skiptingu Festi.