Maður að nafni Drew Garnier hefur verið dæmdur til 30 ára fangelsisvistar fyrir morð á barnshafandi eiginkonu sinni. Hann stakk hana og tvær dætur hennar þegar hann komst að því að hún gengi með stúlkubarn undir belti.
Tímaritið People greinir frá þessu.
Hinn 33 ára Drew myrti 29 ára gamla eiginkonu sína, Samantha, í Centerville í New York fylki í Bandaríkjunum. Þá stakk hann tvær dætur þeirra sem hann hafði gengið í föðurstað.
Lögregla kom að heimilinu þann 5. september í fyrra eftir að tilkynning barst um heimilisofbeldi. Þegar lögreglumenn komu á heimilið fundu þeir Samönthu og dæturnar, allar með mörg stungusár á líkamanum.
Reyndu þeir að stöðva blæðinguna þar til sjúkraflutningamenn komu á staðinn. Vegna alvarleika sáranna var kallað á þyrlu sem flutti þær á næsta spítala eins og segir í tilkynningu ríkislögreglunnar í New York.
Samantha, sem var komin fimm mánuði á leið af þriðja barni sínu, var úrskurðuð látin skömmu eftir komuna á spítalann en dæturnar lifðu báðar af.
Drew játaði brot sitt fyrir dómi og samdi við saksóknara um vægari refsingu fyrir vikið. Að sögn Shawn J. Smith, saksóknara í málinu, er sú ástæða að dætur Samönthu lifðu af ástæðan fyrir því að Drew gat samið um vægari refsingu sem hljómar vissulega öfugsnúið og í raun ekki eins og það ætti að vera samkvæmt saksóknaranum. En hann vildi hlífa dætrunum við löngum réttarhöldum í málinu svo þær gætu einbeitt sér að því að ná bata.
Dæturnar búa nú hjá foreldrum Samönthu. „Ég er faðir þeirra núna. Ég skal passa þær,“ sagði faðir hennar í réttarhöldunum. Það var einmitt hann sem upplýsti réttinn um ástæðu þess að Drew myrti dóttur hans. Það er að hann hafi alltaf viljað eignast son. Þegar hann hafi frétt að þriðja barnið væri dóttir brást hann við með þessum hætti.
Eins og áður segir hlaut Drew 30 ára fangelsisdóm fyrir einfalt morð. Eftir það taka við 15 ár af skilorðsbundinni afplánun. Þar að auki er honum bannað að hafa samband við dæturnar í 20 ár, eða til ársins 2056. Ef þær vilja þá geta þær fengið þessari síðastnefndu kvöð aflétt.