fbpx
Föstudagur 23.maí 2025
Fréttir

Fá ekki að hafa svalalokanir eins og nágrannarnir

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 22. maí 2025 20:06

Hluti fjölbýlishússins við Hafnarbraut 14 í Kópavogi en íbúar á hinni inndregnu fimmtu og efstu hæð mega ekki reisa svalalokanir eins og leyft hefur verið við sumar íbúðir á neðri hæðum hússins og á efstu hæð sumra húsa í nágrenninu. Mynd: Skjáskot/Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur staðfest þá niðurstöðu Kópavogsbæjar að neita beiðni húsfélags fjölbýlishúss í bænum um að deiliskipulagi svæðisins sem það tilheyrir yrði breytt og þar með íbúum á fimmtu og efstu hæð hússins veitt heimild að setja upp svalalokun við íbúðir sínar. Vísaði húsfélagið meðal annars til þess að þetta væri heimilt á efstu hæðum húsa í næsta nágrenni og töluvert væri um svalalokanir við íbúðir á neðri hæðum hússins.

Um er að ræða fjölbýlishús við Hafnarbraut 14 í bænum en því er skipt í fjórar einingar, A, B, C og D.

Húsfélagið óskaði eftir því að deiliskipulagi fyrir svæðið sem húsið tilheyrir yrði breytt á þann veg að felld yrði út setningin „Ekki er heimilt að gera svalalokanir á efstu hæðum húsa“. Skipulagsfulltrúi bæjarins mælti hins vegar með synjun og umhverfis- og skipulagsráð og í kjölfarið bæjarstjórn fóru að þeirri tillögu.

Húsfélagið kærði þá málið til nefndarinnar. Í kærunni kom fram að í nágrenni hússins hafi verið heimilað að gera svalalokanir á efstu hæðum húsa, t.d. á Kópavogstúni sem og í Lundi og Naustavör. Þar hafi verið settar upp svalalokanir á öllum hæðum bygginga og í skipulagsskilmálum fyrir þessi svæði sé hvergi tekið fram að ekki sé heimilt að setja upp svalalokanir og frekar mælst til þess til að íbúar fái betri hljóðeinangrun frá umhverfinu.

Ónæði

Húsfélagið benti einnig á að húsið væri byggt á svæði þar sem flugumferð sé mikil. Því fylgi mikil hljóðmengun frá þyrlum og einka­þotum. Þá sé vindasamt á svölum hússins og því takmarkaðir möguleikar fyrir íbúa á efstu hæð að njóta útiveru á svölum sínum sem feli í sér mismunun. Einnig var vísað til þess að arkitekt hússins hafi leyft 15 svalalokanir til viðbótar þeim sex sem settar hafi verið upp þegar húsið hafi verið byggt.

Í andsvörum Kópavogsbæjar var bent á að húsið væri á Kársnesi og í aðalskipulagi Kópavogs komi fram að byggingar í þeim hluta bæjarins skuli alla jafna vera 2–4 hæðir og ef um sé að ræða fimm hæða hús skuli efsta hæðin vera inndregin. Svalalokun á fimmtu hæð hússins sé ekki heimil samkvæmt deiliskipulagi. Vísaði bærinn til þess að inndregnar hæðir í fjölbýlishúsum hafi fagurfræðileg áhrif á byggingar og umhverfi þeirra, en svalalokun á efstu hæð umrædds húss myndi gera bygginguna stórvaxna og þunga í götumyndinni. Tilgangurinn með því að hafa efstu hæðina inndregna væri að mýkja ásýnd byggingarinnar. Svalalokun á efstu hæð myndi jafngilda því að húsið væri 5 hæðir útlitslega séð án inndráttar svala og slíkt væri í andstöðu við ákvæði aðal­skipulags.

Fordæmi

Bærinn vildi sömuleiðis meina að það skapaði ekki gott fordæmi að falla frá þessum ákvæðum deiliskipulagsins.

Tilvísanir húsfélagsins til annarra bygginga í Kópavogi þar sem svalalokanir séu leyfðar á efstu hæðum ættu ekki við í málinu enda væru aðstæður misjafnar á þeim lóðum sem nefndar hafi verið. Auk þess hafi hönnuðir hússins lagst gegn breytingunni.

Vísaði bærinn loks til þess að vindur og hávaði frá flugstarfsemi veitti ekki húsfélaginu rétt til að fá deiliskipulagi svæðisins breytt.

Ekki bara fimmta hæðin

Í frekari athugasemdum húsfélagsins kom fram að það væri rangt hjá bænum að deiliskipulagið bannaði aðeins svalalokanir á efstu hæð hússins einni, það ætti við um efstu hæðirnar, ekki bara þá fimmtu. Það væri enn fremur rangt hjá bænum að arkitekt hússins væri eingöngu mótfallinn svalalokunum á fimmtu hæð. Þvert á móti vildi hann ekki hafa svalalokanir á bæði fjórðu og fimmtu hæð, og sömuleiðis ekki á hornum hússins.

Loks sagði húsfélagið að ekki hafi verið rökstutt hvers vegna hafi verið leyfðar svalalokanir á efstu hæðum húsa í öðrum hverfum Kópavogs. Uppsetning svalalokana á efstu hæð muni ekki breyta ásýnd götumyndar þar sem um sé að ræða gegnsæjar og léttbyggðar svalalokanir og að hönnuðir hússins ættu ekki rétt á að  hafna breytingum sem væru íbúum til hagsbóta og aukinna lífskjara.

Bara fimmta hæð

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að skilja verði skipulagsskilmála deiliskipulagsins með hliðsjón af skilmálum aðalskipulags Kópavogs­bæjar á þann veg að óheimilt sé að hafa svalalokanir á fimmtu og efstu hæð hússins. Eigi skipulagsskilmálarnir þannig ekki við um svalalokanir á fjórðu hæð hússins, en svo virðist sem synjun hönnuða hússins komi í veg fyrir svalalokun á þeirri hæð.

Vill nefndin meina að synjun bæjarins á að falla frá banni við svalalokunum á fimmtu hæðinni byggi á málefnalegum sjónarmiðum. Þegar kemur að vísunum húsfélagsins til svalalokana á efstu hæðum húsa í nágrenninu segir nefndin að svalalokanir í Naustavör séu ekki fordæmisgefandi þar sem fjölbýlishúsin þar séu öll fjögurra hæða, en ákvæðin í aðal­skipulagi eigi við um fimmtu hæð.

Nefndin segir að þegar kemur að tilvísun húsfélagsins til svalalokana á efstu hæð í Lundi þá tilheyri Lundur Digranesi en ekki Kársnesi og ekki sé að finna sömu skilmála um hæðir bygginga og svalir á því svæði í aðalskipulagi Kópavogs. Þar sem um ólíka skipulagsskilmála sé að ræða verði ekki séð að bærinn fari með ákvörðun sinni á svig við jafnréttissjónarmið stjórnsýsluréttar.

Ákvörðun Kópavogsbæjar um að neita að veita leyfi fyrir svalalokunum á efstu hæð hússins var því staðfest.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Segir 140 sinnum líklegra að verða fyrir eldingu en að vinna stóra vinninginn í Euro Jackpot

Segir 140 sinnum líklegra að verða fyrir eldingu en að vinna stóra vinninginn í Euro Jackpot
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Áfrýjunardómstóll tekur mál hnífamannsins sem stakk Ingunni Björnsdóttur fyrir

Áfrýjunardómstóll tekur mál hnífamannsins sem stakk Ingunni Björnsdóttur fyrir
Fréttir
Í gær

Óvenjuleg sjón blasti við í morgungöngutúrnum – „Um leið og ég sá að það kom einhvað hvítt út að þá hringdi ég rakleiðis í Reykjavíkurborg!“ 

Óvenjuleg sjón blasti við í morgungöngutúrnum – „Um leið og ég sá að það kom einhvað hvítt út að þá hringdi ég rakleiðis í Reykjavíkurborg!“ 
Fréttir
Í gær

Aðstandendur Sigurðar kærðu vinnubrögð eftir andlát hans til eftirlitsnefndar

Aðstandendur Sigurðar kærðu vinnubrögð eftir andlát hans til eftirlitsnefndar
Fréttir
Í gær

Hnífstungumaðurinn í Úlfarsárdal handtekinn – Myndband sýnir hann ráðast að tveimur mönnum

Hnífstungumaðurinn í Úlfarsárdal handtekinn – Myndband sýnir hann ráðast að tveimur mönnum
Fréttir
Í gær

Viðamikil lögregluaðgerð í Úlfarsárdal – Manns leitað eftir hnífstungu við Skyggnisbraut

Viðamikil lögregluaðgerð í Úlfarsárdal – Manns leitað eftir hnífstungu við Skyggnisbraut