Í tilkynningu frá Náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands kemur fram að talsverð eftirskjálftavirkni hafi fylgt í morgun og það megi búast við að skjálftar geti haldið áfram og orðið allt að 3,8 að stærð.
Yfir 700 jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu frá því að jarðskjálftahrinan hófst í fyrrinótt.
Veðurstofunni hafa borist fjölmargar tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist í byggð, meðal annars frá Siglufirði, Akureyri og Bakkafirði.
„Ástæða fyrir mikilli jarðskjálftavirkni á Grímseyjarbeltinu, sem tilheyrir Tjörnesbrotabeltinu, eru sniðgengishreyfingar í jarðskorpunni. Þar hafa orðið jarðskjálftar yfir 6 að stærð. Jarðskjálftavirknin á svæðinu er því ekki tengd kvikuhreyfingum,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.